1998-12-20 03:07:08# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[27:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og menn vita hefur þegar verið tekin pólitísk ákvörðun um að flytja þetta fyrirtæki til Akraness og sú pólitíska afstaða hefur lýst sér m.a. í því að fjármunir hafa verið veittir til þess af hálfu Alþingis. Það var mat ýmissa lögmanna að með slíkum fjárveitingum lægi fyrir viljayfirlýsing löggjafarvaldsins.

Hæstiréttur lítur ekki svo á. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að hann telur að það eitt og sér nægi ekki. Hæstiréttur telur sem sagt að beina lagaheimild þurfi til þess að stofnunin verði flutt. Hæstiréttur er ekki að mælast til þess að hin pólitíska ákvörðun verði tekin til baka. Hæstiréttur er ekki að blanda sér í hið pólitíska deilumál. Hæstiréttur segir einungis að til þess að hin pólitíska ákvörðun megi ná fram að ganga þurfi að vera lagastoð fyrir hendi og ráðherrann og þingið bregðast við nákvæmlega til þess að koma í veg fyrir þann annmarka sem Hæstiréttur telur einan vera á málinu, þ.e. að tryggja að þessi lagastoð sé fyrir hendi.

Það er algjör misskilningur á málinu ef menn túlka dóm Hæstaréttar sem svo að með honum sé verið að kippa grundvellinum undan hinni pólitísku ákvörðun. Það stóð ekki til og það á ekki að gera. Ég tel því að það sé lagaskylda ráðherrans og nefndarinnar svo fljótt sem verða má að koma á þeirri lagastoð sem Hæstiréttur telur skorta.

Ef menn ætla að fara að túlka dóminn svo að vegna þessa skorts á lagastoð sem mætir lögmenn höfðu talið miðað við fyrri reynslu að væri nægjanlega tryggð, ef menn ætluðu að láta þau úrslit ráða því að flytja alla starfsemina til baka aftur og hætta við allt saman, þá væri sjálfsagt að vera ekki með málið hér á dagskrá og flýta því. Það dettur engum manni í hug. Þessi dómur breytir ekki hinni pólitísku ákvörðun þingsins. Sú ákvörðun stendur. Þá gerum við það eina rétta, að skjóta þessari lagastoð undir hina pólitísku ákvörðun. Starfsemin er að hefjast og ég teldi það afskaplega hæpið af hálfu þingsins ef sú ákvörðun gengi ekki fram svo fljótt sem verða mætti. Ákvörðunin er afskaplega einföld. Við erum ekki að deila um hina pólitísku ákvörðun. Sú deila hefur verið leidd til lykta. Við erum bara að koma þeirri skipan á sem Hæstiréttur telur nauðsynlega.