Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1092  —  484. mál.




Nefndarálit



um frv. til. l. um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson frá land­búnaðarráðuneyti, Jón Erling Jónasson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Jón Loftsson, skógræktarstjóra ríkisins, Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins, Huldu Valtýsdóttur og Brynjólf Jónsson frá Skógræktarfélagi Íslands, Kjartan Ólafsson og Bjarna Guðmundsson frá Bændasamtökum Íslands, Eddu V. Björnsdóttur frá Landssamtökum skógareigenda og Jón Kr. Arnarson frá Barra-Fossvogsstöð hf. Þá komu á fund nefndarinnar Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Árni Bragason frá Náttúruvernd ríkisins.
    Umsagnir bárust frá búnaðarþingi, Skjólskógum, Landgræðslu ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Suðurlandsskógum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Barra-Fossvogsstöð hf., Nátt­úrufræðistofnun Íslands, skógræktarráðunauti Skógræktar ríkisins á Vesturlandi, Landssam­tökum skógareigenda og Héraðsskógum.
    Frumvarpið er í meginatriðum byggt á lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, og er í því lagt til að landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til að stofna til landshlutabundinna skógræktarverkefna í líkingu við Suðurlandsskóga. Verði ráðherra veitt heimild til að stofna til verkefna án þess að sérstaka lagasetningu þurfi í hverju tilviki. Er stefnt að því að þegar reynsla verður komin á framkvæmd laga samkvæmt frumvarpinu, sem og lögum um Suður­landsskóga og Héraðsskóga, fari fram endurskoðun á þeim með það að markmiði að um landshlutaverkefni gildi einn lagabálkur í stað þriggja.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Helstu efnisbreytingar eru eftirfar­andi:
     1.      Lagt er til að stjórnir einstakra verkefna verði skipaðar til fjögurra ára en ekki tveggja eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þá verði einn stjórnarmaður skipaður af skóg­ræktarfélögum á viðkomandi svæði og verði stjórnarmenn því fjórir, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir verði þrír.
     2.      Bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða þar sem fram komi að fara skuli fram mat á umhverfisáhrifum landshlutaáætlunar áður en stofnað er til landshlutaverkefnis þar til fram hefur farið endurskoðun laga nr. 63/1993.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.




Prentað upp.

    Egill Jónsson og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 1999.



Guðni Ágústsson,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Magnús Stefánsson.



Hjálmar Jónsson.


Katrín Fjeldsted.


Ágúst Einarsson.



Sigríður Jóhannesdóttir.