Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:09:01 (60)

1999-06-10 12:09:01# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:09]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði þau andmæli og mótrök sem hv. þm. setur fram en vil síður að menn misskilji það sem ég hef sagt. Ég er ekki að tala um skólamál sem borgarstjórnarmál. Ég er að tala um mál sem snúa að æskulýðsstarfi, fíkniefnavörnum og ýmsum slíkum málum sem ekki eingöngu tengjast borgarstjórnarmálum.

Í mínu hverfi á ég t.d. mjög náið samstarf við Hagaskóla. Ég á mjög náið samstarf við KR-félagsskapinn og sömuleiðis þær sóknir sem eru í mínum bæjarhluta. Til mín leitar fólk sem finnst það með einhverjum hætti eiga erindi við þingmann í Vesturbænum. Ég get tekið sömu dæmi um miðbæinn, Hlíðar og þar fram eftir götunum. Það er nauðsynlegt að tengja starf þingmannsins við þau félagslegu kerfi og þá á ég ekki við borgarkerfið heldur þau þjóðfélagslegu kerfi og þann félagsskap sem myndar grundvöllinn að lýðræðislegum vinnubrögðum okkar í borginni sem annars staðar. Ef þingmaður er sviptur slíku sambandi við kjósendur sína er vinnuaðstaða hans og tengsl verulega skert.