Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 12:40:50 (67)

1999-06-10 12:40:50# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[12:40]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég játa að ég er ekki kunnugur þessum málatilbúnaði nema af afspurn. Að vísu er rétt að vera kann að hægt sé til sanns vegar að færa að ekki sé um formlega afgreiðslu að tefla, að menn geti komið við breytingartillögum og þannig sé það möguleiki í sjálfu sér að koma fram breytingum. En ég fæ ekki komið auga á þá aðferð eins og málinu er háttað. Ég sé því ekki betur en að þetta hljóti að ná fram við svo búið enda þótt ég treysti mér ekki til þess að ljá því atkvæði mitt af ástæðum sem ég mun koma að.

Ég held að það sé rétt að þessi aðferð um afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga sé röng og óheppileg. Með góðum vilja er alls ekki hægt að telja að þetta mál hafi verið kosningamál. Það skaut hvergi upp kollinum og er nauðsynlegt að eins örlagaríkt mál og stjórnarskrárbreyting hlýtur að teljast hverju sinni komi öðruvísi fyrir til ákvörðunar hjá kjósendum. Þá er spurningin: Hvernig? Ég fyrir mitt leyti get vel fallist á að sérstakar kosningar færu fram um þær breytingar. Eða, eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon tók fram, að kjörseðill yrði tvöfaldur þar sem menn tækju beinlínis afstöðu til breytingarinnar við almennu þingkosningarnar.

Hér kom fram að samstaða hefði náðst um þetta mál milli allra flokka. Án þess að ég vilji vitna bókstaflega til Ólafs Pá þá hygg ég samt að hér sannist einu sinni enn að þeim mun verr reynist ráðin sem þau koma fleiri saman. (KHG: Heimskra manna?) Þetta voru ekki mín orð. Ég tók fram að ég vitnaði ekki bókstaflega til þessa fræga manns. En það var fram tekið að menn hefðu seilst langt til samkomulags, gefið eftir í skoðunum sínum og afstöðu til þess að ná þessu saman. Og auðvitað næst ekkert samkomulag í svo viðamiklu máli nema menn gangi til þess og þá með þeim hætti að víkja frá ströngustu kröfum sínum.

Meginmarkmið þessara breytinga er jöfnun atkvæðisréttar, en með staðfestingu frv. er enn á ný verið að staðfesta mismun kosningarréttarins.

[12:45]

Ég man langt aftur í tímann til þeirra breytinga og þeirra umræðna sem orðið hafa í þessu efni. Á árinu 1959 var ég mikill fylgismaður einmenningskjördæma. Niðurstaðan var önnur eins og kunnugt er og við höfum búið síðan við þá kjördæmaskipan sem nú gildir, að vísu með breyttu kosningafyrirkomulagi. Eftir að ákvörðun var tekin um hlutfallskosningar, sem var gert 1959, hef ég færst æ nær þeirri skoðun að það eigi að gera landið að einu kjördæmi.

Það kom fram og var á það minnst að erfitt væri að búa við það kosningafyrirkomulag sem við gerum nú og nefnt við talningu hvernig þetta væri eins og rússnesk rúlletta eins og einnig hefur komið fram í blöðum. Þegar verið var að setja þetta kosningafyrirkomulag af fullyrti ég að flestir þingmenn skildu hvorki upp né niður í því. Ég gafst alveg upp við það. Þúsund sinnum voru gerðir útreikningar í þingflokki Sjálfstfl. af færasta stærðfræðingi. Það var t.d. athyglisvert að í þeim þúsund útreikningum var 2. þm. Austurl. aldrei inni og menn voru farnir að hafa það í flimtingum að þetta væri sett saman til þess að halda honum úti. En í kosningunum, í 1.001 skipti, var hann inni og af því geta menn markað hvaða tilviljanir ráða þegar til kastanna kemur og er algerlega óviðunandi.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að gera eigi landið að einu kjördæmi og hætta að hafa fyrirkomulag þannig beinlínis að hafa þennan mismun atkvæðisréttarins. Það er algerlega ólíðandi í nútímalýðræðisríki. Skyldi það ekki vera svo að eðlilegast og árangursríkast væri að allir þingmenn bæru ábyrgð á velferð alls þjóðríkisins. Ég er ekki viss um nema það hefði komið sér vel að allir þingmenn hefðu borið ábyrgð á velferð hagsmunamála Vestfjarða undanfarin ár. Það hefði komið sér betur eins og mál hafa skipast þar. Ég er þeirrar skoðunar að kjósa eigi helming þingmanna hlutfallskosningu á röðuðum lista en hinn helminginn á óröðuðum lista þar sem menn kæmu við persónukosningu og leggja með öllu af skrípaleikinn sem prófkjörin eru orðin, afskræming lýðræðisins sem við sjáum í framkvæmd.

Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum sérstaklega að taka til meðferðar skipti löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, samskipti þeirra og einnig í leiðinni af nýfenginni reynslu af meðferð löggjafarvaldsins fyrir frumkvæði framkvæmdarvaldsins á niðurstöðum dómstóla eins og við höfum frá því að kveðinn var upp hæstaréttardómur í fiskveiðimálum í byrjun desember og framhaldið af því.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þegar þingmenn gerast ráðherrar eigi að kalla inn varaþingmenn þeirra. Eins og komið hefur fram er nú tæpur fimmtungur þingmanna sem situr í ráðherrastólunum. Bæði eru störfin orðin viðamikil og ráðherrar starfa ærið og eins mundi það að sínu leyti treysta og efla þingræðið í samvinnu og samskiptum sínum við framkvæmdarvaldið.

Ég hef fregnað að þessu frv. mundi fylgja útfærsla á kosningalögum en svo er ekki og hef ég þá ekkert sérstakt við það að athuga nema að vinda þarf bráðan bug að því. Ég skal ekkert dæma um þessar breytingar. Ég er andvígur þeim og án þess þó að ég hafi uppi orð um fáránleika þess tel ég þær ekki ná neinum tilgangi eins og Siglufjarðardæmið sýnir t.d., sem neyddi virðulegan forseta, sem fjarstaddur er, til þess að skunda til Siglufjarðar með jarðborinn sinn á lofti í upphafi kosningahríðar. Ég mun ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt en ég mun heldur ekki greiða atkvæði gegn því af því sem ég álít að þetta sé búið og gert og það þjóni engum tilgangi að hafa uppi brtt. við frv. eins og sakir standa.