Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 858  —  534. mál.




Skýrsla



um norrænt samstarf árið 1998.

1. Inngangur.
    Róttækar breytingar voru gerðar á skipulagi Norðurlandaráðs eftir þing þess í Reykjavík árið 1995. Í skýrslunni „Nýir tímar í norrænni samvinnu“ var lagður grunnur að skipulags­breytingum í starfsemi ráðsins með það að markmiði að endurnýja samstarfið og laga það að nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Nauðsynlegt þótti að hleypa nýju lífi í starfshættina og laga þá að þeim nýju aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð um aðild að ESB, og síðar inngöngu síðasttöldu ríkjanna tveggja í Evrópusambandið. Skipulagsbreytingarnar fólu í sér að nú er norrænu samstarfi framtíðarinnar beint að þremur meginsviðum, samvinnu innan Norðurlanda, milli Norðurlanda og Evrópu/ESB/EES og samvinnu Norðurlanda og nær­svæða þeirra.
    Með skipulagsbreytingunum í Norðurlandaráði voru fagnefndirnar lagðar niður frá og með áramótum 1995/1996 og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir byggðar á fyrr­greindum meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Forsætis­nefnd var stækkuð og auk þess stofnuð sérstök eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Flokkasam­starf var aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Ráðið heldur nú eitt árlegt þing í stað tveggja áður þar sem almennar umræður fara fram. Reglubundið þing er nú haldið að hausti og formennska og embættistími miðast við almanaksár. Þemaráðstefnur eru haldnar í þeim tilgangi að fjalla sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginvið­fangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig hefur samstarf og samráð við önnur alþjóðaþing­mannasamtök, einkum evrópsk, verið eflt og unnið er að eflingu samstarfs við fastanefndir norrænu þjóðþinganna. Noregur hefur haft formennskuna með höndum á starfsárinu en forseti þingsins var Berit Brørby Larsen. Gun Hellsvik frá Svíþjóð tók við forsetastóli um áramótin 1998/1999.
    Norðurlandaráð hefur árið 1998 unnið áfram að því að laga starf sitt að hinu nýja skipu­lagi og þróa það áfram. Sem fyrr hefur starfið á árinu einkennst í auknum mæli af pólitísku starfi þar sem flokkahópar ráðsins gegna veigamiklu hlutverki. Fagnefndirnar hafa skipulagt starfsemi sína og raðað málum í forgangsröð. Þá hefur færst í vöxt að nefndirnar hafi skipað sérstaka vinnuhópa til að starfa að ákveðnum málefnum. Forsætisnefnd hefur einbeitt sér að undirbúningi norrænu fjárlaganna og fjallað um ýmis pólitísk málefni, einkum öryggis- og varnarmál. Þá hafa samskipti forsætisnefndar og annarra nefnda verið í deiglunni, en sam­kvæmt stofnskrá Norðurlandaráðs ber forsætisnefnd að stýra starfi ráðsins og hafa áhrif á forgangsröðun verkefna.
    Þau pólitísku málefni sem notið hafa mestrar athygli á starfsárinu auk almennra norrænna málefna eru umhverfismál, málefni barna, Evrópumál og öryggismál, m.a. með tilliti til nær­svæðanna og hins útvíkkaða öryggismálahugtaks. Áhrif fyrirhugaðrar stækkunar Evrópusam­bandsins og Myntbandalags Evrópu voru til umfjöllunar og stóð Evrópunefnd fyrir ráðstefnum um málin. Nærsvæðanefndin jók samskipti sín við grannsvæði Rússlands og Norður­landanefndin starfaði mikið að málefnum barna á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum en sérstök þemaráðstefna var haldin um þau á árinu.

2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1.     Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 1998 sátu eftirtaldir þingmenn í Norðurlandaráði: Geir H. Haarde, Rannveig Guðmundsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson og Siv Friðleifsdóttir. Varamenn í Norðurlandaráði voru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðni Ágústsson, Árni Johnsen, Sigríður Jó­hannesdóttir, Árni M. Mathiesen og Ísólfur Gylfi Pálmason. Hinn 5. júní kaus Alþingi sömu þingmenn til setu í Norðurlandaráði að undanskildum Geir H. Haarde. Í hans stað var kosin Arnbjörg Sveinsdóttir og Guðjón Guðmundsson var kjörinn varamaður.
    Breytingar á Helsinkisáttmálunum árið 1996 og samþykktir Norðurlandaráðs sem gengu í gildi í byrjun árs 1997 kveða á um að flokkahóparnir í Norðurlandaráði skuli framvegis til­nefna fulltrúa landanna í trúnaðarstöður. Á 49. þingi ráðsins í Helsinki var fulltrúum Ís­landsdeildar skipað í eftirfarandi nefndir: Valgerður Sverrisdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir voru skipaðar í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon tóku sæti í Evrópunefnd og voru hvort um sig varaformenn nefndarinnar (hver nefnd hefur formann og tvo varaformenn), Arnbjörg Sveinsdóttir var skipuð í Norðurlanda­nefnd og Sturla Böðvarsson í nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs. Hann átti einnig sæti í eftir­litsnefnd ráðsins, en Sigríður A. Þórðardóttir átti sæti í kjörnefnd. Kjörnefnd starfar ein­göngu á þingum Norðurlandaráðs og gerir tillögu um nefndaskipan. Sú breyting varð á nefndaskipan Íslandsdeildar á árinu að á 50. þingi ráðsins í Ósló 10. nóvember sl. var Sturla Böðvarsson kjörinn í Evrópunefnd og Steingrímur J. Sigfússon í Norðurlandanefnd. Frá og með þinginu í Ósló hefur Sigríður Jóhannesdóttir sótt fundi í Norðurlandaráði í stað Stein­gríms J. Sigfússonar á grundvelli samkomulags sem gert var um þá tilhögun á milli þing­flokka viðkomandi aðila. Íslandsdeild skipti með sér verkum á fundi sínum 14. maí. Val­gerður Sverrisdóttir var endurkjörin formaður og Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn vara­formaður. Steingrímur J. Sigfússon var á júnífundum ráðsins í Færeyjum 24.–26. júní kjörinn formaður flokkahóps vinstri manna.

2.2.     Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt sex fundi á árinu. Helst var fjallað um komandi þing og stærri þemaráðstefnur, en einnig rætt um starfsemi nefnda ráðsins og skipulag almennt. Þá var fjallað um fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs fyrir 1999, bág fjárhagsstaða Norræna hússins í Reykavík var til umræðu, rætt var um áhrif af skipulagsbreytingum Norðurlanda­ráðs og mögulegan flutning þingsins til vors, sem og um samstarf Íslandsdeildar við félaga­samtök, svo fátt eitt sé nefnt. Kristín Kvaran, formaður Norræna félagsins á Íslandi, var gestur á tveimur fundum Íslandsdeildar á árinu, 27. febrúar og 17. desember, og gerði hún grein fyrir samstarfi norrænu félaganna á Norðurlöndunum og fyrirhugaðri formennsku Íslands og fjárhagsþáttum þess. Berglind Ásgeirsdóttir sat fund Íslandsdeildar 24. september og ræddi m.a. væntanlega formennsku Íslands í Norðurlandaráði árið 2000. Loks hitti Ís­landsdeildin 19. október Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norð­urlandaráðs, þar sem hann og forstöðumaður Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins gerðu grein fyrir útlínum formennskuáætlunar Íslands í norrænu ráðherranefndinni. Hinn 20. mars stóð Íslandsdeildin fyrir ráðstefnu um áhrif stækkunar Evrópusambandsins á norræna samvinnu og stöðu Íslands í því ljósi. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Norden er i orden — eða hvað?“ Um 150 þátttakendur voru á ráðstefnunni, þar á meðal alþingismenn, embættismenn, blaðamenn, fræðimenn og fulltrúar atvinnulífs og verkalýðshreyfinga. Fjöldi fyrirlesara var á ráðstefnunni, m.a. Berit Løfstedt, þáverandi formaður Evrópunefndar sænska þingsins, Berglind Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu Norðurlandaráðs, Lisbeth Holand, formaður norsku félagasamtakanna „Nej til EU“, Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands við ESB, Jan Grevstadt, starfsmaður sendiráðs Noregs við ESB, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda. Líflegar umræður fóru fram á ráðstefnunni þar sem ræðumenn og þátttakendur lögðu mat á stöðu norræns samstarfs, bæði innan og utan ESB. Ein af niðurstöðum ráðstefnunnar var að norræn samvinna og Evr­ópusamvinnan væru ekki andstæður heldur hefði Evrópusamvinnan þvert á móti bætt sam­starf Norðurlandanna. Í þessu samhengi var norrænt samstarf í viðræðunum um aðild Íslands og Noregs að Schengen nefnt sem dæmi um norræna samvinnu á vettvangi ESB. Ráðstefnan var vel sótt og fékk talsverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.
    Loks heiðraði Íslandsdeildin dr. Ólaf Arnalds og samstarfsfólk hans með móttöku í Nor­ræna húsinu í byrjun nóvember í tilefni af því að verkefni þeirra „Jarðvegsvernd“ hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 4. júní. Samanlagt var styrkupphæðin 70 þúsund danskar krónur. Árið 1998 hlutu eftirtaldir frétta- og blaða­menn styrki: Andrés Jónsson, Egill Helgason, Haukur Hólm, Kristján Kristjánsson og Óðinn Jónsson.
    Elín Flygenring, ritari og forstöðumaður alþjóðasviðs, fór í september sl. í eins árs starfs­leyfi frá skrifstofu Alþingis til að starfa hjá utanríkisráðuneytinu. Auðunn Atlason alþjóða­ritari tók við störfum hennar sem ritari Íslandsdeildar Norðurlandaráðs en Belinda Theriault sem forstöðumaður alþjóðasviðs. Kristín Ólafsdóttir deildarsérfræðingur aðstoðar sem fyrr við ritarastörf.

3. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1. Forsætisnefnd.
    Í byrjun árs 1998 tók Berit Brørby Larsen frá Noregi við forsetastóli af Olaf Salmén frá Álandseyjum. Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum flokkahópanna sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Hlutverk forsætisnefndar er að hafa yfirumsjón með öllum mál­um í sambandi við þing ráðsins og milli þinga, en hún annast einnig erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, auk þess að fjalla um hin norrænu fjárlög. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar tók fjárlagavinnuna sérstaklega að sér árið 1998. Forsætisnefnd fjallar einnig um tillögur sem til hennar er beint. Hún hefur vald til þess að samþykkja til­lögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Á starfsárinu 1998 hafa af hálfu Íslands setið í forsætisnefnd Valgerður Sverrisdóttir frá flokkahópi miðjumanna, Rannveig Guðmundsdóttir frá flokkahópi jafnaðarmanna og Geir H. Haarde frá flokkahópi hægrimanna, en Sigríður A. Þórðardóttir tók sæti hans í maí þegar Geir varð fjármálaráðherra.
    Forsætisnefnd hélt tíu fundi á árinu. Í mars hélt nefndin, auk hefðbundins nefndarfundar, sérstakan fund um innri mál Norðurlandaráðs. Þar var ræddur árangur skipulagsbreytinganna og hvernig gera mætti starf ráðsins enn skilvirkara. Forsætisnefnd hélt sumarfund á Sval­barða þar sem norsk stjórnvöld kynntu stefnu sína og starf á Svalbarðasvæðinu og ályktaði nefndin um mikilvægi norrænnar samvinnu í málefnum norðurheimsskautsins. Þá hélt forsætisnefnd sérstakan fund um skipulag fjárlagaafgreiðslu ráðsins 3. ágúst og tóku formenn nefnda og flokkahópa þátt í fundinum. Skiptust menn á skoðunum um hvernig gera mætti þá afgreiðslu markvissari. Forsætisnefnd hitti samstarfsráðherra Norðurlandanna á fundi sínum í Kaupmannahöfn 21. október þar sem gerð var grein fyrir áherslum ráðsins, m.a. hvað varðar fjárlög ársins 1999, og samstarfi við norrænu ráðherranefndina. Fyrr um daginn hafði forsætisnefndin haldið fund með Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Júgóslavíustríðinu, þar sem rætt var um möguleika og vandamál friðargæslu. Þá hitti forsætisnefnd utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við 50. þing Norðurlandaráðs í Ósló. Þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúar ráðsins hafa fundað með utanríkisráðherrunum, en sem kunnugt funda utanríkisráðherrar Norðurlandanna ekki á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Frumkvæðið að fundinum kom frá utanríkisráð­herrunum. Á honum voru ræddir möguleikarnir á auknu utanríkismálasamstarfi Norður­landanna, m.a. með tilliti til Evrópusamstarfsins, fyrirbyggjandi friðargæslustarfs og þróun­araðstoðar, svo fátt eitt sé nefnt.
    Norrænu fjárlagatillögurnar fyrir árið 1999 sem samþykktar voru á 50. þingi Norður­landaráðs í nóvember 1998 hljóðuðu upp á 716,9 milljónir danskra króna. Tillaga ráðherra­nefndarinnar fyrir árið 1999 var lögð fram í byrjun júní og var fjallað um hana í ráðinu eftir að fagnefndirnar höfðu lokið umfjöllun sinni. Lokaumfjöllun og afgreiðsla var á þingi ráðs­ins, eins og áður segir, og var tekið fullt tillit til óska fjárlagahóps forsætisnefndar um breyt­ingar á fjárlagatillögunum, svo sem um að auka útgjöld til Norræna menningarsjóðsins, til norrænnar íþróttasamvinnu, til baráttu gegn fíkniefnamisnotkun, til viðgerða á norrænu hús­unum í Reykjavík og í Færeyjum, að skera niður framlag til Norræna iðnaðarsjóðsins og að fresta framkvæmd rannsóknaráætlunarinnar á norðurheimskautinu um eitt ár (sjá fylgiskjal).
    Forsætisnefnd fjallaði um nokkrar tillögur á árinu. M.a. setti hún á fót vinnuhóp með fulltrúum allra flokka til að fjalla um tillögu frá flokkahópi vinstri manna um MAI-samning OECD (marghliðasamkomulagið um fjárfestingu). Valgerður Sverrisdóttir sat í vinnuhópnum fyrir hönd miðjumanna og Rannveig Guðmundsdóttir fyrir jafnaðarmenn. Niðurstaða vinnuhópsins, sem samþykkt var í forsætisnefnd, var að styðja hugmyndina um marghliða­samkomulag um alþjóðlegar fjárfestingar, enda væri slíkt samkomulag mun happadrýgra en fjöldi tvíhliða samninga þar sem undirboð væru tíð. Þá var lögð áhersla á að eins mörg ríki og mögulegt væri ættu aðild að samkomulaginu og að samkomulagið tæki fullt tillit til ann­arra alþjóðasamninga um félagsleg réttindi og umhverfismál, auk krafna um gagnsæi við samningsgerð. Forsætisnefnd fjallaði enn fremur um önnur alþjóðleg málefni og sendi frá sér yfirlýsingar um norrænu víddina í ESB, um umhverfismál og um alþjóðlegar friðargæslu­aðgerðir.
    Þá fjallaði forsætisnefnd um tillögu um að gefa Samaþinginu fulla aðild að Norðurlanda­ráði. Tillagan var felld með þeim rökum að sæti í Norðurlandaráði gætu einungis átt fulltrúar á þjóðþingum aðildarríkjanna fimm og sjálfstjórnarsvæðanna þriggja. Því yrðu þau aðildar­ríki þar sem Samar eru búsettir að leysa málið sjálfir með því að tryggja samískum þing­mönnum í þjóðþingunum einnig sæti í Norðurlandaráði. Þannig væri hægt að tryggja þátttöku þeirra í Norðurlandaráði. Þá var í álitinu lögð áhersla á mikilvægi þess að gefa hagsmunum og viðhorfum Sama fullan gaum í starfinu fram undan. Einnig var fjallað um tillögu frá Steingrími J. Sigfússyni og flokkahópi vinstri manna um notkun viðskiptahindrana. Tillagan fól í sér að Norðurlöndin mundu samræma stefnu sína þegar viðskiptahindranir eru annars vegar og vinna gegn því að þær bitnuðu á almennum borgurum. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að Norðurlöndin, á mismunandi hátt þó, yrðu að hlíta sameiginlegum ákvörðunum í Evrópusambandinu og hjá Sameinuðu þjóðunum, sem minnkaði svigrúm þeirra sem ríkjahóps til sértækra aðgerða. Í áliti forsætisnefndar var hins vegar tekið undir mikil­vægi þess að Norðurlöndin leituðust við að skilgreina grundvallarreglur sem taka mætti mið af við framkvæmd viðskiptabanna. Á hinn bóginn var sagt að ríkisstjórnir Norðurlandanna tækju þegar þátt í umræðu af þessu tagi og því væri ekki ástæða til að fylgja tillögunni frekar eftir. Þá samþykkti forsætisnefnd að samningur yrði gerður á milli upplýsingadeildar Norð­urlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar um nánara samstarf og samnýtingu starfs­krafta. Skyldi samningurinn gilda í eitt ár. Forsætisnefnd samþykkti enn fremur að halda á árinu 1999 ráðstefnu í samstarfi við norska Stórþingið um málefni Barents-svæðisins og bjóða fulltrúum nærsvæðanna, einkum rússneska þinginu, til þátttöku. Loks samþykkti for­sætisnefnd á fundi sínum 9. desember að styrkja endurbyggingu Brattahlíðar á Grænlandi með framlagi að upphæð 1 milljón danskra króna.

3.2. Norðurlandanefnd.
    Fulltrúar Íslands í Norðurlandanefnd á starfsárinu voru Sigríður A. Þórðardóttir og Arn­björg Sveinsdóttir sem tók sæti hennar í nefndinni þegar Sigríður tók sæti í forsætisnefnd í maí. Þá var Steingrímur J. Sigfússon kjörinn í nefndina á 50. þingi Norðurlandaráðs í Ósló.
    Málefni Norðurlandanefndar eru fyrst og fremst sígild norræn samstarfsmálefni, menning, menntun, félagsmál, jafnréttismál og réttindamál. Norðurlandanefnd gerði auk þess vinnu­áætlun fyrir starfsárið 1998 og ákvað að sérstaklega yrði unnið að eftirfarandi málefnum: menningarmálum, þar sem lögð var áhersla á að styðja Norræna menningarsjóðinn og menn­ingarstarf frjálsra félaga og hópa, sem og menningarlega fjölbreytni; málefnum barna og unglinga á Norðurlöndunum og nærsvæðunum; baráttu gegn útlendingahatri; tungumálasam­starfi; húsnæðismálum; samstarfi við frjáls félagasamtök; fjölmiðlum og vestnorrænu sam­starfi. Varðandi síðasta málefnið var ákveðið á árinu að Norðurlandanefnd skyldi verða tengiliður Norðurlandaráðs við Vestnorræna ráðið og lýsti nefndin m.a. yfir stuðningi við æskulýðsráðstefnu Vestnorræna ráðsins og uppbyggingu Brattahlíðar. Þá fjallaði nefndin um fjölmargar tillögur frá norrænu ráðherranefndinni, þar á meðal um verkáætlun hennar í fíkni­efnamálum, og lýsti eindreginni andstöðu sinni við aukið frjálsræði í fíkniefnamálum sem leið í baráttu gegn þeim vanda.
    Nefndin hélt sex fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópar nefndarinnar og formenn all­oft. Í tengslum við fundi nefndarinnar í janúar heimsótti hún fjórar norrænar stofnanir: Nor­rænu stofnunina um hafréttarmál; Norrænu stofnunina um rannsóknir á samskiptum kynj­anna; Norræna iðnaðarsjóðinn; og Norræna rannsóknarsjóðinn. Þá var nefndinni boðin þátt­taka í ráðstefnu UNESCO um menningarmál en hún var haldin í Stokkhólmi 30. mars til 2. apríl og bar yfirskriftina „The Intergovernmental Conference on Cultural Policies — Power of Culture“. Í tengslum við ráðstefnuna hélt nefndin eins dags málþing 31. mars um framtíð velferðar á Norðurlöndunum þar sem velferðarkerfi norrænu ríkjanna var krufið og framtíð þess metin. Sendinefnd á vegum Norðurlandanefndar fór í upplýsingaheimsókn til Brussel dagana 21.–24. apríl þar sem hún fundaði m.a. með fulltrúum Evrópuþingsins og Anitu Gradin, framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn ESB. Á júnífundum nefndarinnar í Færeyjum var haldið málþing þar sem færeyskir fyrirlesarar voru fengnir til að gera grein fyrir menn­ingarlegri og pólitískri stöðu eyjanna. Meðal fyrirlesara var Høgni Høydal, samstarfsráðherra Norðurlanda í færeysku landsstjórninni. Á septemberfundinum var settur á laggirnar vinnuhópur um málefni barna og unglinga á Norðurlöndunum og á hann að skila verkáætlun í málaflokknum fyrir 51. þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Arnbjörg Sveinsdóttir á sæti í vinnuhópnum fyrir hönd flokkahóps hægri manna, en finnski þingmaðurinn Riitta Prusti er formaður hans. Vinnuhópurinn hélt þrjá fundi á árinu 1998 og á meðal forgangsverkefna hans eru barátta gegn einelti og ofbeldi meðal barna og unglinga, tengsl atvinnu- og fjölskyldulífs og staða barna og unglinga í dreifðari byggðum. Nefndin setti einnig á fót vinnuhóp til að móta stefnu um samstarf við frjáls félagasamtök, en sá hópur kom ekki saman á árinu.
    Um tillögur sem vísað var til nefndarinnar og hún afgreiddi vísast til fylgiskjals.

3.3. Evrópunefndin.
    Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru Siv Friðleifsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon og gegndu þau bæði stöðum varaformanna nefndarinnar, hvort fyrir sinn flokkahóp. Eins og nafnið gefur til kynna er það hlutverk nefndarinnar að sinna samstarfi Norðurlanda og ESB/EES/EFTA og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Í því sambandi hefur nefndin einkum beint sjónum að atvinnumálum, hagstjórnarmálum, neytendamálum og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndunum, auk þess sem nefndin fjallar um starfs­áætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar ESB (sem eru lagðar fram á hálfs árs fresti). Meðal forgangsverkefna nefndarinnar á árinu 1998 var umfjöllun um áhrif Mynt­bandalags Evrópu; umræða um áhrif stækkunar Evrópusambandsins; atvinnumál; og neyt­endamál, en vinnuhópur í síðasttalda málaflokknum skilaði af sér tillögum á árinu sem af­greiddar voru á þinginu í Ósló. Þá starfaði áfram vinnuhópur nefndarinnar um málefni Nor­ræna iðnaðarsjóðsins.
    Nefndin hélt sex fundi á árinu en formaður og varaformenn nefndarinnar komu oftar saman, auk vinnuhópsins um neytendamál. Evrópunefndin hitti norrænu atvinnumálaráðherr­ana í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um umhverfismál 25. febrúar. Á þeim fundi kom m.a. fram gagnrýni nefndarinnar á skýrslur ráðherranna um atvinnumál þar sem Evrópunefndarmenn söknuðu sárlega skýrari stefnumótunar og úrræða í atvinnumálum. Hinn 19. apríl og 2. júní hélt Evrópunefndin ráðstefnur um áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Norðurlöndin annars vegar og hins vegar um áhrif stofnunar Myntbandalags Evrópu á nor­rænu ríkin. Þar eð fulltrúar úr öðrum nefndum Norðurlandaráðs tóku virkan þátt í þessum ráðstefnum verður fjallað um þær í fimmta kafla skýrslunnar. Á fundi nefndarinnar í Fær­eyjum var fjallað sérstaklega um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda, m.a. með tilliti til fisk­veiðistefnu Evrópusambandsins. Þá kynnti nefndin sér atvinnulíf í Færeyjum, einkum fisk­veiðar, og afstöðu stjórnmálamanna til sambandsins á milli Færeyja og Evrópusambandsins, tengsla eyjanna við innri markaðinn og möguleg áhrif breytinganna innan ESB á stöðu Fær­eyja. Þema á fundi nefndinnar í september var skýrsla framkvæmdastjórnar ESB „Agenda 2000“ og voru tillögur hennar sem miða að uppstokkun landbúnaðar- og styrkjakerfis sam­bandsins til umræðu. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB og hagsmunasamtaka bænda í Dan­mörku tóku þátt í umræðunum. Evrópunefndin hitti samstarfsráðherra Norðurlandanna á fundi í Kaupmannahöfn 21. október þar sem ESB- og EES-samstarfið var til umræðu. Þar voru m.a. rædd málefni Schengen og atvinnumál. Forsætisnefnd tók einnig þátt í þessum fundi. Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Ósló fékk Evrópunefndin fulltrúa Alþjóðavið­skiptastofnunarinnar á fund sinn þar sem þeir gerðu grein fyrir straumum og stefnum í al­þjóðaviðskiptum og löggjöf þar að lútandi.
    Evrópunefndin fékk til umfjöllunar fjölda tillagna á árinu 1998. Um þær tillögur sem nefndin afgreiddi til Norðurlandaráðsþingis vísast til fylgiskjals.
3.4.     Nærsvæðanefndin.
    Fulltrúi Íslands í nærsvæðanefndinni á starfsárinu var Sturla Böðvarsson. Í vinnuáætlun sinni fyrir starfsárið ákvað nærsvæðanefndin að einbeita sér að samskiptum og samvinnu við Eystrasaltslöndin og heimskautssvæðin en einnig var ákveðið að efla samstarf við nærsvæði Rússlands og þau ríki sem eiga land að Eystrasalti. Önnur viðamikil verkefni nefndarinnar á árinu voru umhverfis- og orkumál þar sem umfjöllun um aðgerðir til að tryggja öryggi kjarnorkuvera í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi var fyrirferðarmikil. Sérstakt forgangs­verkefni nefndarinnar var barátta gegn skipulögðum glæpum á nærsvæðunum og var ákveðið að halda sérstakan fund Norðurlandaráðs og Eystrasaltsráðsins í upphafi árs 1999 um mál­efnið. Auk þess var á árinu ákveðið að fiskveiðimál mundu í framtíðinni heyra undir nær­svæðanefndina. Vinnuhópur um málefni barna á nærsvæðunum skilaði tveimur skýrslum á árinu. Í kjölfar þess var haldin ráðstefna um málefni barna og unglinga í Stokkhólmi 7.–8. desember og er fjallað nánar um hana í kafla fimm. Þá skilaði finnski þingmaðurinn Hannes Manninen skýrslu til nefndarinnar um umhverfismál í Múrmansk-héraði og flutti nefndin tillögur í framhaldi af því.
    Nefndin hélt fimm fundi á árinu. Sumarfundir nefndarinnar voru haldnir í Tallin, höfuð­borg Eistlands og Sankti Pétursborg í Rússlandi. Auk nefndastarfs heimsótti nefndin um­hverfisráðuneyti Eistlands og hlýddi á erindi um efnahagslega og pólitíska stöðu Eistlands hjá fulltrúum seðlabanka landsins, auk þess sem nefndin fundaði með sendinefnd eistneska þingsins í Eystrasaltsráðinu. Þá heimsótti nefndin lögregluyfirvöld í Tallin og ræddi baráttu gegn skipulögðum glæpum. Í Sankti Pétursborg heimsótti nefndin norrænu upplýsingaskrif­stofuna í borginni og fékk upplýsingar um fangelsismál í Norðvestur-Rússlandi en var hins vegar meinaður aðgangur að fangelsi sem hún hugðist heimsækja. Í tengslum við Norður­landaráðsþingið í Ósló fundaði nærsvæðanefndin með þeim norrænu ráðherrum sem bera ábyrgð á aðstoð við nærsvæði Norðurlandanna (í flestum tilfellum samstarfsráðherrar Norð­urlandanna), sem og orkumálaráðherrum, og ræddi möguleikana á aukinni samvinnu og auk­inni aðstoð. Þá má geta þess að á vegum nærsvæðanefndar var hópi þingmanna frá Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum boðið í upplýsinga- og námsferð til Norðurlandanna, utan Íslands. Sú ferð var farin í maí.
    Nærsvæðanefndin fjallaði um fjölda tillagna á árinu og vísast til fylgiskjals varðandi þær tillögur sem afgreiddar voru á Norðurlandaráðsþingi.

3.5. Eftirlitsnefnd.
    Fulltrúi Íslands í eftirlitsnefndinni var Sturla Böðvarsson. Í nefndinni situr einn fulltrúi frá hverju landi og aðalverkefni hennar er að fylgjast með og endurskoða starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Nefndin ber einnig ábyrgð á stjórnskipulegum málefnum og tekur til umfjöllunar endurskoðaða reikninga Norræna menningarsjóðsins.
    Nefndin hélt fimm fundi á árinu. Á fundum sínum leitaðist nefndin við að heimsækja sam­norrænar stofnanir. Árið 1998 heimsótti hún Eystrasaltsstofnunina í Karlskrona og Norrænu menningarmiðstöðina í Helsinki.
    Frá og með miðju ári fjallaði nefndin um ársreikninga norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs fyrir árið 1997. Í umfjöllun sinni um þá var það m.a. skoðun nefndarinnar að nokkur árangur hefði náðst í því að styrkja stjórnsýslulegar hefðir við gerð ársreikninga, en benti hins vegar á að enn væri reikningum ýmissa stofnana á snærum ráðherranefndar­innar talsvert ábótavant. Í umfjöllun um ársreikninga Norræna menningarsjóðsins gerði eftir­litsnefndin m.a. athugasemd við háan rekstrarkostnað skrifstofunnar og að styrkjum væri ekki fylgt nægilega eftir. Þá fjallaði eftirlitsnefndin um niðurstöðu starfshóps ríkisendurskoðenda Norðurlanda, en þeir höfðu haft til skoðunar möguleikann á samræmdum reglum um endurskoðun norrænna stofnana. Hingað til hafa norrænar stofnanir verið endurskoðaðar á mismunandi hátt, eftir gildandi reglum í því landi sem þær eru staðsettar. Þannig hafa þær birt mismunandi ársreikninga sem gert hefur samanburð erfiðan á frammistöðu í rekstri og raunverulegri fjárhagsstöðu viðkomandi stofnana.
    Enn fremur lét nefndin á árinu gera sérstaka úttekt á aðgerðum norrænu ráðherranefndar­innar til að samræma aðstoð Norðurlandanna við Eystrasaltsríkin. Skoðaðir voru mála­flokkarnir umhverfis- og heilbrigðismál. Fenginn var sænskur ráðgjafi til að vinna verkið. Meðal niðurstaðna skýrslu hans var að bæta mætti upplýsingaflæði milli ráðuneyta Norður­landanna, bæði innbyrðis og við samstarfsaðila í Eystrasaltsríkjunum. Þá var bent á að norrænu fjármagnsstofnanirnar gætu aukið aðstoð sína. Eftirlitsnefndin flutti tillögur á grunni skýrslunnar. Um þær og aðrar tillögur sem nefndin lagði fram til afgreiðslu á Norður­landaráðsþingi vísast til fylgiskjals.

4. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru nú þrenns konar, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Bókmennta- og tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs var úthlutað í tengslum við umhverfisráðstefnu ráðsins 26. febrúar í Gautaborg. Umhverfis­verðlaununum var hins vegar úthlutað í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Ósló 11. nóvember.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk sem ritað hefur verið á einu Norðurlandamálanna. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á bókmenntum á tungumálum norrænu þjóðanna. Bókmennta­verðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 hlaut finnska skáldkonan Tua Försström fyrir ljóðabók sína „Nótt með hestum“.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Síðan 1990 hafa verðlaunin verið veitt á ári hverju og eru þau veitt annað árið til tónskálda og hitt til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaun Norður­landaráðs árið 1998 hlaut sænska tónskáldið Rolf Wallén.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norður­landaráð skyldi veita náttúru- og umhverfisverðlaun á hverju ári. Verðlaunin á að veita aðila sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða til hóps fólks, samtaka, fjölmiðla, fyrirtækja eða stofnana sem hefur í störfum sínum tekist að sýna nátt­úrunni tillitsemi á aðdáunarverðan hátt. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi ráðsins í Kuopio í nóvember 1995. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 hlaut verkefnið „Jarðvegsvernd” sem unnið var undir stjórn Dr. Ólafs Arnalds, fyrir Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
    Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þús. d.kr.

5. Ráðstefnur á vegum Norðurlandaráðs.
5.1. Þemaráðstefna Norðurlandaráðs um umhverfismál.
    Dagana 25. og 26. febrúar fór fram þemaráðstefna Norðurlandaráðs um umhverfismál. Ráðstefnan var haldin í Gautaborg og í tengslum við hana voru afhent bókmennta- og tón­listarverðlaun Norðurlandaráðs. Á ráðstefnunni var sjónum beint að skilyrðum sjálfbærs samfélags og hugsjónin um að Norðurlöndin verði fyrsta sjálfbæra svæðið í veröldinni rædd í þaula. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Norðurlöndin – sjálfbært svæði?“ Þátttakendur í ráð­stefnunni voru þingmenn Norðurlandaráðs, ýmsir ráðherrar Norðurlanda og þingmenn og ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum, auk fulltrúa frá fjölþjóðastofnunum, svo sem ESB, Evr­ópuráðinu, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) o.fl. Göran Persson, forsætisráð­herra Svíþjóðar, flutti aðalerindi ráðstefnunnar, auk þess sem Indulis Emsis, umhverfisráð­herra Lettlands, Domingo Jiminez-Beltran frá Umhverfisstofnun Evrópu og Elisabeth Dowdeswell frá UNEP fluttu ávörp við opnun hennar. Guðmundur Bjarnason umhverfisráð­herra flutti ávarp og tók þátt í pallborðsumræðum og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti erindi í vinnuhóp um umhverfismál í hnattrænu samhengi. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu ráðstefnuna Valgerður Sverris­dóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir og Sturla Böðvarsson. Á ráðstefnunni fóru fram umræður um einstök mál í fjórum málefnahópum. Í þeim var rætt um umhverfismál í hnattrænu samhengi, umhverfismál í Eystrasaltinu, möguleika á norrænu samstarfi við umhverfisvæna orkuframleiðslu og mikil­vægi lífshátta fyrir sjálfbæra þróun.
    Í umræðum um þá stefnu forsætisráðherra Norðurlandanna að gera Norðurlöndin að sjálfbæru svæði var m.a. lagt til að þau mundu í sameiningu beita sér fyrir því að hrinda í framkvæmd markmiðum Ríó-yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þá var lögð mikil áhersla á að auka rannsóknir í umhverfismálum og skiptast markvissar á upplýsingum um umhverfis­mál, ekki síst á internetinu. Hugmyndir um umhverfisvæna orkureikninga voru ræddar, sem og um umhverfisskatta, auk tillagna um að nota vörumerkingar betur til að ná fram mark­miðum í umhverfismálum. Þá vakti athygli yfirlýsing forsætisráðherra Svíþjóðar um að það væri langtímastefna ríkisstjórnar hans að taka úr notkun öll kjarnorkuver landsins.

5.2. Ráðstefna um stækkun Evrópusambandsins.
    Hinn 16. apríl stóð Evrópunefnd Norðurlandaráðs fyrir ráðstefnu um áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Norðurlöndin. Þátttakendur voru þingmenn Evrópunefndar, fulltrúar annarra nefnda Norðurlandaráðs, þingmenn og embættismenn frá Norðurlöndunum og nokkrum ríkjum Austur-Evrópu. Meðal fyrirlesara voru Siv Friðleifsdóttir, varaformaður Evrópunefndar, sem setti ráðstefnuna og stjórnaði umræðum í fyrri hluta hennar; Ole Stavad, ráðherra skattamála í Danmörku; Juris Kanels, sendiherra Lettlands við Evrópusambandið; Erkki Liikanen, framkvæmdastjóri fjármála og starfsmannahalds í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins; og Ole Norrback, Evrópumálaráðherra Finnlands. Þá stjórnaði Stein­grímur J. Sigfússon, varaformaður Evrópunefndar, umræðum í seinni hluta ráðstefnunnar, tók saman niðurstöður umræðna og sleit ráðstefnunni. Af hálfu fastanefnda Alþingis sóttu einnig ráðstefnuna Árni R. Árnason, Vilhjálmur Egilsson og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Á ráðstefnunni fór fram lífleg umræða um stækkun Evrópusambandsins og áhrif hennar á Norðurlöndin. Ole Stavad hélt því fram að norrænt samstarf hefði verið mikið á ríkja­ráðstefnu sambandsins og þar hefðu norrænar áherslur náð fram að ganga. Eins væri niður­staðan í stækkunarviðræðum Evrópusambandsins við umsóknarríkin, sem náðist á leiðtoga­fundinum í Lúxemborg, ásættanleg. Hann sagði Norðurlöndin styðja ríki Mið- og Austur-Evrópu í aðildarumsóknum sínum og að framtíðaraðild þessara ríkja mundi styrkja Evrópu­sambandið. Í máli fulltrúa Póllands, Lettlands og Litháen þar sem þeir ræddu um væntingar af ESB-aðild, kom fram að þessi lönd vænta mikils af Norðurlöndunum í því aðlögunarferl­inu fram undan. Þá ítrekuðu þeir að markmiðin með ESB-umsóknunum væru bæði efna­hagsleg og pólitísk og góður árangur í aðlögunarferlinu væri mikilvægur fyrir pólitískan stöðugleika í umsóknarríkjunum. Erkki Liikanen, framkvæmdastjóri fjármála og starfs­mannahalds í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, dró upp helstu útlínur „Agenda 2000“, áætlunar framkvæmdastjórnar ESB um uppstokkun í styrkja- og sjóðakerfi ESB. Hann sagði þessa áætlun vera róttæka, vissulega pólitískt erfiða fyrir ýmis ríki, en þó fyrst og fremst afar nauðsynlega fyrir sambandið til að vera reiðubúið undir stækkun. Þátttakendur á ráðstefn­unni voru um 200 talsins.

5.3. Ráðstefna um áhrif Myntbandalags Evrópu (EMU) á Norðurlöndin.
    Hinn 2. júní hélt Evrópunefndin ráðstefnu um þýðingu Myntbandalags Evrópu fyrir Norðurlöndin. Ráðstefnan fór fram í Ósló og þátttakendur voru þingmenn í Evrópunefnd Norðurlandaráðs og fulltrúar annarra nefnda ráðsins, auk sérfræðinga og embættismanna. Meðal fyrirlesara voru Ilkka Kajaste, deildarstjóri í fjármálaráðuneyti Finnlands, Arne J. Isachsen, prófessor við Verslunarháskólann í Ósló, Ann Westergren Ekstedt, framkvæmda­stjóri hjá Ericsson, Christen Sørensen, formaður atvinnulífsráðs verkalýðshreyfinga Dan­merkur, og Berit Brørby Larsen, forseti Norðurlandaráðs. Af hálfu Íslandsdeildar Norður­landaráðs sótti fundinn Steingrímur J. Sigfússon, en hann tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni fyrir hönd flokkahóps vinstri manna. Auk þess sótti Geir H. Haarde fjármála­ráðherra ráðstefnuna.
    Í umræðunum kom m.a. fram að markmið finnskra stjórnvalda með þátttöku í Myntbandalagi Evrópu (en Finnland tekur eitt Norðurlandanna þátt í bandalaginu frá byrjun) er að hafa áhrif á sameiginlega stefnu ESB í peninga- og gengismálum. Aðspurður hvernig Finnland hygðist bregðast við ytri áföllum í efnahagslífinu eftir að gengisfelling sem hag­stjórnartæki væri úr sögunni sagði Ilkka Kajaste að finnskt efnahagslíf væri mun fjölbreyttara en áður og því líkur á ytri áföllum litlar. Arne J. Isachsen ræddi möguleika lítilla hagkerfa á því að aðlaga sig stóru myntbandalagi og lagði áherslu á að ríkin utan EMU yrðu að gæta að efnahagslegum stöðuleika. Aðeins þannig gætu þau haldið í við myntbanda­lagsríkin, sem og með því að auka sveigjanleika á vinnumarkaði til að geta brugðist við sveiflum. Ann Westergren Ekstedst ræddi möguleika og kosti EMU fyrir atvinnulífið og sagði Ericsson nú þegar hafa tekið upp evruna í bókhaldi sínu. Hættuna við EMU sagði hún vera líkur á því að bandalagið brysti vegna ólíkra aðstæðna í þátttökulöndunum. Loks sakn­aði Christen Sørensen, formaður atvinnulífsráðs verkalýðshreyfinga Danmerkur, efnahags­stefnu hjá myntbandalagsríkjunum, þar eð aðaláhersla væri lögð á stöðugleika en ekki virkar aðgerðir, m.a. til að útrýma atvinnuleysi. Eftir fyrirlestrana og fyrirspurnir þeim tengdar fóru fram líflegar pallborðsumræður.

5.4. Barnforum – ráðstefna um málefni barna og unglinga.
    Dagana 7.–8. desember sl. fór fram í Stokkhólmi ráðstefnan Barnforum sem helguð var málefnum barna og unglinga á Norðurlöndunum, í Eystrasaltsríkjunum og í Norðvestur-Rússlandi. Nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs stóð fyrir ráðstefnunni í samvinnu við UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þátttakendur voru rúmlega 300, ráðherrar, þing­menn, sérfræðingar og fulltrúar ýmissa frjálsra félagasamtaka, auk annarra gesta. Auk þess stóð Norðurlandaráð í samvinnu við norrænu félögin á Norðurlöndunum fyrir ráðstefnu ungs fólks, með þátttöku 50 ungmenna frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu ráðstefnuna Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Auk þess tók Kristín Ástgeirsdóttir þátt í ráð­stefnunni fyrir hönd félagsmálanefndar Alþingis. Þá tók Páll Pétursson félagsmálaráðherra þátt í umræðum ráðherra (eða fulltrúa þeirra) og ungmenna frá Norðurlöndunum og Eystra­saltsríkjunum. Meðal þátttakenda í umræðunum voru Guðný Guðmundsdóttir og Sigrún Helga Jóhannsdóttir frá Æskulýðsráði Íslands og Andri Snær Magnason rithöfundur var annar stjórnenda.
    Berit Brörby Larsen, forseti Norðurlandaráðs, setti ráðstefnuna formlega. Í máli sínu kom hún m.a. inn á bágan aðbúnað fólks á nærsvæðum Norðurlanda og sagði frelsisvorið sem hófst í Austur-Evrópu í byrjun þessa áratugar nú smám saman vera að breytast í kuldahaust. Hún hvatti ráðstefnugesti til að gera sitt besta til að bæta kjör og aðstæður barna og unglinga á nærsvæðunum og fagnaði ráðstefnunni sem hluta af því starfi. Því næst tók Vigdís Finn­bogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, við ráðstefnustjórn. Að lokinni ræðu hennar tóku m.a. til máls þau Anita Gradin, framkvæmdastjóri innflytjenda-, flóttamanna- og innanríkismála hjá ESB, John J. Donahue, yfirmaður Evrópuskrifstofu UNICEF, og Sir Peter Ustinov leikari. Að loknum ræðum þeirra skiptu ráðstefnugestir sér niður í sex vinnuhópa eftir mál­efnum. Þau voru ofbeldi á meðal barna og unglinga; kynferðisglæpir gagnvart börnum; glæp­ir barna og unglinga: fyrirbyggjandi aðgerðir og árangur af þeim; umhverfi og heilsa barna; lífstíll og fíkniefni; og þorum við að láta börnin fá áhrif? Í hverjum vinnuhópi höfðu fram­sögu þrír til fjórir sérfræðingar um hvert málefni, og var hópunum ætlað að koma með eina meginniðurstöðu, helst með ábendingum um beinar aðgerðir. Sigríður A. Þórðardóttir stjórn­aði umræðum í hópnum um kynferðisglæpi.
    Meðal niðurstaðna af umræðum í vinnuhópunum má nefna eftirfarandi: Í fyrsta vinnu­hópnum var bent á mikilvægi þess að greina strax einkenni ofbeldishegðunar á meðal barna og grípa inn í þá þegar. Í því samhengi var áhersla lögð á hlutverk skóla og foreldra. Í vinnu­hópnum um kynferðisglæpi var lögð þung áhersla á að setja málefnið ofar á forgangslista stjórnvalda. Lögð var megináhersla á auka menntun, þekkingu og fræðslu til að berjast gegn þessum vanda, bæði meðal barna og fullorðinna. Þá var í niðurstöðunni vakin athygli á nýj­um hættum samfara internetnotkun þar sem brögð eru að því að barnaníðingar komist í kynni við fórnarlömb. Í þriðja vinnuhópnum var lögð áhersla á að löndin mundu vinna nánar saman í baráttunni gegn glæpum barna og unglinga. Þá var bent á möguleikann á því að nýta vina­bæjarsamstarf og lögð áhersla á þýðingu skólastarfs og frjálsra félagasamtaka. Í fjórða vinnuhópnum, sem fjallaði um umhverfi og heilsu barna og unglinga, var bent á mikilvægi þess að börn og unglingar hefðu sjálf rétt til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi og rétt til þátttöku í ákvarðanatöku. Bent var á hlutverk fjölskyldunnar og skólans í þessu samhengi og hvatt til evrópsks átaks til að bæta umhverfi barna og unglinga. Í vinnuhópnum um lífsstíl og eiturlyf var einnig bent á mikilvægi þess að hafa börn og unglinga með í ráðum. Reynslan sýnir að ungmennin sjálf geta best lagt mat á hvaða áróður og aðgerðir duga best gegn fíkni­efnanotkun. Þá var lagt til að bætt yrði stefnumótun í ríkjunum til að ýta undir heilbrigðan lífsmáta. Í sjötta vinnuhópnum um aukin þátttökuréttindi barna í stefnumótun var bent á verðmæti þess að hlusta á sjónarmið barna og unglinga þar sem stjórnmálamenn gætu fengið góðar hugmyndir. Í tillögum hópsins var hvatt til þess að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna yrði kynntur betur, ekki síst á meðal barna og unglinga.

6. 50. þing Norðurlandaráðs.
    50. þing Norðurlandaráðs var haldið í Ósló dagana 9.–12. nóvember 1998. Íslandsdeild Norðurlandaráðs sótti þingið, auk Sigríðar Jóhannesdóttur, varamanns Steingríms J. Sigfús­sonar, en þau höfðu sætaskipti á þinginu sem aðal- og varamaður. Árni Johnsen og Ísólfur Gylfi Pálmason sóttu þingið sem varamenn Sigríðar A. Þórðardóttur og Sivjar Friðleifs­dóttur. Í upphafi þingsins var 50 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna minnst. Þá voru umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs afhent 11. nóvember eins og getið er að framan.
    Á þinginu voru bæði almennar stjórnmálaumræður og sérstakar umræður um utanríkis- og varnarmál. Davíð Oddsson forsætisráðherra flutti inngangsræðu almennu stjórnmálaumræðunnar, en Ísland fer með formennsku í norrænu ráðherranefndinni árið 1998. Í erindi sínu greindi Davíð frá áætlun ríkisstjórnar Íslands á næsta starfsári sem ber titillinn „Fólk og haf í norðri“. Í þeirri áætlun er einkum lögð áhersla á skynsama og umhverfisvæna nýtingu sjávarauðlinda og mikilvægi þess að rannsaka og hlúa að lífsskilyrðum og menningu fólks á Vestur-Norðurlöndunum og norðurheimskautssvæðinu. Eins er lögð áhersla á að hlúa að dreifðari byggðum og verkefnum tengdum fiskveiðum, landbúnaði, skógarvinnslu, umhverf­isvernd, rannsóknum og menntun. Í stefnuræðu sinni sagði forsætisráðherra m.a. að nýting auðlinda hafsins væri nátengd menningu og hefðum vesturnorræna svæðisins. Umheimurinn sýndi oft lítinn skilning á nýtingu sjávarauðlinda, þar með talið sjávarspendýra, eins og af­staða ýmissa umhverfissamtaka sýndi. Í áætluninni er einnig lögð áhersla á nýtingu upp­lýsingatækni í norrænu samstarfi og að virkja hana í þjónustu við miðlun upplýsinga um norrænan menningararf, norrænt vísindastarf og samfélagsmál. Þá lagði forsætisráðherra áherslu á að Norðurlöndin ættu í sameiningu að taka þátt í því að skapa nýja Evrópu, eftir stríðshörmungar þessarar aldar. Það samstarf tekur til margra þátta og mun einnig beinast að samstarfi við grannsvæðin í vestri, Skotland og Hjaltlandseyjar.
    Gun Hellsvik, þingmaður hægri manna á sænska þinginu, var kosin forseti Norður­landaráðs. Í ræðu sinni í lok þingsins sagðist hún vilja leggja áherslu á aukið samstarf Norð­urlandanna við Eystrasaltsríkin og einkum Rússland. Norðurlöndin yrðu að gæta þess að efla samskipti við öll nærsvæðin, svo ekki yrðu til nýjar aðskilnaðarlínur í álfunni. Hún sagðist enn fremur mundu vinna að því að gera starf ráðsins enn skilvirkara og gera öryggismál, mannréttindamál og menntamál að forgangsverkefnum ráðsins á komandi starfsári.
    Fyrir utan ráðherratillöguna um fjárlögin fyrir 1998 fjallaði þingið einnig um margar ráð­herra-, nefnda- og þingmannatillögur, m.a. um neytendamál, orkumál, baráttu gegn glæpum, réttindi barna á nærsvæðunum og vernd smærri tungumála. Um tilmæli, umsagnir og ákvarð­anir um innri málefni sem samþykkt voru á þinginu vísast til fylgiskjals. Á þinginu var einnig samþykkt breytingartillaga við norrænu fjárlögin. Á þinginu var í þriðja sinn beinn fyrir­spurnatími þar sem samstarfsráðherrar Norðurlanda sátu fyrir svörum. Þá má geta þess að hægt var að ná umræðum á þinginu í beinni útsendingu á internetinu, auk þess sem allar ræður voru settar samdægurs inn á heimasíðu Norðurlandaráðs.

Alþingi, 12. febr. 1999.



Valgerður Sverrisdóttir,


form.


Steingrímur J. Sigfússon,


varaform.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Sturla Böðvarsson.






Fylgiskjal.


Tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni samþykktar


á 50. þingi Norðurlandaráðs.
(Ósló, 9.–12. nóvember 1998.)



Tilmæli:

Tilmæli nr. 1/1998.
Samstarfsáætlunin um norræna samvinnu á sviði
fíkniefnavarna 1997–2000 (B 170/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún samþykki tillögu um samstarfsáætlunina „Norræn samvinna á sviði fíkniefnavarna 1997–2000“ og að Norðurlandaráð fái árlegar framkvæmdaáætlanir til umsagnar.

Tilmæli nr. 2/1998.


Norrænir vöruflutningar (A 1170/nord)


    
Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún geri Norðurlandaráði grein fyrir skoðun sinni á vöruflutningum á löngum leiðum og þörfinni á norrænni samræmingu á sviði vöruflutninga og geri í því sambandi sér­staklega grein fyrir því:
                   hvernig ráðherranefndin mun samræma og stuðla með öðrum hætti að þróun vöruflutninga bæði innan Norðurlanda, til þeirra og frá, og
                   hvernig hún vilji leysa umhverfisvandamál flutningageirans með tilliti til þróunar vöruflutninga á löngum leiðum með járnbrautum annars vegar og á þjóðvegum hins vegar.

Tilmæli nr. 3/1998.


Norrænu fjárlögin fyrir 1999 (B 180/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að vinnan í fjárlagaferlinu verði aukin og bætt með stöðugu samráði ráðsins og nefndarinnar,
          að nefndin taki í fjárlagastarfinu tilhlýðilegt tillit til óska ráðsins eins og þær koma fram í tilmælum þess, og
          að gerðar verði eftirfarandi breytingar á tillögu til fjárlaga fyrir árið 1999:
                    fjárveiting til norræna menningarsjóðsins verði aukin um 1,5 milljónir DKK,
                    fjárveiting til norræns íþróttasamstarfs verði aukin um 100.000 DKK,
                    fjárveiting til norrænna ungmennanefnda verði aukin um 250.000 DKK,
                   fjárveiting til liðar 1112, námsmannaskipti milli Vestur-Norðurlanda og annarra Norðurlanda, verði aukin um 300.000 DKK,
                   fjárveiting til liðar 1140, norræn málnefnd, verði aukin um 800.000 DKK,
                    fjárveiting til liðar 1142, Nordmål, verði aukin um 100.000 DKK,
                    fjárveiting til liðar 1166, norræn lífsiðanefnd, verði aukin um 500.000 DKK og umboð nefndarinnar framlengt,
                    fjárveiting til liðar 2000, matvælamál, verði aukin um 2 milljónir DKK,
                    fjárveiting til liðar 2200, áætlun um samstarf á sviði fíkniefnavarna, verði aukin um 90.000 DKK,
                    fjárveiting til liðar 6009, styrkir til sjálfboðastarfs, verði aukin um 200.000 DKK,
                    veitt verði 1 milljón til endurbóta á norrænu húsunum í Þórshöfn og Reykjavík,
                    veitt verði 1,6 milljónir DKK til frumkönnunar vegna Nordplus-mini áætlunarinnar,
                    fjárveiting til liðar 1070, þverfagleg verkefni, verði skorin niður um 1 milljón DKK,
                    fjárveiting til liðar 2801, Norræni iðnaðarsjóðurinn, verði skorin niður um 1,5 milljónir DKK,
                    norðurskautsrannsóknaáætluninni verði frestað um eitt ár, til 1999–2003, með vísan til þess að hún er varla hafin 1998 og skera þannig fjárveitingu til hennar niður um 5,5 milljónir DKK 1999 án þess þó að breyta heildarkostnaðinum, 30 milljónum DKK,
                    að lögð verði sérstök áhersla á eftirfarandi málaflokka þegar unnið verður að tillögu um fjárlög fyrir árið 2000:
                              börn og ungmenni á Norðurlöndum og nærsvæðum Norðurlanda,
                              tungumálasamstarf,
                              samstarf á sviði fíkniefnavarna,
                              barátta gegn glæpum,
                              neytendamál,
               að tekið verði að öðru leyti tillit til þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í umsögn forsætisnefndarinnar.

Tilmæli nr. 4/1998.


Marghliða samningur um fjárfestingar (MAI-samningurinn)


(Multilateral Agreement on Investment) (A 1178/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær leitist við í meginatriðum að koma á fjölhliða samningi um fjárfestingar fremur en að búa við flókið kerfi tvíhliða samninga,
          að þær stuðli að því að samkomulag náist um MAI-samning með þátttöku eins margra þjóða og kostur er,
          að þær stuðli að því að MAI-samningnum verði haldið innan ramma efnahagslegrar, félagslegrar og sjálfbærrar þróunar,
          að þær taki í áframhaldandi samningaviðræðum mið af því sem fram kemur í umsögn þessari, um þörfina á að vernda umhverfið, réttindi launþega og menningargildi og að ekki verði slegið af kröfum að þessu leyti,
          að þær hvetji til opinberrar umræðu á meðan viðræðuferlinu stendur með þátttöku samtaka iðnaðarins og launþega, samtaka um umhverfisvernd og þróunarlandaaðstoð og annarra sem málið varðar.

Tilmæli nr. 5/1998.


Aðgerðir til að stuðla að þróun markaða á nærsvæðum


Norðurlanda (A 1183/n).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún láti kanna þörfina á aðgerðum sem nýtast smáfyrirtækjum á nærsvæðunum, bæði í formi lána og hæfnisaukandi aðgerða, sem hægt er að hrinda í framkvæmd á samnor­rænum grundvelli,
          að hún hefji starfsemi til að fullnægja þeim þörfum sem mest áhersla er lögð á.

Tilmæli nr. 6/1998.


Norræn nettengsl fyrir greiningu og þróun hugmynda


sem snerta stefnuna í atvinnumálum (A 1171/euro).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún láti gera úttekt á skipulagi og hæfni þeirra rannsókna- og greiningarstofnana, sem til eru á sviði atvinnumála, og geri á grundvelli niðurstöðunnar tillögu um hvernig koma megi á fót norrænum nettengslum sem hvetji til þróunar á þessu sviði.

Tilmæli nr. 7/1998.


Sveigjanlegur vinnutími (A 1179/euro).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að í skýrslunni um atvinnumál árið 1999 verði gerð grein fyrir reynslunni af og niðurstöðum rannsókna á mismunandi vinnutímafyrirkomulagi sem veitir aukinn sveigjan­leika, m.a. hvað snertir „tímareikning“, leyfi til menntunar og ýmiss önnur form leyfa.

Tilmæli nr. 8/1998.


Breyting á samkomulagi frá 1993 um samnorrænan


vinnumarkað ákveðinna heilbrigðisstétta og dýralækna (B 173/euro).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún staðfesti samkomulag frá 1993 um samnorrænan vinnumarkað ákveðinna heilbrigðisstétta og dýralækna.

Tilmæli nr. 9/1998.


Samræming norrænna reglna um lífeyrisréttindi (A 1169/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún láti kanna þörfina á því að samræma lífeyrislöggjöf landanna og matsreglur vegna útborgunar lífeyris og að Norðurlandaráð fái að fjalla um niðurstöðuna.

Tilmæli nr. 10/1998.


Bætt einstaklingsbundin akstursþjónusta fyrir fatlaða (A 1172/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún leiti leiða í hverju landanna til að bæta aðgengi norrænna ríkisborgara að einstaklingsbundinni akstursþjónustu fyrir fatlaða eða samsvarandi þjónustu.

Tilmæli nr. 11/1998.


Framkvæmdaáætlun fyrir bygginga- og húsnæðisgeirann (B 166/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún staðfesti framkvæmdaáætlun fyrir bygginga- og húsnæðisgeirann fyrir árin 1998–2001 í samræmi við tillögu B 166/nord, en hún felur í sér að í meginatriðum er miðað við félagslega þætti húsnæðismála og að aðgerðir til að stuðla að sjálfbærri þró­un bygginga- og húsnæðisgeirans takmarkist fyrst og fremst við verkefni þar sem lögð er áhersla á umhverfis- og heilbrigðisþætti, og
          að hún geri árlegar verkáætlanir og geri Norðurlandaráði grein fyrir í árskýrslunni hvað hafi verið gert.


Tilmæli nr. 12/1998.


Samræming aðgerða fyrir börn og ungmenni á


nærsvæðum Norðurlanda (B 184/när).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær samræmi aðgerðir sínar hvað snertir börn og ungmenni á nærsvæðum Norðurlanda og geri í síðasta lagi í maí 1999 tillögu um hvaða hluta norrænu framkvæmdaáætl­unarinnar þær taki að sér að fjármagna.

Tilmæli nr. 13/1998.


Staða barna og ungmenna á nærsvæðum


Norðurlanda (B 184/när).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún samþykki fyrirliggjandi tillögu sem rammaáætlun í því skyni að bæta stöðu barna og ungmenna á nærsvæðum Norðurlanda,
          að hún kynni Norðurlandaráði árlega verkáætlun sem taki einnig til skiptingar ábyrgðar og fjárveitinga; fyrsta verkáætlunin þyrfti að berast Norðurlandaráði í maí 1999,
          að hún gefi Norðurlandaráði árlega skýrslu um framgang mála og þau vandamál sem upp koma við framkvæmd verkáætlunarinnar,
          að samstarfsráðherrarnir fyrir hennar hönd vinni að því að samræma aðgerðir norrænu ríkjanna fyrir börn og ungmenni á nærsvæðunum, og
          að hún við gerð norrænu fjárlaganna fyrir árið 2000 veiti meira fé til framkvæmdar verkáætlunarinnar.

Tilmæli nr. 14/1998.


Aðgerðir gegn kynþátta- og útlendingahatri (B 174/nord).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún hrindi áformuðum aðgerðum í framkvæmd eins og þeim er lýst í tillögu B 174/nord og, í samræmi við tillögu til norrænna fjárlaga fyrir 1999:
          að samstarfsráðherrarnir leggi fram í síðasta lagi í júní 1999 heildstæða framkvæmdaáætlun til langs tíma og með tímaáætlun til að vinna gegn kynþáttaaðskilnaði, kynþátta- og útlendingahatri á eftirfarandi sviðum: skoðanamyndun og viðhorfsbreytingar; sam­starf við fræðilega athugun á innbyrðis tengslum kynþáttahatara á Norðurlöndum; sam­starf við og styrkir til sjálfboðaliðasamtaka; aðgerðir sem beinast að börnum og ung­mennum; samvinna á sviði löggjafar og dómsmála.

Tilmæli nr. 15/1998.
Tvíhliða samningar um samstarf lögregluyfirvalda á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi (A 1186/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær stuðli að því að öll norrænu ríkin geri skilvirka tvíhliða samninga um samstarf lögregluyfirvalda á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi.


Tilmæli nr. 16/1998.
Forvarnaaðgerðir og barátta gegn glæpastarfsemi í Eystrasaltsríkjunum og norðvesturhluta Rússlands (A 1186/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að í samstarfi dómsmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hafi forgang aðgerðir til að koma í veg fyrir brot sem tengjast mannréttindum, þar með talin þróun ann­ars konar refsiúrræða fyrir börn undir lögaldri og endurhæfingaráætlanir fyrir fyrrver­andi fanga, t.d. með því að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til norrænu afbrotavarna­ráðanna og að staða samstarfsins verði ákveðin í síðasta lagi á þinginu 1999,
          að hún fari fram á að norrænu dómsmálaráðherrarnir skýri sérstaklega frá aðgerðum gegn fjármálaafbrotum á Norðurlöndum og nærsvæðum þeirra, t.d. á sameiginlegum fundi með þingmönnum Eystrasaltsríkjanna 1999 eða á þinginu 1998,
          að hún, innan ramma árlegra verkáætlana á sviði fíkniefnavarna, styrki upplýsingaherferðir í skólum og hjá félagasamtökum á nærsvæðunum, t.d. með því að styrkja fram­leiðslu og dreifingu efnis,
          að hún, ásamt fulltrúum fyrirtækja, kanni möguleika á að móta siðareglur fyrir norræn fyrirtæki, sem starfa á nærsvæðunum, sem miði að því að vinna gegn spillingu.

Tilmæli nr. 17/1998.
Samvinna við sjálfboðaliðasamtök (B 178/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún hrindi í framkvæmd fyrirliggjandi áætlun um samvinnu við sjálfboðaliðasamtök og að hún geri grein fyrir framgangi samvinnunnar í árlegri skýrslu til Norðurlandaráðs,
          að hún setji í samráði við Norðurlandaráð nánari reglur um hvers konar samtök samvinnan geti tekið til og leggi fram lista yfir þau samtök sem hún nær til,
          að hún láti Norðurlandaráði í té greinargerð um samvinnu við sjálfboðaliðasamtök á einstökum sviðum ásamt tilheyrandi verk- og fjárhagsáætlunum.

Tilmæli nr. 18/1998.
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs (A 1146/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að reglur um tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs verði víkkaðar þannig að þær taki mið af æ örari breytingum í heimi tónlistarinnar,
          að hún láti setja sveigjanlegar og opnar reglur sem geri bæði kleift að fylgja eftir því sem nýtt er og veiti tilnefningum og verðlaunaveitingu aukið vægi í framtíðinni,
          að haldið verði í sjálfa umgerðina um verðlaun vegna listræns framlags, en að reglurnar verði færðar í nútímahorf og gerðar sveigjanlegri þannig að unnt verði að tilnefna tón­skáld fyrir meira en eitt einstakt verk og að núgildandi skipting verði lögð af, þ.e. að annað hvert ár séu veitt verðlaun fyrir túlkun tónlistar og annað hvert ár fyrir tónlistar­sköpun, þannig að norræna tónlistarnefndin fái frjálsari hendur við val á verðlauna­höfum,
          að eftir sveigjanlegri túlkun reglnanna verði áfram aðeins miðað við listræna starfsemi, og
          að haft verði samráð við norrænu tónlistarnefndina og Norðurlandaráð þegar unnið verður að breytingum á reglunum.


Tilmæli nr. 19/1998.
Samræming löggjafar á sviði höfundarréttar (A 1166/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún hafi frumkvæði að því að ríkisstjórnir Norðurlanda komi á samræmdri löggjöf á sviði höfundarréttar sem tryggi rétthöfum eðlilegar greiðslur fyrir æ algengari notkun á efni úr söfnum norrænna sjónvarpsstöðva.

Tilmæli nr. 20/1998.
Líkan að stefnu í norrænum menningarmálum (B 172/nord).

Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að á árinu 1999 eigi sér stað viðræður, bæði á faglegum og pólitískum nótum, milli Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar um stefnuna í norrænum menningarmálum í heild, þannig að líkan ráðherranefndarinnar fái pólitískt inntak,
          að hún hafi samráð við Norðurlandaráð snemma árs 1999 um forgangsröðun á menningarsviðinu vegna vinnu við gerð fjárlaga fyrir árið 2000, og
          að hún gefi Norðurlandaráði árlega skýrslu um verkáætlun, tímaáætlun og fjárhagsáætlun.

Tilmæli nr. 21/1998.
Norrænt samkomulag um stofnun frjálsra skóla (A 1167/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að vinna hefjist við að hrinda í framkvæmd norrænu samkomulagi sem veitir foreldrum rétt til að velja í hvaða skóla börn þeirra ganga og leyfir stofnun frjálsra skóla og skapar þeim fjárhagsleg skilyrði þannig að þar verði einnig unnt að halda uppi góðu skólastarfi.

Tilmæli nr. 22/1998.
Norræn tungumálastefna (B 177/nord, A 1182/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hrundið verði í framkvæmd öllum aðalmarkmiðum, áfangamarkmiðum og tillögum til aðgerða sem fram koma í tillögu ráðherranefndarinnar, og
          að við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar fyrir Nordmål verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem tungumálanefndin hefur lagt fram og að ráðherranefndin hafi áfram samráð við Norðurlandaráð.

Tilmæli nr. 23/1998.
Norræn stefna í rannsóknamálum (B 171/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún staðfesti tillögu B 171/nord um norræna stefnu í rannsóknamálum að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram komu í Norðurlandanefnd.

Tilmæli nr. 24/1998.
Samræming aðstoðar á nærsvæðum Norðurlanda (A 1190/k).
    

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær íhugi framlagðar tillögur um aðgerðir til að bæta samræmingu aðgerða ríkisstjórna Norðurlanda á nærsvæðunum, en þær eru í sex liðum:
                    kerfisbundnari skipti á upplýsingum,
                    að auðvelda lettneskum stjórnvöldum að samræma eigin aðgerðir og aðgerðir annarra landa,
                    að stuðla að þróun norrænu fjárfestingastofnananna,
                    að efla málefnaumræðu innan Norðurlanda,
                    að auka pólitískt samráð milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna,
                    að taka tillit til sérþarfa hvað snertir samræmingu aðstoðar í Rússlandi, og
                    að þær geri Norðurlandaráði grein fyrir niðurstöðunum á hentugan hátt í síðasta lagi á 51. þingi Norðurlandaráðs.

Tilmæli nr. 25/1998.
Aðgerðir til að styrkja stöðu neytenda á Norðurlöndum innan Evrópusambandsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (A 1173/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær vinni að því að á öllum sviðum verði teknar upp kröfur um að tekið verði tillit til neytenda, þ.e. að á hinum ýmsu sviðum (t.d. á sviði umhverfismála, félagsmála og bygginga- og húsnæðismála) verði tekið tillit til neytenda, að neytendamál verði tekin upp sem þáttur í velferðarlíkaninu og að norrænir framleiðendur verði hvattir til fram­leiðslu á neytenda- og umhverfishæfum vörum, sem síðan gæti aukið samkeppnishæfni þegar til langs tíma er litið,
          að þær vinni saman að því að hafa áhrif á ákvarðanir í ráðherraráði ESB fyrir neytendamál og í öðrum ráðherraráðum þannig að ný ákvæði Amsterdamsáttmálans um neyt­endavernd verði í reynd færð inn í öll lög og reglugerðir og túlkuð rúmt til hagsbóta fyrir neytendur,
          að þær stuðli að því að fá samtök neytenda og sjúklinga til að taka þátt í því starfi að tryggja hag neytenda, og
          að lögð verði aukin áhersla á hagsmuni neytenda í næstu umferð viðræðna um Alþjóðaviðskiptastofnunina.

Tilmæli nr. 26/1998.
Þátttaka norrænna neytendasamtaka í undirbúningi funda Evrópusambandsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (A 1173/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að á norrænu fjárlögunum verði veittar 500.000 DKK til þátttöku norrænna neytendasamtaka í undirbúningi funda Evrópusambandsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Tilmæli nr. 27/1998.
Betri vörulýsingar og vörumerkingar á Norðurlöndum.

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær vinni að því innan Norðurlanda og ESB að allar vörur í smásölu verði með fullnægjandi vörulýsingu og hugsanlegri merkingu; þessi krafa á að taka til allra vöru­flokka, einnig matvöru,
          að þær vinni að því að reglur um vörulýsingar og merkingar verði miðaðar við hæsta upplýsingastig og tryggi þannig rétt neytenda til að fá fullnægjandi upplýsingar,
          að haldið verði uppi stöðugri upplýsingamiðlun svo að neytendur læri að þekkja ýmis tákn og heiti sem notuð eru í vörulýsingum, og

          að þær vinni að því að bæta upplýsingaskipti og viðvörunarkerfi (t.d. með Rapex-kerfi ESB) vegna hættulegra vara og gera slík kerfi aðgengileg neytendum og neytendasam­tökum, svo og að bæta sérstaklega eftirlit með matvælum.

Tilmæli nr. 28/1998.
Fjölgun þeirra vöruflokka sem Svanurinn nær til (A 1174/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún haldi áfram að fjölga þeim vöruflokkum sem umhverfismerking með Svaninum nær til og að hún í því sambandi styðji athuganir á lausn sérstakra umhverfisvandamála varðandi viðkomandi vöruflokka og setji saman upplýsingaáætlun sem nái til lengri tíma en til ársins 1998 og feli m.a. í sér samnorræna heimasíðu á internetinu.

Tilmæli nr. 29/1998.
Löggjöf um matvæli á Norðurlöndum og í ESB.

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær vinni að því að í löggjöf um matvæli og allri annarri löggjöf ESB verði tekið tillit til 152. og 153. gr. Amsterdamsáttmálans og yfirlýsingar Evrópuráðsins um matvæla­öryggi,
          að þær leggist gegn því að fjölgað verði á lista ESB leyfilegum aukefnum í matvælum og að þær samþykki að betri og öruggari aukefni komi í stað óhollari aukefna sem eru leyfileg nú,
          að þær vinni að því að tryggja heilbrigða, umhverfishæfa og siðfræðilega viðunandi framleiðslu og vinnslu matvæla sem ekki eru neytendum óholl, spilla umhverfinu eða brjóta gegn grundvallarsiðfræðireglum um meðferð dýra, m.a. með því að veita fram­leiðendum landbúnaðarvara upplýsingar um mismunandi aðferðir.

Tilmæli nr. 30/1998.
Góðir viðskiptahættir við markaðssetningu á sviði upplýsingatækni í ESB og á alþjóðavísu (A 1176/euro).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að þær í sameinist um að beina því til ESB að framkvæmdastjórnin láti skilgreina þýðingu internetsins fyrir neytendavernd í því augnamiði að koma á skilgreiningu á góðum viðskiptaháttum við markaðssetningu innan ESB og á heimsvísu sem tryggi neytendum núverandi réttindi (einnig við viðskipti í gegnum netið), tryggi að ekki sé beitt óheiðar­legum aðferðum við markaðssetningu, sem og tryggi frjálsa og jafna samkeppni. Megin­reglan um góða viðskiptahætti við markaðssetningu skal og ná til upplýsingatækni og taka mið af nýjum vandamálum sem upp koma vegna sívaxandi útbreiðslu rafrænna við­skipta.

Tilmæli nr. 31/1998.
Umhverfisvottun á fiski (A 1184/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún haldi áfram, á sem víðtækustum grundvelli, vinnu við að skilgreina sjálfbærar fiskveiðar, sem og að þróa viðmiðunarreglur fyrir vottun,
          að hún kanni möguleika á því að taka upp norræna umhverfismerkingu fyrir fisk sem nái til alls ferlisins frá veiðum til sölu,
          að hún kanni möguleika á því að umhverfismerking á fiski verði gerð innan norrænu umhverfismerkingarinnar (Svansins), og
          að hún haldi áfram aðgerðum eins og „Grænu bylgjunni“ til að hleypa lífi í pólitískar umræður um sjálfbærar fiskveiðar.

Tilmæli nr. 32/1998.
Norræni umhverfisþróunarsjóðurinn (B 182/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún staðfesti tillöguna um framhald á starfsemi norrænu stofnunarinnar fyrir fjármögnun á umhverfissviði á nærsvæðunum (Norræna umhverfissjóðsins) í samræmi við tillögu B 182/när, að teknu tilliti til sjónarmiða nærsvæðanefndarinnar.

Tilmæli nr. 33/1998.
Starfsaðstaða umhverfisvísindamanna í Rússlandi (A 1187/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda og norrænu ráðherranefndina:
          að þær í samskiptum sínum við rússnesk yfirvöld veki máls á starfsleyfum fyrir norræna umhverfisvísindamenn og aðra, svo og á afgreiðslu flutninga-, tolla- og skattamála á landamærum Rússlands hvað snertir umhverfisrannsóknir og rannsóknarbúnað.

Tilmæli nr. 34/1998.
Uppbygging samfélags íbúanna í Múrmansk (A 1187 när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að hún tilnefni tengilið í Múrmansk sem vinni með sama hætti og tengiliðir í Archangelsk og Petrozavodsk,
          að hún láti þau umhverfisverkefni í Múrmansk hafa forgang sem hafa bein áhrif á daglegt líf íbúanna, t.d. skjótvirkar aðgerðir til að leysa vandamál sem snerta grunnvatn og frárennsli,
          að hún styðji stjórnsýslu Múrmansk á sem hentugastan hátt í umhverfismálum og löggjafarstarfi,
          að hún styðji á allan hátt uppbyggingu samfélags íbúa í Múrmansk með því að veita aðstoð við samstarfsverkefni sveitarfélaga og með því að miðla upplýsingum, t.d. um grenndarlýðræði, sjálfboðaliðasamtök og jafnréttismál, og með því að styðja samskipti norrænna og rússneskra sjálfboðaliðasamtaka á svæðinu,
          að hún kanni möguleika á því að styðja nýjar aðgerðir til að stuðla að þróun skólastarfs á svæðinu og þá sérstaklega kennslu í samísku fyrir samísk börn.

Tilmæli nr. 35/1998.
Norrænt samstarf á sviði samgangna, samskipta
og umferðaröryggis (B 179/nord).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að norrænt samstarf á sviði samgangna, samskipta og umferðaröryggis verði eflt og að fjármagnsþörf þess verði könnuð og að Norðurlandaráði verði gerð grein fyrir niður­stöðunni.


Tilmæli nr. 36/1998.
Framkvæmd norræns umhverfisbókhalds í orkumálum og samræming umhverfisskatta á rafmagn (A 1188/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
          að fyrir árið 2001 verði gerð ítarleg greining á aðgerðum sem muni leiða til þess að norrænn rafmagnsmarkaður verði enn sjálfbærari með aukinni samræmingu mismunandi orkugjafa. Við greininguna skal leggja eftirfarandi atriði til grundvallar:
       —      rafmagnsverð á norrænum markaði skal endurspegla umhverfiskostnaðinn vegna hinna mismunandi orkugjafa,
       —      nýta skal kosti mismunandi orkugjafa þannig að orkuframleiðslan á ársgrundvelli verði eins umhverfisvæn og kostur er, og
       —      draga skal úr niðurgreiðslum og öðru því sem ívilnar notkun óendurnýjanlegra og mengandi orkugjafa,
          að fyrir árið 2001 verði hrundið í framkvæmd aðgerðum á norrænum rafmagnsmarkaði til að koma á samræmdu kerfi til að taka umhverfiskostnaðinn með í reikninginn á fram­leiðslustigi í því skyni að draga úr útblæstri koltvísýrings og annarra gróðurhúsaloft­tegunda,
          að fyrir árið 2001 verði komið á norrænu umhverfisbókhaldi í orkumálum, sem verki sem tæki til að ná fram umhverfisvernd með hámarksnýtingu orkulinda landanna í því skyni að stemma stigu við mengandi útblæstri, og
          að haldin verði ráðstefna í Ósló á árinu 1999 sem skili Norðurlandaráði áfangaskýrslu um það starf sem fram fer á þessu sviði.

Tilmæli nr. 37/1998.
Tengslanet til að efla starf Dagskrár 21 á Eystrasalti (A 1189/när).

    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
          að komið verði á tengslaneti til að efla starf Dagskrár 21 og að veittar verði 500.000 DKK í því skyni.


Umsagnir:

Nr. 1/1998.
Skýrsla til Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar um
endurskoðun á starfi norræna ráðherraráðsins árið 1998 (C 3/k)
.

    Norðurlandaráð beinir því til norrænu ráðherranefndarinnar:
          að hún vinni áfram að endurbótum á fjárhagslegri og stjórnsýslulegri stjórnun þeirrar starfsemi sem fjármögnuð er á norrænu fjárlögunum,
          að eins fljótt og auðið er verði gerðar úrbætur vegna þeirra ágalla á fjármálastjórn og fjárumsýslu einstakra norrænna stofnana sem Ríkisendurskoðun gagnrýndi.

Nr. 2/1998.
Skýrsla Norræna menningarsjóðsins (C 5/k)

    Norðurlandaráð beinir því til norrænu ráðherranefndarinnar:
          að hún og skrifstofa menningarsjóðsins sjái til þess að gerðar verði úrbætur vegna þeirra ágalla á stjórnun sjóðsins sem endurskoðendur bentu á og taki þannig tillit til þeirra aðgerða sem endurskoðendur lögðu til.
Innri ákvarðanir:

Nr. 1/1998.
Styrkjaáætlun fyrir afbrotavarnir (A 1186/när).

    Norðurlandaráð samþykkir:
          að koma á sérstakri áætlun innan ramma núverandi styrkjaáætlunar fyrir þingmenn sem beinist að aðgerðum til að koma í veg fyrir afbrot.

Nr. 2/1998.
Málstefna um stöðu frumbyggja (A 1187/när).

    Norðurlandaráð samþykkir:
          að hafa frumkvæði að málþingi fyrir Dúmuna í Múrmansk og þing Sama um stöðu frumbyggja og löggjöf í málum Sama,
          að hafa samband við þingmenn í Múrmansk, t.d. í sambandi við styrki ráðsins.