Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 895  —  224. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Birgi Má Ragnarsson frá viðskiptaráðuneyti og Margeir Pétursson héraðsdómslögmann. Umsagnir um málið bárust frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Kaupþingi hf., Sambandi íslenskra við­skiptabanka, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Verðbréfaþingi Íslands og Verslunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að unnt verði að stofna verðbréfasjóði sem eingöngu verði markaðssettir hér á landi og hafi meira svigrúm til fjárfestinga en felast í hinum ströngu ákvæðum verðbréfasjóðatilskipunar ESB. Flest EES-ríki hafa sambærilega heimild í löggjöf sinni. Í gildandi lögum um verðbréfasjóði er íslenskum verðbréfasjóðum að þessu leyti snið­inn þrengri stakkur en víðast hvar erlendis og er í frumvarpinu lagt til að tekið verði á því.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Lögð er til breyting á 5. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins. Venjan sú að verð­bréfasjóðir geri ekki afleiðusamninga heldur eigi viðskipti með þá og er orðalag frumvarps­ins lagfært með tilliti til þess. Þá er lagt til, eftir ábendingu verðbréfafyrirtækja, að ákvæði lokamálsliðar málsgreinarinnar verði víkkað út þannig að Fjármálaeftirlitinu verði falið að setja reglur um þessi viðskipti í stað þeirrar takmörkunar sem nú kemur fram í málsliðnum. Heimildin verði ekki bundin við að verðbréfasjóður megi aðeins skuldbinda sig til að af­henda verðbréf og gjaldmiðla sem eru í eigu sjóðsins allan samningstíma afleiðusamnings heldur að verðbréfasjóður verði ætíð að eiga eignir af réttri gerð og nægjanlega verðmætar til að standa á móti afleiðusamningum.

Alþingi, 22. febr. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar Oddur Kristjánsson.


Árni R. Árnason.


Valgerður Sverrisdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Sigríður Jóhannesdóttir.