Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 996  —  388. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um brunatryggingar, nr. 48/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


                             
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Má Ragnarsson og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra trygginga­félaga. Umsagnir bárust um málið frá Bændasamtökum Íslands, Fasteignamati ríkisins, Fjár­málaeftirlitinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sam­bandi íslenskra viðskiptabanka og Verslunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um brunatryggingar, m.a. að hugtakið húseign verði skilgreint, að Fasteignamat ríkisins sjái eitt um hvort tveggja fasteignamat og brunabótamat og að heimilt verði að lækka brunabótamat frá því sem það ella hefði orðið ef húseign er í mjög lélegu ástandi og er ekki í notkun. Nefndin ræddi sér­staklega síðastgreinda atriðið og telur að ákvæði frumvarpsins í 7. efnismgr. 2. gr. séu of fortakslaus miðað við orð greinargerðar um markmið breytingarinnar og leggur til breytingu á þessu ákvæði þannig að nægilegt sé að húsið sé í lélegu ástandi og lítt í notkun til að heim­ilt verði að lækka brunabótamat þess. Jafnframt leggur nefndin til fjórar lagfæringar á frum­varpinu: Í stað orðsins „vátryggja“ í 1. og 2. efnismgr. 1. gr. komi: brunatryggja; orðið „þeirrar“ falli brott úr 1. efnismgr. 2. gr.; og tilvísun í 6. efnismgr. 2. gr. til 6. gr. verði til 5. gr.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er brunabótamat grundvöllur að fjár­hæð ýmiss konar iðgjalda, gjalda og skatta sem eru reiknuð sem hlutfall af vátryggingar­fjárhæðum sem taka mið af brunabótamati. Sem dæmi um þessi gjöld eru brunavarnagjald, umsýslugjald, iðgjald til viðlagatryggingar og gjald til Ofanflóðasjóðs. Nefndin ræddi þetta mál og beinir því til fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra að skoðað verði hvort rétt sé að hverfa frá því að nota brunabótamat sem grundvöll þessara gjalda og taka þess í stað upp fasteignamat sem viðmið. Slíkt gæti í mörgum tilfellum leitt til réttlátari skattheimtu.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Valgerður Sverrisdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu máls­ins.

Alþingi, 4. mars. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Ágúst Einarsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar Oddur Kristjánsson.


Árni R. Árnason.


Pétur H. Blöndal.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.