Endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:58:18 (354)

1999-06-16 10:58:18# 124. lþ. 7.1 fundur 10. mál: #A endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SvH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:58]

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Það stendur alveg sérstaklega á í þessu dæmi og ég hygg nú að þó að hann bendi hér á hina almennu reglu finnist á henni margvíslegar og margar undantekningar.

Forráðamenn stjórnarflokkanna lýstu því yfir í kosningabaráttunni að þeir mundu beita sér fyrir því sem þeir kölluðu sættir í hinu örlagaríka fiskveiðistjórnarmáli. Og maður skyldi halda að stjórnarliðið komi með umboð til þess að vinna að þeim sáttum til hins háa Alþingis. Ég álít að sé einlægni í för með yfirlýsingum um að vinna að sáttum muni vinnubrögðin skila bestum árangri með því að menn hefji starfið hér með nýkjörinni sjútvn. Alþingi getur sótt allar upplýsingar og alla ráðgjöf út fyrir sín vébönd hvenær sem því sýnist og til þeirra aðila sem því líst.

Þessi aðferð í þessu sérstaka máli vekur mér ugg um að mönnum sé ekki eins mikil alvara með gagngerum sáttum og maður hefur bundið vonir við. Ég verð þó að segja að ég hlýt að vera að því leyti bjartsýnni á framgang þessa máls sem nýr sjútvrh. hefur tekið við völdum af þeim sem áður sat og bind mjög miklar vonir við afskipti hans af málinu.