1998-12-20 02:50:47# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[26:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við 1. umr. og get því verið stuttorð. Ég tel að full ástæða hafi verið til, eins og raunin varð á, að halda stuttan fund í umhvn. um málið. En það er hneisa eins og margt annað í þessu máli að það hafi þurft að gerast með þeim hætti að starfsfólk og fulltrúar fagfélaga þeirra hafi þurft að koma hingað um miðja nótt til þess að biðja um þennan fund með nefndinni hálfum sólarhring eða sólarhring eftir að úrskurður var upp kveðinn í máli sem fólkið, sem hefur staðið í margra mánaða deilum við hæstv. ráðherra, hélt sig hafa haft sigur í. Það er auðvitað hneisa út af fyrir sig.

Það sem ég sagði við 1. umr. málsins er í raunverulega staðfest í nefndaráliti minni hluta, sem ég þakka fyrir, og ég held að sé mjög skýrt. En ég held að það sé alveg ljóst af viðbrögðum meiri hlutans að þingið ætlar að hlaupa til hálfum eða einum sólarhringi eftir að dómur var upp kveðinn til þess að veita þessari lögleysu hæstv. ráðherra lagastoð. Mér finnst málflutningur hæstv. ráðherra mjög sérkennilegur núna eftir að umhvn. hefur fjallað um málið. Þegar hann er beðinn um rök fyrir því af hverju ekki sé hægt að viðhafa eðlileg vinnubrögð í þessu máli á hv. Alþingi, þá segir hann að alls ekki sé hægt hætta við þennan flutning. Það má vel vera að ekki sé hægt að hætta við flutning að mati ráðherrans, en við erum að fara fram á að viðhöfð séu eðlileg vinnubrögð í málinu.

Ég spyr t.d. hæstv. ráðherra: Hefði ráðherrann ekki talið nauðsynlegt að skoða það með sínum lögfræðingum í ráðuneytinu hvort að þessum dómi gætu fylgt skaðabótakröfur? Það hefur komið fram hjá Ragnari Hall að hann telur að allir samningar sem gerðir hafa verið vegna flutnings á Landmælingum séu ógildir. Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að búast megi við að eftir geti fylgt skaðabótakröfur. Hefðu það ekki verið, herra forseti, vinnubrögð sem ráðherrann hefði átt að viðhafa og þingið þá líka að kanna hvort það geti verið miðað við dóminn að skaðabótakröfur á hendur ríkinu væru líklegar til fylgja í kjölfarið? Miðað við stöðu málsins hefði auðvitað átt að skoða það með tilliti til þess.

Ráðherrann hefur ekki fært rök fyrir því af hverju ekki hægt var að fresta málinu fram yfir áramót. Við erum ekki endilega að tala um að hætta við flutninginn, heldur að fresta málinu fram yfir áramót þannig að þingið geti fjallað eðlilega um málið þegar það kemur saman að loknu jólaleyfi, kallað með eðlilegum hætti til sín starfsfólkið og fulltrúa fagfélaganna sem hefði þá haft tíma til að senda inn skriflegar umsagnir um málið en ekki að þurft að koma hér sjálft að nóttu til og biðja um að fá fund með nefndinni. Mér finnst vinnubrögðin algjör hneisa. Það er upplýst núna og staðfest af Hæstarétti að starfsfólkið, sem hefur staðið í margra mánaða deilu við ráðherrann, hafði rétt fyrir sér allan tímann, það hafði lög að mæla allan tímann en ekki ráðherrann. Það er mjög sérstakt í þessu máli að ráðherrann skuli hafa farið gegn vel rökstuddu áliti ríkislögmanns með þeim afleiðingum að hann hefur þurft að fá yfir sig dóm Hæstaréttar og það sérkennilega hefur gerst, sem ég hef ekki upplifað í minni tíð sem þingmaður, að ríkisstjórn er að bregðast við tveim hæstaréttardómum í sömu vikunni.

Ég segi og skal ekki tefja þetta mál, að mér finnst þessi dómur vera staðfesting á yfirgangi hæstv. ráðherra og áfellisdómur á vinnubrögð hans og ég mótmæli vinnubrögðum hans, bæði því hvernig ráðherrann stóð að málinu gagnvart starfsfólkinu fyrir dóminn og eins vinnubrögðum hans eftir að dómurinn var upp kveðinn vegna þess að það er auðvitað ráðherrann sem er að þrýsta þessu máli á þennan óeðlilega hátt í gegnum þingið. Ráðherrann hefur ekki gefið þau svör sem ég tel vera fullnægjandi. Af hverju má ekki bíða með þetta mál í hálfan mánuð, þrjár vikur? Af hverju telur ráðherrann ekki ástæðu til þess að skoða hvort ríkissjóður geti átt yfir höfði sér skaðabótakröfur vegna niðurstöðu þessa dóms? Málið í heild sinni er hneisa frá upphafi til enda og hæstv. ráðherra ekki til sóma.