1998-12-20 03:09:48# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[27:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstiréttur er ekki að kalla eftir lagasetningu. Hæstiréttur var að kveða upp dóm og dómurinn er á þann veg að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í málefnum Landmælinga, flutningurinn til Akraness er ólöglegur. Þetta er mjög skýrt.

Ég er hins vegar að kalla eftir pólitík. Ég er að kalla eftir pólitískum viðbrögðum stjórnvalda. Þar sem starfsmenn hafa óskað eftir því að fá viðræður um málið, fá þessu skotið á frest, þar sem stéttarfélög hafa óskað eftir hinu sama, þar sem stjórnarandstaðan hefur sett fram samsvarandi óskir og kröfur og þar sem manni finnst skynsemi og öll góð vinnubrögð Alþingis mæla með því að við höfum þennan háttinn á, þá beini ég þeirri spurningu aftur til hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar hvort hún sé ekki tilbúin til að endurskoða afstöðu sína.