Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 785  —  480. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1998.

1. Inngangur.
    Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í starfi sambandsins (Inter-Parlia­mentary Union) á árinu 1998 var með hefðbundnum hætti og tók deildin þátt í báðum reglu­legum þingum sambandsins. Það fyrra var haldið í Windhoek í apríl (99. þing) og hið síðara í Moskvu í september (100. þing).
    Geir H. Haarde (þingflokki sjálfstæðismanna) var formaður stjórnar Íslandsdeildarinnar þar til í apríl, en er hann tók við embætti fjármálaráðherra tók Einar K. Guðfinnsson (þing­flokki sjálfstæðismanna) við formennsku. Aðrir í stjórn Íslandsdeildarinnar voru Magnús Stefánsson (þingflokki framsóknarmanna), Bryndís Hlöðversdóttir (þingflokki Alþýðu­bandalags) og Jóhanna Sigurðardóttir (þingflokki jafnaðarmanna). Áheyrnarfulltrúar voru Gísli S. Einarsson (þingflokki jafnaðarmanna) og Kristín Halldórsdóttir (Kvennalista). Rit­ari deildarinnar var Elín Flygenring, forstöðumaður alþjóðasviðs Alþingis.

2. 99. þingið í Windhoek.
    Dagana 6.–10. apríl 1998 var haldið í Windhoek 99. þing Alþjóðaþingmannasambands­ins. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, for­maður Íslandsdeildarinnar, Magnús Stefánsson, Einar K. Guðfinnsson og Gísli S. Einarsson, auk ritara.

2.1. Störf og ályktanir þingsins.
    Að venju var fjallað um þrjú málefni í þinginu og ályktað um þau. Málefnin voru:
     1.      Efling stöðugleika og endurreisn stríðshrjáðra samfélaga.
     2.      Aðgerðir gegn HIV/AIDS.
     3.      Áhrif erlendra skulda þróunarríkja á stöðu þeirra í samfélagi þjóðanna.
    Umræður um þessi mál fóru fram í nefndum þingsins en auk þess voru almennar stjórn­málaumræður í þingsal þá daga sem ekki var fundað í nefndum. Magnús Stefánsson flutti ræðu í almennu stjórnmálaumræðunum og vék sérstaklega að ári hafsins 1998, mengun sjáv­ar og þá ógnun sem aukin sjávarmengun veldur löndum sem lifa á fiskveiðum líkt og Ísland. Hann ræddi einnig vandamál vegna kjarnaúrgangs frá Dounreay og Sellafield. Að öðru leyti skipti sendinefndin með sér setu á nefndafundum. Þingið ályktaði um öll þrjú umræðuefnin. Auk þess var ákveðið að álykta um eitt efni til viðbótar: Aðgerðir til að koma á friði í Kosovo.

2.2. Störf og ályktanir ráðsins.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipað er tveimur þingmönnum frá hverju þingi og fer með æðsta vald í innri málefnum sambandsins, kom tvívegis saman í Windhoek. Öll íslenska sendinefndin sat fundi ráðsins. Höfuðverkefni ráðsins var að kjósa sér nýjan framkvæmdastjóra, en Anders B. Johnsson, þáverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaþing­mannasamtakanna, var kjörinn í það starf með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Þá var að vanda lögð fram í ráðinu ítarleg skýrsla um mannréttindamál þingmanna, en nefndin gerði grein fyrir málum 188 þingmanna í 16 ríkjum þar sem brotin höfðu verið mannréttindi á þingmönnum. Á fundi ráðsins var m.a. fjallað um breytingu á reglum Alþjóðaþingmannasam­bandsins, tillögu um nýtt húsnæði fyrir skrifstofu sambandsins og samstarf við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

2.3. Störf framkvæmdastjórnar.
    Framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipuð er tólf þingmönnum auk forseta sambandsins, fundaði þrjá daga fyrir upphaf þingsins auk þess sem hún hélt einn heilsdagsfund samhliða þinginu. Geir H. Haarde á sæti í framkvæmdastjórninni og sat hann þrjá fyrstu fundi hennar, en Einar K. Guðfinnsson sat þann síðasta sem varamaður Geirs. Aðalverkefni framkvæmdastjórnarinnar var að eiga viðtöl við umsækjendur um stöðu fram­kvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins, en Pierre Cornillon, sem verið hafði fram­kvæmdastjóri sambandsins sl. tólf ár, hætti störfum 1. júlí. Framkvæmdastjórnin fjallaði einnig um ýmis innri mál sambandsins, m.a. um breytingar á hlutfalli árgjalda aðildarþjóða til sambandsins í samræmi við nýjar reglur Sameinuðu þjóðanna.

2.4. Störf pólitískra svæðahópa.
    Daglegir samráðsfundir voru haldnir í Vesturlandahóp innan þingmannasambandsins (Tólfplús-hópnum). Hópurinn fundaði fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf, þátttöku í nefndastarfi og fjallað um innri málefni hópsins.

3. 100. þingið í Moskvu.
    Dagana 7.–11. september 1998 var haldið í Moskvu 100. þing Alþjóðaþingmannasam­bandsins. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið alþingismennirnir Einar K. Guð­finnsson, formaður Íslandsdeildarinnar, Sigríður Jóhannesdóttir og Gísli S. Einarsson, auk ritara.

3.1. Störf og ályktanir þingsins.
    Að venju var fjallað um þrjú málefni í þinginu og ályktað um þau. Málefnin voru:
     1.      Mannréttindamál 21. aldarinnar í tilefni af 50 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
     2.      Vatn sem auðlind fyrir sjálfbæra þróun.
     3.      Aðgerðir gegn dreifingu og neyslu fíkniefna.
    Umræður um þessi mál fóru fram í nefndum þingsins, en auk þess fóru fram almennar stjórnmálaumræður þá daga sem ekki var fundað í nefndum. Sérstakur fundur var haldinn til heiðurs fyrrverandi framkvæmdastjóra IPU, Pierre Cornillon. Þingið ávarpaði Evgueni Primakov, utanríkisráðherra Rússlands, sama dag og hann var útnefndur forsætisráðherra landsins.
    Einar K. Guðfinnsson flutti ræðu í almennu umræðunum og vék m.a. að aðgerðum gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, efnahagskreppu Asíu og vandamálum Rússlands. Einar nefndi þær gríðarlegu breytingar á efnahagssviðinu sem orðið hafa á síðustu árum í heiminum og taldi efnahagslegt frelsi og fríverslun mikilvægan þátt í því að skapa friðvænlegri og betri heim.

3.2. Störf og ályktanir ráðsins.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipað er tveimur þingmönnum frá hverri sendi­nefnd og fer með æðsta vald í innri málefnum þess, kom tvívegis saman í Moskvu. Öll ís­lenska sendinefndin sat fundi ráðsins. Aðildarumsókn þjóðarráðs Palestínumanna var felld, en samþykkt var að veita þeim sérstök réttindi sem áheyrnaraðila. Í ráðinu var einnig ákveð­ið að Alþjóðaþingmannasamtökin standi fyrir ráðstefnu fyrir alla þingforseta aðildarríkja samtakanna árið 2000.

3.3. Störf framkvæmdastjórnar.
    Framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipuð er tólf þingmönnum auk forsetans, fundaði fyrir þingið og á meðan á því stóð. Einar K.Guðfinnsson sat þá fundi sem varamaður Geirs H. Haarde, sem kjörinn var í stjórnina árin 1994–98, og var þetta síðasti fundurinn á hans kjörtímabili. Í stað hans og annars stjórnarmanns frá Zambíu voru kjörnir í stjórnina fulltrúar frá Belgíu og Namibíu. Framkvæmdastjórnin ræddi m.a. fjármál sam­bandsins, samstarf Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaþingmannasambandsins og undirbúning að nýjum húsakynnum fyrir aðalstöðvar sambandsins í Genf.

4. Næstu þing.
    Næstu þing sambandsins verða í Brussel (vorið 1999) og Berlín (haustið 1999).

Alþingi, 15. febr. 1999.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Magnús Stefánsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Jóhanna Sigurðardóttir.