Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 992  —  260. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Helga Jóhannesson frá samgönguráðuneyti, Magnús Waage frá Landssíma Íslands og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Tilgangur frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um tilkynningar­skyldu íslenskra skipa vegna sjálfvirks tilkynningarkerfis sem ætlunin er að taka í notkun innan skamms.
    Samgöngunefnd áréttar mikilvægi þess að sem flest skip og bátar falli undir sjálfvirka til­kynningarkerfið. Ákvæði d-liðar 1. gr. frumvarpsins undanþiggja skip sem stunda takmark­aða sjósókn eða hafa aðeins sumarhaffæri sjálfvirka tilkynningarkerfinu en undanþágan byggist á samkomulagi sem gert var við samgönguráðuneytið 5. mars 1998. Samgöngunefnd telur ekki rétt að ganga gegn því samkomulagi en telur nauðsynlegt að til álita komi að öll skip sem búin eru talstöð falli undir sjálfvirka tilkynningarkerfið. Nefndin leggur því til að undanþágan verði endurskoðuð innan tveggja ára og þá metið í ljósi reynslunnar hvort sjálf­virk tilkynningarskylda verði látin ná til fleiri skipa en frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Stefán Guðmundsson, Árni Johnsen og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við af­greiðslu málsins. Magnús Stefánsson og Kristján Pálsson skrifa undir með fyrirvara.
    Samgöngunefnd mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lagt til að við 1. gr. verði bætt nýjum efnislið sem skyldar farþegaskip til að tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti. Þar sem flest farþegaskip eru yfir 24 metrar að lengd féllu þau undir a-lið 1. gr. frumvarpsins og var því aðeins skylt að tilkynna sig á tólf klukkustunda fresti. Samgöngunefnd telur nauðsynlegt af öryggisástæðum að sama regla gildi um farþegaskip og skip sem eru styttri en 24 metrar en þeim ber að tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.
     2.      Í öðru lagi er lagt til að ákvæði d-liðar 1. gr. frumvarpsins (sem verði e-liður) um undanþágu frá sjálfvirkri tilkynningarskyldu verði endurskoðað fyrir árslok 2000.
     3.      Loks er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Alþingi, 3. mars 1999.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Egill Jónsson.



Ragnar Arnalds.


Magnús Stefánsson.


með fyrirvara.

Kristján Pálsson,


með fyrirvara.