Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 898  —  323. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson og Áslaugu Guðjónsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Sigurbjörgu Björnsdóttur frá Lífeyrissjóði bænda, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands og Guðríði Þorsteinsdóttur og Guðmund Þorsteinsson úr stjórn Lífeyrissjóðs bænda. Umsagnir um málið bárust frá Bændasamtökum Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Lífeyrissjóði bænda, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sam­tökum verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Verðbréfaþingi Íslands og Verslunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heildarlög um starfsemi Lífeyrissjóðs bænda. Er þeim að meginefni ætlað að laga starfsemi sjóðsins að ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á 2. gr. frumvarpsins um að sjóðstjórn sé skylt að veita maka bónda sem er ekki aðili að búrekstri undanþágu frá sjóðsaðild að Lífeyrissjóði bænda enda sé viðkomandi með fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði. Nefndin taldi rétt að kveða afdrátt­arlaust á um þetta atriði þannig að ekki þurfi að koma upp vafi við túlkun ákvæðisins um hvenær veita skuli slíka undanþágu og hvenær ekki.
     2.      Lagðar eru til lagfæringar á frumvarpinu varðandi hugtakanotkun þannig að hugtakið maki verði skilið í þessum lögum eins og skv. 3. mgr. 16. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þessar breytingar miða að því að tryggja að einstaklingar í óvígðri sambúð og staðfestri samvist njóti sambærilegra réttinda og fólk í hjónabandi. Þessar breytingar er að finna í eftirfarandi breytingartillögum: b-lið 1. tölul., c-lið 7. tölul., b-lið 8. tölul. og 9. tölul.
     3.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á ýmsum ákvæðum til samræmingar eða einföldunar frumvarpstextans og til að gera hann skýrari. Hér er um að ræða a- og c-lið 2. tölul., a- og b-lið 3. tölul., 5. tölul., a- og b-lið 7. tölul. og a- og c-lið 8. tölul. breytingartillagna.
     4.      Lagt er til að við 4. mgr. 3. gr. bætist nýr málsliður sem heimili sjóðnum að annast sjálfur innheimtu iðgjalda og framlaga samkvæmt greininni enda kom fram við meðferð málsins að ekki er unnt að innheimta iðgjald vegna allra bænda á þá leið sem greinin gerir almennt ráð fyrir og er þessi heimild því nauðsynleg. Þá er lagt til að efni 6. mgr. 3. gr. verði fært í 4. mgr. til einföldunar frumvarpstextans og þannig að skýrt komi fram til hvaða dags eigi að reikna dráttarvexti.
     5.      Lagt er til að orðað verði skýrar við hvaða mánuð er átt með orðunum „næsta mánaðar“ í 4. mgr. 4. gr., þ.e. að þar sé átt við næsta mánuð eftir launatímabil.
     6.      Lagt er til að viðmiðunarfjárhæðir í 6. og 13. gr. frumvarpsins hækki til samræmis við þá breytingu sem varð hjá almennu lífeyrissjóðunum þegar þeir breyttu viðmiðun sinni úr lánskjaravísitölu í vísitölu neysluverðs.
     7.      Lagt er til að 21. gr. verði umorðuð þannig að í stað þess að kveðið sé á um að stjórnin skuli lækka lífeyrisréttindi og lífeyrisgreiðslur verði sú skylda lögð á stjórnina að beita sér fyrir viðeigandi breytingum á lögum og/eða samþykktum sjóðsins. Breytingin á text­anum miðar að því að færa ákvæðið til samræmis við þau úrræði sem stjórnin hefur. Réttindi þau sem tilgreind eru í frumvarpinu eru í sumum tilvikum lágmarksréttindi og er unnt að veita betri réttindi í samþykktum, sbr. t.d. 2. mgr. 13. gr. þar sem tilgreindur er lágmarksstuðull vegna útreiknings elli- og örorkulífeyris. Í öðrum tilvikum eru skil­yrðin bundin í lögum, sbr. t.d. skilyrðin til þess að öðlast rétt til makalífeyris. Stjórnin getur eingöngu breytt lífeyrisgreiðslum með því móti að fara niður í lágmarksréttindi samkvæmt lögunum en ef gera þarf frekari breytingar er nauðsynlegt að það verði gert með lagasetningu.
     8.      Lögð er til breyting á 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Í ljós kom nú um áramótin að lífeyrir lækkaði vegna lækkunar vísitölu frá júlí 1998 til janúar 1999 og því þykir rétt að breyta orðalagi málsgreinarinnar til að réttindi eldri sjóðfélaga yrðu ekki skert.
     9.      Þá er lagt til að gildistökuákvæði verði breytt þannig að lögin taki gildi 1. júlí 1999 í stað 1. janúar 1999.
     10.      Af breyttri gildistöku leiðir að bæta þarf tveimur málsgreinum við ákvæði til bráðabirgða sem hafa að geyma lagaskilareglur.
    Gunnlaugur M. Sigmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. febr. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Valgerður Sverrisdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


                        

Svavar Gestsson.


Einar Oddur Kristjánsson.