Endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:05:38 (359)

1999-06-16 11:05:38# 124. lþ. 7.1 fundur 10. mál: #A endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Spurt var um umboð til þess að haga málum eins og hér hefur verið lýst. Umboðið kemur fram í stjórnarsáttmála sem samþykktur hefur verið af báðum þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Til viðbótar kemur umboðið fram í þeirri lagagjörð sem hér var gerð á liðnu vori og sneri að breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum. Hvort tveggja er því fyrir hendi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á hvernig þetta hefði verið gert í kringum árið 1990, þ.e. að þá hefði þingið haft allan atbeina að málinu. Ég býst við að það hafi nú ekki sérstaklega glatt hv. fyrirspyrjanda, sem hefur sérstaklega haft á orði að vinnubrögðin í kringum 1990 um fiskveiðistjórnina hafi verið handarbakavinnubrögð, ef ég man rétt ummæli hv. þm., þegar framsalið og það annað kom til sögunnar með lögformlegum hætti, sem þingmaðurinn hefur einna mest fundið að.

Fundið er að því að ég hafi sagt hér að þetta yrði gert með venjubundnum hætti, en þá er ég einmitt að nefna að það verði ríkisstjórnarinnar, sjútvrh. í samkomulagi auðvitað innan ríkisstjórnarinnar, að skipa nefndina en ekki að sjútvn. komi að málinu í fyrstunni. Það er hinn venjubundni háttur sem ég er að tala um. Hins vegar geri ég ráð fyrir því að málið verði um margt óvenjulegt. Þetta er um margt óvenjulegt mál.

En þetta er hinn venjubundni háttur sem á þessu er hafður og ég tel fyrir mitt að hann sé betri, að það sé betra að fyrst komi nefnd sem ráðherrann skipar og vinnur að málinu að sínu leyti og síðan sé það mál tekið til gaumgæfilegrar athugunar og endurskoðunar, krítískrar endurskoðunar, ef svo má kalla það, í þinginu og þá sérstaklega af fagnefndinni, hv. sjútvn. Ég tel að þetta sé skynsamlegt og minni á að tillaga Samfylkingarinnar um auðlindanefndina laut einmitt að þessari niðurstöðu, ef ég man rétt. (SJS: Verður nefndin þverpólitísk?)