1999-06-10 16:10:46# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal ég rekja garnir úr hæstv. fjmrh. um ástand blálöngustofnsins. Hitt verð ég að segja að það stappar nærri kæruleysi af hæstv. ráðherra, vitandi það að hann er starfandi sjútvrh., að koma til þessarar umræðu algjörlega óundirbúinn og hafa ekki einu sinni velt því fyrir sér hvers vegna menn hafa ekki athugað það að bæta þeim útgerðarflokkum, sem bera kostnaðinn af þessu, tapið. Hann mátti vita það, hæstv. ráðherrann, að þetta hlyti að koma til umræðu hér.

Hæstv. ráðherra getur heldur ekki skotið sér undan því að hann viti ekkert um hitt og þetta vegna þess að ráðherrann sem hafi tekið ákvarðanirnar sé ekki lengur með honum. Ef minni mitt bregst ekki þá sat hæstv. fjmrh. og starfandi sjútvrh. í ríkisstjórn með þessum sama ráðherra sem nú er horfinn í brautu og hefur undirritað þetta.

En ég spyr hæstv. fjmrh.: Er ekki mögulegt að leiðrétta megi þetta þótt búið sé að gefa út þessa reglugerð um varanlegan kvóta þegar horft er til þess að hún er gefin út 10. maí. Hún er gefin út á grundvelli samnings sem ekki var þá til. Má þá ekki ógilda og ónýta þá reglugerð og taka þetta mál upp aftur, beita frumherjakvótanum, og í framhaldinu velta því fyrir sér með hvaða hætti megi útfæra reglugerðina með hliðsjón af gildandi lögum um úthafsveiðar þannig að það komi með einhverjum hætti til þetta endurgjald þeirra sem fá úthlutaðan Smugukvótann og það verði nýtt til þess að bæta útgerðarflokkum kostnaðinn sem hlýst af þessum samningi? Er það ekki mögulegt, herra forseti, og að hæstv. fjmrh. velti því einnig fyrir sér.

Í annan stað má vera að hæstv. ráðherra hafi misskilið spurningu mína. Ég spurði: Hyggst hann beita sér fyrir því að þetta verði gert? Vegna þess að hæstv. ráðherra er starfandi yfirmaður sjávarútvegsmála og því er það á hans könnu að upplýsa þingið um hvort hann muni beita sér fyrir því að jafnvel þó að ekki sé hægt að taka upp þessa reglugerð verði þessum útgerðarflokkum bættur skaðinn. Ég held að það hljóti að vera hann en ekki einhver annar sem ég get varpað spurningum mínum til.

Stjórnarandstaðan féllst á að halda þessari umræðu áfram í dag þrátt fyrir að hæstv. sjútvrh. væri staddur í Álasundi, vegna þess að hér er starfandi ráðherra, í krafti þess og trausti að viðkomandi mundi þá a.m.k. gera tilraun til þess að svara okkur.