Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 910  —  230. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998–2001.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skarphéðin Berg Steinarsson frá for­sætisráðuneyti, Sigurð Guðmundsson frá Þjóðhagsstofnun og Indriða H. Þorláksson ríkis­skattstjóra.
    Umsagnir um málið hafa borist frá Landsvirkjun, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra við­skiptabanka, Vinnumálasambandinu, Hagstofu Íslands, Landgræðslu ríkisins, Vegagerðinni, Vélstjórafélagi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sjómannasambandi Íslands, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Þjóðminjasafni Íslands, Félagsvísindastofnun Háskóla Ís­lands, Alþýðusambandi Íslands, húsfriðunarnefnd, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlands­kjördæmi vestra, Rafmagnsveitum ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Háskólanum á Akureyri, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, héraðsnefnd Eyjafjarðar, Sambandi ís­lenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, sveitarstjórn Skaga­fjarðar, Bændasamtökum Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðunesjum, héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Farmanna- og fiskimanna­sambandi Íslands, Skógrækt ríkisins, Þjóðhagsstofnun, Eyþingi og Landssíma Íslands.
    Tillagan á rót sína að rekja til bréfs forsætisráðherra til Byggðastofnunar 19. ágúst 1997 þar sem farið var fram á að gerð yrði áætlun um byggðamál, með vísan til 8. gr. laga um Byggðastofnun. Í kjölfarið unnu starfsmenn stofnunarinnar skýrslu um byggðamál sem stjórn stofnunarinnar lagði síðan til grundvallar við gerð tillagna sinna. Þingsályktunartillagan byggist að mestu leyti á tillögu stjórnar Byggðastofnunar. Er ljóst að mikið starf liggur að baki tillögunni og fylgir henni til skýringar fjöldi fylgiskjala.
    Tillagan skiptist í fjóra meginþætti. Í fyrsta þætti hennar er fjallað um nýsköpun í atvinnu­lífinu, í öðrum þætti um menntun, þekkingu og menningu, í þriðja þætti um jöfnun lífskjara og bætta samkeppnisstöðu og loks er í fjórða þætti fjallað um bætta umgengni um landið. Til­lögunni er ætlað að taka á þeirri byggðaröskun sem átt hefur sér stað undanfarin ár og kemur m.a. fram í henni það markmið að fólksfjölgun á landsbyggðinni verði ekki undir lands­meðaltali og nemi a.m.k. 10% til ársins 2010. Verði því markmiði náð með því að styðja við bakið á atvinnustarfsemi og menningu á landsbyggðinni, auk þess sem lífskjör verði jöfnuð milli landshluta, m.a. með lækkun á kostnaði við hitun íbúðarhúsnæðis og bættum samgöng­um. Þá verði menntun á landsbyggðinni stórefld og sérstakt átak verði gert í umhverfismál­um.
    Nefndin fór ítarlega yfir þær fjölmörgu umsagnir sem bárust um málið og tók til skoðunar tillögur um breytingar sem þar koma fram. Fjallaði nefndin sérstaklega um þær hugmyndir sem fram komu um skattaívilnanir til íbúa á landsbyggðinni og tók til skoðunar skiptingu sjómannaafsláttar eftir landshlutum. Þá aflaði nefndin sér upplýsinga um vöruverð og kostnað við húshitun á landsbyggðinni.
    Meiri hlutinn telur ljóst að það verður landsbyggðinni til verulegra hagsbóta ef vel tekst til með þær fjölþættu ráðstafanir sem tillagan felur í sér. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og markmið sem fram koma í tillögunni og mælir með því að hún verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 23. febr. 1999.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Jón Kristjánsson.



Árni R. Árnason.


Hjálmar Jónsson.


Kristján Pálsson.