1999-06-10 16:17:06# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Nú rekur að því að nauðsynlegt verður fyrir Frjálslynda flokkinn að upplýsa þingheim um það hvor þeirra er í hlutverki Katós gamla, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson eða Sverrir Hermannsson.

Ég átti hins vegar von á því að hv. þm. mundi gera þetta sérstaklega að umræðuefni hér. Ég veit að hann vill leggja kerfið í eyði eins og Kató gamli Karþagóborg hina fornu en hér er sérstakt tilefni. Ef það verður einhvern tíma brask, eins og hv. þm. kallar það, með veiðiheimildir þá er það í þessu tilviki. Hvers vegna? Vegna þess að hér er um 90 útgerðir að ræða sem fá úthlutað tæpum 9 þús. tonnum. Meðaltalið er um 100 tonn. Þeir sem fá mest eru kannski kringum 200, skilst mér, eða losa 200 tonn. Það þýðir að engin útgerð mun reka veiðar í krafti þessara kvóta nema með því að kaupa til sín kvóta úr Smugunni.

Það þýðir að gríðarlegt brask mun upphefjast með þessar heimildir. Þetta þýðir í reynd, herra forseti, að 90 útgerðir munu fá inn um lúguna hjá sér umslög og í þeim verða tékkar upp á 40--60 millj. Ef hv. þm. heldur að brask sé í gangi í íslenska fiskveiðikerfinu í dag, þá skal hann bíða þangað til það byrjar með þennan kvóta. Það verður braskveisla.

Þess vegna hef ég talið, herra forseti, að það hefði gefið hv. þm. tilefni til þess að tjá sig um þetta en ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að veita ríflegan frumherjakvóta og helst meira en þau 5% sem þarna er heimild til samkvæmt lögunum um úthafsveiðar og það hefði átt að vera endurgjaldslaust. Hins vegar hefði átt að veita hitt með einhvers konar leigu ef það er tæknilega og lagalega klárt sem ég þori ekki að fullyrða um á þessari stundu. Þannig hefði ég viljað hafa það og hvað segir hv. þm. um það?

Nú veit ég að hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur sagt skýrt og skorinort að hann vill gjald fyrir veiðiheimildir. Hvað þá í þessu tilviki? Er það ekki örugglega stefna Frjálslynda flokksins?