1998-12-20 03:00:05# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[27:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi síðari ræða sýnir að ráðherrann gerir sér fulla grein fyrir að miðað við vinnubrögð hans í öllu þessu máli getur ríkissjóður átt yfir höfði sér skaðabótakröfur.

Hæstv. ráðherra segir að hann ætli að ræða við starfsfólkið á næstu dögum. Auðvitað gekk ég út frá því að hæstv. ráðherra mundi kalla starfsfólkið til sín í kjölfar þessa dóms og í kjölfar þessarar meðferðar málsins á þinginu þar sem enginn tími hefur unnist til að fjalla um það. En fróðlegt væri að fá það upp hjá hæstv. ráðherra þar sem því hefur verið lýst yfir af lögmanni þeim sem fór með málið fyrir Hæstarétti að allir samningar sem gerðir hafa verið vegna þessa flutnings séu ógildir. Telur hæstv. ráðherra þá að endurnýja þurfi alla þessa samninga, gera þá samninga sem tengjast þessum flutningi alla upp á nýtt? Ég spyr hæstv. ráðherra um það.