Endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:57:06 (353)

1999-06-16 10:57:06# 124. lþ. 7.1 fundur 10. mál: #A endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. 18. þm. Reykv. hefur borið fram svohljóðandi fyrirspurn: ,,Hvaða rök liggja til þess að ríkisstjórnin áformar að skipa nefnd utan þings til endurskoðunar fiskveiðistjórnarlaga í stað þess að fela verkefnið sjávarútvegsnefnd Alþingis?``

Því er til að svara að það mundi vera afbrigði ef sjútvn. yrði falið verkefni af þessu tagi, undantekning og afbrigði en ekki venjan. Venjan stendur til þess að ríkisstjórnin, fagráðherrann, skipi nefnd af þessu tagi. Þegar því verki er lokið og ef það ber árangur gengur það til þingflokka stjórnarflokkanna --- eins og hv. þm. þekkir svo vel af langri og mikilli reynslu sinni í öllum þessum sölum bæði við ríkisstjórnarborð og hér --- og þá fer það loks til fagnefndarinnar, í þessu tilviki sjútvn., sem hefur allar heimildir til að fara með það mál hvernig sem nefndinni líkar. Nefndin skilar því svo til baka til þingsins.

Þetta eru hinar venjubundnu leiðir. Annað þyrfti afbrigði, annað þyrfti að rökstyðja en ekki þessa aðferð, sem er hin venjubundna aðferð að mínu mati, hv. þm.