1998-12-20 03:01:14# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[27:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál er sama eðlis og það mál sem við vorum að afgreiða næst á undan, 11. dagskrármál, frv. um almannatryggingar. Bæði þessi mál eru á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Bæði þessi mál hafa fengið flýtimeðferð í gegnum þingið og hafa ekki fengið þá þinglegu meðferð sem við eigum að leggja metnað okkar í að þingmál fái hér. Þetta er annað málið í þessari viku sem við tökum til afgreiðslu á Alþingi sem kemur hingað inn vegna hæstaréttardóms og það ætti að vera Alþingi umhugsunarefni.

Ég kem hér til að lýsa því yfir eins og aðrir þingflokksformenn stjórnarandstöðu að við munum ekki hafa afskipti af afgreiðslu þessa máls, ekki bera ábyrgð á því, en ég mun heldur ekki tefja það með frekari ræðuhöldum.