1999-06-15 16:49:42# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:49]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta utanrmn. en hann skipa ég og er nál. dreift á þskj. 14.

Eins og fram kemur í nál. erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að jákvætt sé að setja niður þær deilur sem uppi hafa verið milli Íslendinga annars vegar og einkum Norðmanna og Rússa hins vegar um þorskveiðar í Barentshafi en það er meginefni þessa samnings sem hér er til umfjöllunar.

Það er enn fremur líklegt að samkomulag í hinni svonefndu Smugudeilu greiði götu samstarfs og samskipta þessara fyrrum deiluaðila og eru menn þá einkum með samskipti Íslands og Rússlands í huga því að vonir hafa verið bundnar við að þar gætu legið ýmsir samstarfsmöguleikar sem ekki hafi náð að nýtast okkur að öllu leyti a.m.k. vegna deilna sem uppi hafa verið. Það verður þó að hafa í huga að ýmislegt annað kemur þar til. Ástandið í Rússlandi hefur verið með þeim hætti, einkum efnahagsástand og að nokkru leyti einnig lagalegt umhverfi og starfsumhverfi erlends atvinnurekstrar, að ekki er svo sem á vísan að róa með það hvað orðið hefði úr samstarfi íslenskra og rússneskra fyrirtækja þó að þessar deilur hefðu ekki verið. En í öllu falli ætti það að vera betra en ekki að þær séu úr sögunni.

Þá er líka í aðalatriðum, herra forseti, upp talið það sem jákvætt er fyrir utan það að jákvætt er svo langt sem það nær að við öðlumst nokkurn veiðirétt í Barentshafi. Það má segja að réttur okkar sem er ótvíræður til veiða á alþjóðlegu hafsvæði samkvæmt gildandi þjóðarrétti, samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og úthafsveiðiviðaukanum við þann samning sé að nokkru leyti viðurkenndur í þessum samningi en þó á þann hátt að sá hlutur sem til okkar kemur er færður inn fyrir efnahagslögsögu Rússlands og Noregs. En á það verður svo að líta á hinn bóginn að það sem í hlut Íslands kemur er til mikilla muna rýrara en menn höfðu bundið vonir við.

Ef við lítum t.d. á það í samhengi við veiðina eins og hún var þegar best lét, þá er þar um að ræða brúttóveiðirétt miðað við núverandi úthlutaðan kvóta í þorskveiðum í Barentshafi upp á 8.900 tonn en frá því verður auðvitað að draga, þegar reiknaðar eru út nettóveiðiheimildir okkar, það endurgjald sem bókanir samningsaðila kveða á um og þá minnkar það magn til mikilla muna. Það má deila um hvernig eigi að verðleggja það hvað eftir standi, t.d. af hinum norska hluta veiðiheimildanna, 4.400 tonnum rúmum sem eru innan norsku efnahagslögsögunnar, en það má jafnvel gera því skóna að endurgjaldið valdi því að einungis 50--55% af þeim veiðihluta sé nettó eða án sérstaks endurgjalds af okkar hálfu.

Í tilviki bókunar við Rússland dregst frá sá hluti veiðiheimildanna sem Íslendingar eiga að kaupa eða greiða sérstaklega fyrir, þ.e. þeim 1.669 tonnum sem dragast þá frá 4.450 lestum sem að nafninu til var samið um að Ísland ætti veiðirétt á í rússnesku sérefnahagslögsögunni. Þegar þetta er haft í huga, herra forseti, eru náttúrlega nettó eða hreinar veiðiheimildir sem við Íslendingar höfum upp úr krafsinu orðnar ansi rýrar borið saman við veiði upp á 32--34 þúsund tonn þegar best lét eða meðaltalsveiði upp á 17 þúsund tonn þau sex ár sem þarna eiga í hlut frá 1993--1998.

Endurgjaldið til Noregs er í formi 17 þúsund lesta af loðnu sem Norðmenn hafa sömu heimildir til að taka bæði í tíma og afmörkun eins og hlutdeild sína í loðnustofninum nú, þ.e. allt fram til 15. febrúar á hverju ári og suður að 64° ef ég man rétt. Síðan eru það 500 tonn af keilu, löngu og blálöngu og 25% meðafli, að vísu með nokkrum frávikum, með þeim veiðum. Meðaflinn er takmarkaður sérstaklega í nokkrum tegundum, þ.e. í lúðu, grálúðu og karfa en ekki að öðru leyti og það þýðir t.d. að meðafli í þorski getur verið 25% þannig að í reynd er að bætast við talsvert á annað hundrað tonn af þorski við þær veiðiheimildir sem Norðmenn eru að fá þarna. Hins vegar er meðafli Íslendinga að sama skapi í verðminni tegundum af því að þar er grundvallarkvótinn í þorski.

Þar fylgir einnig sá böggull skammrifi að norsk línuveiðiskip koma þá aftur til veiða inn í íslensku efnahagslögsöguna eða landhelgina. Að þessu leyti til má segja að samskiptin við Rússana eða bókunin við Rússa sé hagstæðari en sú við Noreg því að þar er ekki um að ræða veiðar Rússa hér við land og ekki einu sinni kaup þeirra á veiði hér, eins og þeir hafa þó iðulega sóst eftir á undanförnum árum að fá að kaupa hér síld eða loðnu við borðstokk. Niðurstaðan er því sú að að greiða á fyrir í peningum hluta af veiðiheimildunum sem að nafninu til er samið um við Rússa.

Þegar eftir því er gengið hins vegar hvernig haga eigi þeim viðskiptum hefur orðið fátt um svör og satt best að segja held ég að enn megi segja að veruleg óvissa ríki um það hvernig eigi að haga þeirri framkvæmd. Á sameiginlegum fundi utanrmn. og sjútvn. í morgun kom í ljós að útgerðarmenn telja sig hafa fengið þau svör frá ráðuneytinu að ráðuneyti eða stjórnvöld muni ekki hafa neina milligöngu um þessi viðskipti. Það verði því alfarið málefni útgerðanna sjálfra að koma því í kring að kaupa þennan veiðirétt og eru það nýjar upplýsingar. Hæstv. utanrrh. gerði því skóna, ef mig misminnir ekki, í framsögu fyrir málinu að til greina gæti komið að þessi kaupréttur yrði hlutfallslegur miðað við veiðireynslu skipanna eða þær veiðiheimildir sem útgerðirnar fengju. Aðrir hafa haldið því fram að sá kaupréttur yrði að vera með einhverjum hætti jafn gagnvart veiðiskipum í flotanum. Eitt sjónarmið er það að þetta gæti þess vegna farið til hæstbjóðanda, jafnvel þó að það yrði aðeins einn aðili, og verður að segjast eins og er að það er harla óljóst hvernig tilhögun þessara viðskipta, verð og annað verður. Einhverjir töldu sig hafa haft af því spurnir að endurgjaldið mundi verða um 14 kr. á hvert kg en síðan hafa heyrst tölur allt upp í 60--70 kr. á kg og hljóta þá að vakna efasemdir um hvort yfir höfuð verði af slíkum viðskiptum og einhver sjái sér hag í því að reyna að kaupa veiðiheimildir í rússnesku lögsögunni á svo háu verði.

Þá er það þannig, herra forseti, að ýmislegt er ófrágengið hvað varðar útfærslu og framkvæmd samningsins hér heima fyrir og annað orkar mjög tvímælis sem gert hefur verið og á ég þar ekki síst við útgáfu reglugerðar sjútvrn. strax 10. maí sl. eða fimm dögum áður en samningurinn var undirritaður og ber nú vel í veiði, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. er hér loksins viðstaddur umræðuna en hann átti þess ekki kost að vera við 1. umr. málsins og starfandi sjútvrh. var því fyrir svörum og gat eðli málsins samkvæmt ekki alltaf veitt mikil svör. Ég fagna því sérstaklega því tækifæri að hafa hæstv. sjútvrh. hérna til að spyrja hann nokkurra spurninga í þessu sambandi.

Sú fyrsta sem vaknar er hvert álit hæstv. sjútvrh. er á því að rokið var til og gefin út reglugerð af forvera hans tveim dögum eftir kosningar og fimm dögum áður en samningurinn var undirritaður. Þótti hæstv. sjútvrh. þægilegt að koma þannig að málinu að búið væri að ganga frá þessu af fráfarandi ráðherra? Í öðru lagi: Hefur ráðuneytið kannað hver staða þess er gagnvart því að breyta reglugerðinni? Hefur þessi snemmbæra útgáfa reglugerðarinnar 10. maí sl. einhver réttaráhrif? Er ástæða til að hafa áhyggjur af því ef ráðuneytið vildi breyta áður útgefinni reglugerð að það gæti skapað einhver vandkvæði?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga um innihald þeirrar reglugerðar, þ.e. annars vegar: Hver er afstaða núv. hæstv. sjútvrh. til þess að ekki er gert ráð fyrir því í reglugerð sjútvrn. frá 10. maí að um endurgjald í stað varanlegs veiðiréttar í Barentshafi verði að ræða með sambærilegum hætti og varð niðurstaðan bæði á Reykjaneshrygg og á Flæmingjagrunni þar sem í öðru tilvikinu var um að ræða 8% endurgjald, ef ég man rétt, og í hinu tilvikinu 4 eða 4,5%? Í 6. gr. úthafsveiðilaganna, þeirrar greinar sem fjallar um veiðar á úthafsstofnum, er heimild til að reikna slíkt endurgjald upp að allt að 7%, þ.e. 7% í sambærilegum veiðiheimildum eða veiðiheimildum í sömu tegund eða ígildi þess í einhverjum öðrum veiðiheimildum umreiknað í þorskígildi væntanlega.

[17:00]

Á það hefur sérstaklega verið bent í þessu sambandi að allur þessi veiðiréttur er nú til kominn vegna veiðireynslu okkar í Barentshafi og að hluti af honum er fenginn með endurgjaldi á veiðirétti í íslensku sérefnahagslögsögunni, þ.e. þessum 17 þús. tonnum af loðnu, 500 tonnum af löngu, keilu og blálöngu og meðafla í þorski og öðrum tegundum. Sá veiðiréttur kemur frá öðrum hlutum flotans en þeim sem nýtur úthlutunar veiðiheimildanna í Barentshafi þannig að á mannamáli sagt eru loðnuflotinn og línuútgerðin að greiða fyrir veiðiréttinn sem togskipin fá í Barentshafi. Í ljósi þessa alveg sérstaklega hlýtur því að vakna sú spurning hvort ekki væri sanngjarnt að um eitthvert endurgjald væri að ræða þó ekki væri nema til að jafna að einhverju leyti þessi skipti og líka út frá því viðhorfi sem auðvitað lá til grundvallar þessum ákvæðum í úthafsveiðilögunum, þ.e. að þegar íslenskur sjávarútvegur fengi til sín viðbótarréttindi af þessu tagi vegna samninga um nýtingu stofna á fjarlægum miðum, þá væri eðlilegt að dreifa í einhverjum mæli afrakstrinum af slíkri samningagerð um allan flotann og að það væri best gert með því að þeir sem fengju varanlega veiðiréttinn legðu í pottinn eitthvert endurgjald og því væri síðan úthlutað eins og lög gera ráð fyrir. Ég hvet hæstv. sjútvrh. til að skoða þetta með opnum huga og líta ekki svo á að hann sé bundinn af þessari reglugerð frá 10. maí sl. Henni hlýtur að mega breyta og ef rök standa til að gera það þá verði það gert.

Sama gildir síðan um hitt atriðið sem ég ætlaði sérstaklega að spyrja um og snertir innihald reglugerðarinnar og það er sú niðurstaða þar að beita ekki svonefndri frumherjareglu eða heimild til þess sem er í 6. gr. úthafsveiðilaganna jafnframt --- eða bæði í 5. og 6. gr. í viðeigandi tilvikum --- þ.e. að þeim sem hafa fyrstir farið til veiða á tilteknum miðum eða sótt í tiltekna stofna, hafa brotið ísinn, hafa lært á þær veiðar og rutt brautina fyrir aðra, sé umbunað í þeim efnum með svonefndum frumherjakvóta eða frumherjabónus. Þar eru sem sagt heimildir inni til að taka frá áður en til úthlutunar kemur allt að 5% af slíkum veiðiréttindum sem um semst og úthluta í þessu skyni og þeirri heimild var beitt og henni var beitt til fulls þegar sambærileg úthlutun fór fram í kjölfar samninga um djúpkarfann á Reykjaneshrygg. Hver er afstaða hæstv. sjútvrh. til þess að beita eða beita ekki þessari frumherjareglu í þessu tilviki og telur hæstv. sjútvrh. ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því, ef það verður ekki gert nú, að það sé slæmt fordæmi og vond skilaboð gagnvart veiðum á öðrum tegundum sem nú standa yfir eða eru í bígerð? Ég get í því sambandi nefnt þegar hafnar tilraunir Íslendinga til túnfiskveiða þar sem frumherjarnir hafa sannanlega lagt í mikinn kostnað og eru að taka heilmikla áhættu, eru að læra á veiðarnar, og það mun væntanlega síðan nýtast öðrum útgerðum.

Ég nefni veiðar á kolmunna. Sama gildir þar. Menn hafa verið að ráðast í fjárfestingar, kaupa skip, læra á veiðarnar og enginn vafi er á því að arðsemin t.d. er ekki mikil af þeim veiðum. Ég var að skoða tölur yfir aflahæsta skipið á kolmunnaveiðunum það sem af er þessu ári, Hákon ÞH, sem er búinn að ná 5 þús. tonnum og aflaverðmætum upp á 20 millj. með nánast stanslausu tveggja mánaða úthaldi. Mér segir svo hugur um að ekki sé mikill gróði af því fyrirtæki. En það sem útgerðin er væntanlega að hugsa um er að skapa sér veiðireynslu, læra á veiðarnar og e.t.v. að vera í hópi þeirra frumherja sem gætu átt von á nokkurri umbun fyrir að hafa brotið ísinn og um leið aflað íslenska þjóðarbúinu réttinda. Ég held að það séu afar slæm skilaboð að hverfa frá þessari hefð sem þarna var þó að skapast, bæði hvað varðar endurgjaldið og frumherjaregluna þegar ákvæðum laganna var beitt gagnvart Flæmska hattinum og síðan Reykjaneshryggnum. Ég endurtek það að ég hvet hæstv. sjútvrh. til að fara rækilega yfir þessi mál og vonandi fáum við á eftir einhver svör um viðhorf hans í þessum efnum.

Menn kunna að segja að þetta sé efni sem ekki varði samninginn sérstaklega og Alþingi eigi fyrst að samþykkja samninginn og svo komi að því að framkvæma hann eða útfæra hann hér heima, en það er ekki að öllu leyti svo. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því t.d. að spurningin um hvort endurgjaldsreglunni er beitt eða ekki er í beinu samhengi við þá staðreynd að við erum að hluta til að borga fyrir réttindin sem þarna átti að heita að hafi samist um með veiðiréttindum í okkar lögsögu. Þess vegna er eðlilegt að þingmenn krefjist svara um það hér og nú og áður en þeir taka afstöðu og greiða atkvæði um samninginn hvernig þessu verður fyrir komið. Verða óskyldir hlutar útgerðarinnar látnir greiða fyrir þau réttindi sem þarna eru að skapast og togskipin fá síðan til sín án nokkurs endurgjalds?

Herra forseti. Ég vil að lokum koma inn á eitt atriði enn sem tengist óneitanlega þessum samningi og var reyndar tekið hér upp af hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni og það er umhverfishliðin á þessu máli. Því er ekki að neita að þannig spurningar vakna auðvitað þegar farið er út í samningagerð af þessu tagi að Íslendingar fá veiðiheimildir í Barentshafi, eða í Hvítahafi eins og menn hefðu einhvern tíma sagt, en Norðmenn koma í staðinn alla leið hingað til veiða á móti. Er þetta að öllu leyti praktískt fyrirkomulag? Hefði e.t.v. verið gáfulegra að Íslendingar hefðu hreinlega samið um minna magn en fengið það nettó án þessara ferðalaga og viðbótarsiglinga sem þetta kallar á. Ég held að það sé sjónarmið sem eigi fullkomlega rétt á sér og erindi inn í þessa umræðu, að það er praktískara fyrirkomulag að breyttu breytanda að hver nýti sína lögsögu og nærlæg veiðimið en menn séu að sækja vatnið yfir bæjarlækinn hver hjá öðrum, ef svo má að orði komast, með því að við séum að fara norður í Hvítahaf og taka þar 2--3 þús. tonn af veiðiheimildum sem við borgum fyrir aftur í loðnu og með línuveiðum hér heima. Og svo koma Norðmenn siglandi frá Lofoten eða norðan frá Hammerfest til þess að sækja þá titti hingað úti fyrir Austfjörðum. Þetta er ekki mjög praktískt fyrirkomulag ef maður leyfir sér að velta því aðeins fyrir sér.

Hluti af þessum samningi eru vissulega óumdeilanlega ákveðnar nettóveiðiheimildir okkar í Barentshafi og auðvitað er ekki um annað að ræða en að við verðum að sækja þær og nýta. En þegar út í skiptin er komið þá er þetta kannski ekki alveg eins gáfulegt eða praktískt fyrirkomulag og frá umhverfissjónarmiðum séð ekki mjög æskilegt. Þar af leiðandi hlýtur að koma til skoðunar á komandi missirum eða árum að menn hugsanlega skipti aftur á þessum umsömdu veiðiheimildum þannig að hver nýti sitt. Ég held að það sé hins vegar ekkert launungarmál --- það er nú kannski svo að ekki eigi hafa hátt um það --- að ástæðan fyrir þessu öllu saman er sú að hinn pólitíski veruleiki kallaði á að farið var út í svona möndl til þess að Norðmenn sérstaklega gætu selt það heima hjá sér að þetta væru í raun og veru ekki nettóréttindi Íslendinga í Barentshafi, að ekki væri verið að viðurkenna rétt okkar til fiskveiða þarna sem slíkan, heldur væri þetta tvíhliða samningur um skipti á veiðiheimildum, þó að þau skipti séu nú kannski svona og svona reikningslega.

Engu að síður hljótum við þegar við tökum afstöðu til þessa máls að velta því fyrir okkur hvort samningsniðurstaðan sem slík sé skynsamleg og ásættanleg.

Herra forseti. Það er að lokum niðurstaða mín að það hljóti að teljast verulega vafasamt að þessi samningur sé nægjanlega hagstæður okkur Íslendingum þegar upp er staðið. Ég gerði grein fyrir jákvæðu hliðunum sem eru kannski þegar upp er staðið fyrst og fremst þær að koma þessari deilu út úr heiminum sem er gott í sjálfu sér og að með því liðkist um samskipti og samstarf okkar t.d. við Rússa á sviði sjávarútvegs. Þessar veiðiheimildir sem við getum með réttu sagt að við fáum þarna nettó eru hins vegar orðnar afar rýrar í samanburði við þá veiði sem þarna var eða gæti orðið og það orkar mjög tvímælis að upp úr krafsinu sé að hafast það sem réttlæti að gera þennan samning og afsala sér þar með þeim möguleikum sem óbreytt staða þrátt fyrir allt hafði fyrir Ísland til veiða og ósköp einfaldlega til áframhaldandi viðræðna um þessi mál. Það hefur alltaf legið fyrir að menn yrðu að hafa taugar til þess að standa í þessu skaki meðan á því stæði. Það hefur skort nokkuð upp á það á köflum hjá einstöku mönnum. En ég held þó að þessi samningsniðurstaða sýni að að því hlaut að koma að málinu lyki þannig að við hefðum eitthvað upp úr krafsinu. Það er ástæða til að minna á og rifja það upp að ef þessar veiðar hefðu ekki verið stundaðar þá stæðum við ekki hér og værum yfir höfuð ekki að ræða um neina hlutdeild okkar í nýtingu þorskstofnsins í Barentshafi. Auðvitað sannar þessi niðurstaða því það að að lokum berum við eitthvað úr býtum, enda engin efni til annars. Þjóðréttarlega var óumdeilt að við gátum farið til veiða á þessu alþjóðlega hafsvæði og höfðum fullkomlega stöðu til þess. Á okkur hvíldi að sjálfsögðu sú skylda að ástunda þar skynsamlegar og hófsamar veiðar. Að mínu mati hefðum við Íslendingar mátt standa betur að því frá byrjun að gera það ljóst að ekki yrði um að ræða af okkar hálfu óheftar veiðar eða botnlaus rányrkja. Það væri að sjálfsögðu ekki jákvætt ljós sem á okkur félli í slíku tilliti. Ég var þeirrar skoðunar t.d. að við hefðum átt að setja á okkur einhliða kvóta í Barentshafinu frá byrjun en ekki láta veiðarnar standa opnar eins og gert var. En það er liðin tíð og ekki tilefni til að eyða meiri tíma í að rifja það upp. Það verður kannski gert einhvern tíman síðar þegar þessi saga verður skrifuð.

Niðurstaða mín er sem sagt sú, herra forseti, að það sé svo vafasamt að þessi samningur þjóni hagsmunum Íslands, sé nægjanlega góður, að ég mun ekki greiða honum atkvæði og held að það sé réttast að stjórnarflokkarnir sem stóðu fyrir gerð hans og settu stafina undir beri líka ábyrgð á afgreiðslu hans hér á Alþingi.