Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 911  —  350. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, með síðari breyt­ingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Þorstein A. Jónsson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Fangelsismálastofnun ríkisins, Vernd, ríkislögreglustjóra, Fanga­varðafélagi Íslands, lögreglustjóraembættinu í Reykjavík og Dómarafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að forstjóri Fangelsismálastofnunar skipi fangaverði og að lögfest verði heimild til að ljúka afplánun refsingar utan fangelsis. Þá er lagt til að heimilt verði að fullnusta vararefsingu með samfélagsþjónustu. Er sú breyting lögð til þar sem óeðlilegt þykir að maður sem hlotið hefur óskilorðsbundinn dóm geti fullnustað refsingu sína utan fangelsa meðan sektarrefsing, sem er mildari refsing, leiðir til afplánunar vararefsinga í fangelsi ef sekt fæst ekki greidd.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali:
     1.      Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein þar sem fram komi að Fangelsismálastofnun ríkisins geti ákveðið að klefar séu ólæstir í tilteknum fangelsum eða fangelsisdeildum eða í öðrum tilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með. Við meðferð málsins í nefnd­inni kom fram ósk stofnunarinnar um þessa breytingu. Kom m.a. fram að á Kvíabryggju hefur herbergjum ekki verið læst að kvöldi heldur einungis húsinu. Hefur það þótt gefast vel.
     2.      Þá er lagt er til að gildistöku þess ákvæðis laganna er fjallar um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu verði frestað til 1. janúar 2000. Verði Fangelsismálastofnun með því gefinn betri tími til að undirbúa umrædda breytingu sem er veigamikil.

Alþingi, 24. febr. 1999.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Jón Kristjánsson.



Hjálmar Jónsson.


Kristján Pálsson.


Árni R. Árnason.



Ögmundur Jónasson.


Kristín Halldórsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.