Starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:18:30 (363)

1999-06-16 11:18:30# 124. lþ. 7.2 fundur 11. mál: #A starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:18]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin þó ég taki undir orð síðasta ræðumanns um að þau hafi mörg hver verið nokkuð loðin.

Ég var að fá þær upplýsingar um að tilkynning hafi komið frá landlæknisembættinu nú í morgun um að frestur til að segja sig frá gagnagrunninum yrði framlengdur og er það vel. Því væri mjög eðlilegt að fara aftur í kynningu á þessu efni og sýna það í verki og vilja að heilbrrn. hafi áhuga á því að koma þessum upplýsingum á framfæri og gera þær sýnilegar með því að óska eftir því að landlæknisembættið beri út úrsagnareyðublöð. Það má benda á að eyðublöðin sem prentuð hafa verið eru mjög óhentug, sérstaklega fyrir fullorðið fólk. Það nær varla að lesa smáa letrið á eyðublöðunum. Það er óvenjulega smátt letur á þessu eyðublaði. Ég ætla bara að koma með þá ábendingu.

Ég vil líka óska eftir því við ráðherra að þó að vinna sé komin í gang þá verði allur undirbúningur vandaður og að beðið verði eftir úrskurði Eftirlitsstofnunar EFTA vegna kæru Mannverndar, að beðið verði með lokafrágang á þessum undirbúningi þar til úrskurðurinn kemur. Það er mjög mikilvægt.