Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 989  —  199. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlitsstarfemi á vegum hins opinbera.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Orra Hauksson og Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti og Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfs­manna ríkis og bæja, Fiskistofu, Flugmálastjórn, Hollustuvernd ríkisins, Kvikmyndaskoðun, landlæknisembættinu, Lyfjaeftirliti ríkisins, Löggildingarstofu, Póst- og fjarskiptastofnun, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Siglingastofnun Íslands, Umferðarráði, Versl­unarráði Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, Vinnuveitendasambandi Íslands og yfirdýralækni.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að skapa traustan grundvöll fyrir samhæfingu opinbers eftirlits og tryggja vönduð vinnubrögð við undirbúning og setningu eftirlitsreglna, sem og við endurskoðun þeirra. Eftirliti á vegum hins opinbera eru sett ákveðin markmið og laga­rammi.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt um fyrirsögn frumvarpsins. Nefndin telur eðlilegra og meira lýsandi að tala um opinberar eftirlitsreglur í stað eftirlitsstarfsemi á vegum hins opin­bera og leggur til að fyrirsögn frumvarpsins verði breytt í þá veru. Með því móti er betur lýst meginefni frumvarpsins sem er sjálfar eftirlitsreglurnar. Á sömu forsendum er orðanotkun í frumvarpinu breytt þannig að talað er um opinbert eftirlit í stað eftirlitsstarfsemi. Hugtakið „opinbert eftirlit“ á bæði við um setningu þeirra opinberu reglna sem efni frumvarpsins tekur til og framkvæmd þeirra. Nauðsynlegt er að fram komi að í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um nefnd sem hefur víðtækara hlutverk en að huga að eftirlitsreglunum einum. Nefndin þarf að annast heildarmat á eftirliti á vegum hins opinbera, gera tillögur um samhæfingu og hag­kvæmni í eftirliti á vegum hins opinbera og móta aðferðir við mat á eftirlitinu, eins og nánar er rætt um í köflunum Nýskipan eftirlitsstarfsemi hér á landi og Stefna um eftirlitsstarfsemi hins opinbera í fylgiskjali III með frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Til viðbótar við breytta hugtakanotkun og breytt heiti frumvarpsins, sbr. framangreint, eru breytingarnar eftirfarandi:
     1.      Til að einfalda orðalag og koma í veg fyrir tvítekningu er lögð til orðalagsbreyting í 1. mgr. 1. gr.
     2.      Lagt er til að síðari hluti 2. gr., sem fjallar um skilyrði fyrir því að hið opinbera standi fyrir eftirliti, falli brott. Í staðinn komi almenn grundvallarákvæði um að lögin leiði ekki til mismununar og takmarki ekki athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist.
     3.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á 3. gr. Í 1. mgr. er í fyrsta lagi lagt til að það verði viðkomandi stjórnvald en ekki ráðuneyti sem metur þörf fyrir eftirlitsreglur, enda er ekki alltaf um það að ræða að ráðherra setji reglurnar heldur er það vald í sumum tilfellum framselt öðrum stjórnvöldum. Í öðru lagi er lagt til að í stað þess að meta hvort gildi eftirlitsreglna er mikilvægara en kostnaður þjóðfélagsins verði einungis metið hvert gildi eftirlits sé og hver kostnaðurinn. Í þriðja lagi er lagt til að notað verði orðalagið alþjóðlegar skuldbindingar í stað erlendar skuldbindingar þar sem hér er einungis átt við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Í fjórða lagi er lagt til að við upptaln­ingu á matsaðferðum á reglusetningu verði bætt mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum. Í fimmta lagi er lagt til, sbr. breytingar á 2. mgr., að liggja skuli fyrir greinargerðir um mat skv. 1. mgr. 3. gr. þegar stjórnvöld setja eftirlitsreglur, rétt eins og skylt er að gera þegar stjórnarfrumvarp er kynnt ríkisstjórn. Í sjötta lagi er lagt til að í 3. mgr. verði felld brott upptalning á því við hvað mat á eftirlitsreglum getur m.a. miðast.
     4.      Lagt er til að í 1. mgr. 5. gr. verði einungis kveðið á um skyldur forsætisráðherra samkvæmt lögunum en ekki að hann hafi eftirlit með framkvæmd þeirra.
     5.      Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um hagsmunatengsl nefndarmanna í 1. mgr. 6. gr en forsætisráðherra á hverjum tíma verði þess í stað gert að skipa nefndina án slíkra kvaða. Einnig er lagt til að skipunartími nefndarmanna verði þrjú ár og skipunartími hennar þar með óháður setu forsætisráðherra í embætti. Í 2. mgr. er lagt til að við ákvæði um að ráðherrar geti sent mál er varða eftirlit til nefndarinnar verði bætt að nefndin geti átt frumkvæði að athugunum á vissum þáttum opinbers eftirlits. Með þessu er reynt að tryggja að nefndin geti starfað sjálfstætt og markvisst að eftirlitsmálum án atbeina ráðherra. Þá er lagt til að fremst í 3. mgr. komi nánari útlistun á starfi nefndar­innar. Starfið miði að því að opinbert eftirlit sé í samræmi við 3. gr. og einnig eins hag­kvæmt og kostur er fyrir fyrirtæki, einstaklinga og hið opinbera.
     6.      Lagt er til að í ákvæði til bráðabirgða verði ráðuneytum gert að gera áætlun um endurskoðun gildandi eftirlitslaga og -reglna í stað þess að það sé ófrávíkjanleg regla að þessi endurskoðun fari fram á næstu þremur árum eins og stendur nú í frumvarpinu.

Alþingi, 22. febr. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.


Steingrímur J. Sigfússon.




Valgerður Sverrisdóttir.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Sigríður Jóhannesdóttir.



Árni R. Árnason.


Einar Oddur Kristjánsson.


Pétur H. Blöndal.