Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 998  —  324. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Lífeyrissjóð sjómanna.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson og Áslaugu Guðjónsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Árna Guðmundsson frá Lífeyrissjóði sjómanna, Guð­jón A. Kristjánsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal og Friðrik Á. Hermannsson frá Vélstjórafélagi Íslands og Þórarin V. Þórarinsson frá Vinnuveit­endasambandi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Lífeyrissjóði sjómanna, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Seðlabanka Íslands, Sjómanna­sambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heildarlög um starfsemi Lífeyrissjóðs sjó­manna. Er þeim að meginefni ætlað að laga starfsemi sjóðsins að ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Einnig er breytingin á lögum um lífeyrisréttindi sjómanna nauðsynleg vegna stöðu sjóðs­ins en töluvert vantar upp á að sjóðurinn eigi eignir fyrir heildarskuldbindingum sínum. Slík breyting til skerðingar á réttindum verður ekki gerð nema með skýrri lagaheimild, sbr. dóm Hæstaréttar frá 28. maí 1998 í málinu 368/1997.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á 2. gr. frumvarpsins sem ætlað er að tryggja betur rétt skipverja sem starfa á erlendum skipum í rekstri íslenskra aðila þannig að þeir teljist sjóðfélagar í Lífeyrissjóði sjómanna. Jafnframt er haldið inni þeirri heimild að öðrum íslenskum sjómönnum sem starfa á skipum erlendra aðila sé heimilt að greiða iðgjöld til sjóðsins. Breyting sem lögð er til á 3. mgr. 9. gr. er af sama meiði.
     2.      Lagt er til að tilnefningarvald Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda færist til Landssambands íslenskra útvegsmanna, með vísan til athugasemda í umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.
     3.      Lagðar eru til tvær breytingar á 5. gr., annars vegar að skýrt sé tekið fram frá hvaða degi og til hvaða dags reikna skuli dráttarvexti af vanskilum og hins vegar er efnis­ákvæði 2. málsl. 7. gr. flutt í nýja 3. mgr. 5. gr. þar sem sú framsetning er að mati meiri hlutans skýrari. Jafnframt er lagt til að 1. mgr. 7. gr. falli brott en í 1. málsl. málsgrein­arinnar var tvítekning á efni 2. mgr. 5. gr.
     4.      Lagt er til, sbr. breytingar á 8. gr., að öll greidd iðgjöld reiknist að fullu við töku ellilífeyris, óháð fjölda greiddra ára til sjóðsins. Þetta þýðir aukningu á réttindum sjóðfélaga en hún er í samræmi við reglur almennu laganna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Líta verður svo á að samkvæmt þeim lögum verði áunninn réttur ekki skertur með reglu sem þessari.
     5.      Lagðar eru til breytingar á margföldunarstuðlum í 2. mgr. 9. gr. og 5. mgr. 11. gr. sem leiða til þess að dregið er úr skerðingu á réttindum sjóðfélaga frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir, úr 13,4% í 12%.
     6.      Lagfært er orðalag og tilvísun í 3. mgr. 10. gr. og 5. mgr. 11. gr.
     7.      Þá er lagt til að lögin öðlist gildi þegar í stað.
     8.      Að lokum er lagt til að við lögin verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða um að sérlög um Lífeyrissjóð sjómanna falli úr gildi 31. desember 2001 og eftir það tímamark falli starfsemi sjóðsins undir ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra láti semja skýrslu á árinu 2001 um framkvæmd þeirra laga og þykir eðlilegt að sérlög gildi um Líf­eyrissjóð sjómanna þar til sú skýrsla liggur fyrir og búið er að fá einhverja reynslu á al­mennu lögin.
    Gunnlaugur M. Sigmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. febr. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.
Valgerður Sverrisdóttir.
Sólveig Pétursdóttir.