1998-12-20 02:48:08# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[26:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nefna það í upphafi að forstjórar Landmælinga hafa skrifstofu í Reykjavík og ekkert mælir gegn því að við búum við óbreytt lög og að stofnunin verði áfram staðsett í Reykjavík jafnvel þótt einhver hluti hennar sé á Akranesi. Ekkert mælir gegn því að hinkra með þetta mál.

Í lýðræðisþjóðfélagi hafa menn ýmsar leiðir til að hafa sitt fram. Menn reyna að beita rökum og það var gert í þessu máli. Menn tefldu fram hagkvæmnisjónarmiðum og þau voru yfirgnæfandi í þá átt að halda bæri þessari starfsemi í Reykjavík. Hér var hið sérhæfða fólk búsett og vildi vera. Menn skoðuðu kostnaðarrök og þau voru líka á sama veg. Og þegar kannaður var vilji starfsmanna, vilji notenda stofnunarinnar var allt á einn veg. En ekkert var á þetta hlustað. Og þá áttu menn eina leið eftir. Hún var að leita til dómstóla. Dómstóll hefur núna kveðið upp sinn úrskurð. Hann segir: Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var röng. Hún var lögbrot. Því finnst mér að ríkisstjórninni beri að íhuga málið að nýju. Það sem hún á að gera er að kalla starfsmenn til sín og vega það og meta hvaða afleiðingar þessi dómur hefur og hvort ástæða sé til að skoða málin í nýju ljósi. Þetta eru hin eðlilegu vinnubrögð. Mér finnst það mjög undarlegt ef meiri hlutinn á Alþingi ætlar að láta bjóða sér vinnubrögð af þessu tagi. Mér finnst það mjög undarlegt. Ég óttast að hann ætli að gera það. Mér fannst það koma fram í þeirri umræðu sem hér fór fram í dag. Menn höfðu ekki nokkurn einasta áhuga á að ljá þessu máli eyra. Og ég spyr, hæstv. forseti: Hvernig stendur á því að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu sem fer fram um mjög alvarlegt mál, hæstaréttardóm sem er kveðinn upp yfir lögleysu sem er framkvæmd á vegum ráðherra ríkisstjórnar?