Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:51:53 (385)

1999-06-16 12:51:53# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þótti áhugavert að heyra hæstv. fjmrh. lýsa því yfir að hér væri á ferðinni mjög einfalt frv. sem auðvelt væri að taka afstöðu til og vera annaðhvort andvígur eða samþykkur. Hæstv. ráðherra kvaðst þegar hafa mótað afstöðu sína til málsins og lýsti henni. Hann er á móti frv. Það hefði verið æskilegt að hæstv. forsrh. hefði verið hér í salnum og heyrt þessa röksemdafærslu fjmrh. Hér fyrr á fundinum fann hæstv. forsrh. því allt til foráttu að hægt væri að taka afstöðu til einfalds máls, sem sömuleiðis er hægt að svara með jái eða neii, sem sagt því hvort virkjunarframkvæmdir á Fljótsdalshéraði ættu að fara í lögformlegt umhverfismat.

Ég tel að hæstv. fjmrh. hafi flutt prýðilega framsöguræðu fyrir því sjónarmiði að þegar fyrir liggja einfaldir og skýrir kostir í tiltekinni stöðu, eins og hér vissulega eru, þá séu menn annaðhvort samþykkir því eða andvígir, að þessi bensíngjaldshækkun gangi fram. Þá er ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til þess, ef Alþingi vill láta vilja sinn í ljós. Mér finnast þeir menn vera á mjög hálum brautum sem færa rök gegn því að til bóta sé að þingviljinn birtist í málum þegar forsendur eru fyrir slíku. Auðvitað á það að vera þannig og menn eiga að taka það alvarlega.

Ef það kæmi t.d. í ljós að meiri hluti Alþingis væri þeirrar skoðunar að skynsamlegt væri að fara þessa leið, að fresta þessum hækkunum og færa frekar til tekjur milli ríkissjóðs og Vegasjóðs o.s.frv. svo áætlanir geti staðist, þá ætti sá vilji auðvitað að fá að koma fram. Það er ekki hægt að færa rök gegn því og slíkt liggur í eðli þingræðisins.

Í öðru lagi vil ég hrósa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir námshæfileikana. Ég verð að segja að svo prýðilega fræðilegan fyrirlestur um hagfræði hef ég aldrei heyrt fluttan fyrr af manni sem einungis hefur stundað nám í þeirri vísindagrein í korter. Að vísu er kennarinn öflugur og stóllinn góður. (Gripið fram í: Það var í þrjú korter.) Eftir þrjú korter í kjöltu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, þá finnst mér þetta vel að verki staðið.

Herra forseti. Af því að það er fullkomlega eðlilegt að hið stærra samhengi þessara mála beri hér nokkuð á góma, þá ætla ég aðeins að segja um það örfá orð. Kostnaðarhækkanir þær sem hér er að hluta til komið inn á með þessu frv. eru mikið til umræðu í þjóðfélaginu og eðlilegt að það verði mönnum efni til skoðanaskipta hér á Alþingi áður en það lýkur störfum og að hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn séu krafin svara í þeim efnum. Ég verð að vísu að segja að mér fannst hæstv. ráðherra óþarflega önugur í málflutningi sínum og ekki bæta neitt fyrir sér með því að vera með önuglyndistón yfir þessu. Að manni læðist sá grunur að vorið og sumarið fari ekki nógu vel í hæstv. ráðherra, hann sé óþarflega skapstyggur. Það er auðvitað slæmt.

Ég verð líka að segja að mér finnast hæstv. ráðherrar, og það er ekki nýtt, bæði hæstv. fjmrh. og reyndar einnig hæstv. félmrh., t.d. á sl. vetri, tala mjög ógætilega um hlut og stöðu sveitarfélaganna í þessu efni. Allra síst er það við hæfi að hæstv. fjmrh. dragi karp milli meiri hluta og minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur inn í umræðurnar eins og hann gerði hér áðan. Það er ekki nýtt að ofstæki íhaldsins í garð Reykjavíkurlistans birtist mönnum hér í gegnum talsmenn Sjálfstfl. í ræðustól á Alþingi.

Í fyrrahaust, á ráðstefnu sveitarfélaga um fjármál, þá húðskömmuðu hæstv. ráðherrar, hæstv. fjmrh. og einnig hæstv. félmrh., ráðherra málefna sveitarfélaganna, sveitarfélögin fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum. Þeir sögðu að þau ættu að taka sig á, mættu ekki keyra fram úr, ættu ekki að hækka gjaldskrár o.s.frv. Það bryddar á sama viðhorfi hér hjá hæstv. fjmrh. nú.

En hver er staða sveitarfélaganna? Hún er sú að tekjumöguleikar þeirra eru meira og minna bundnir og lögfestir. Síðan hafa þau tekið við útgjaldafrekum verkefnum, fengið á sig væntingar t.d. kennara um launahækkanir og annað slíkt en hafa mjög takmörkuð úrræði til að bregðast við þegar útgjaldaauki verður af slíkum sökum. Niðurstaðan er sú að skapast hefur jafnvægisleysi í tekjusamskiptum ríkis og sveitarfélaga þar sem hallar á sveitarfélögin. Þau safna nú mörg hver skuldum. Þetta liggur fyrir og ekki við hæfi að hæstv. ráðherrar komi svo og skammi sveitarfélögin fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum. Þarna þarf að koma til samstarf þessara aðila um að leysa þessi mál. Eitt af því sem blasað hefur við um missira skeið og flokkast undir jafnvægisleysi í íslenskum efnahagsmálum er auðvitað sá vandi sem er uppi í tekju- og verkaskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Hæstv. ráðherrum væri nær að horfast í augu við það og reyna að ná samstarfi um að leysa það en reyna að flýja frá vandanum líkt og þarna er gert.

Það er þannig, herra forseti, eins og hæstv. fjmrh. viðurkenndi ágætlega hér í málflutningi sínum, að góðærið svokallað og margumrætt, sem var nú ekki svo lítið rætt um fyrir kosningar, er því miður nánast orðið að eyðslugóðæri. Ef aðeins er farið yfir hagsveifluna eins og hún er frá 1994, þegar fór að birta til aftur eftir langt samdráttarskeið, má segja að góðærið hafi byrjað sem framleiðslugóðæri. Það var fyrst og fremst aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi með veiðum á fjarlægum miðum og góðu gengi í veiðum uppsjávarfiska sem kom hjólunum í gang á nýjan leik. Á árinu 1994 og 1995 má segja með sanni að hafi verið hér eiginlegt góðæri í þeim skilningi að raunverulegur tekjuauki kom inn í efnahagslífið og þjóðarbúskapinn. Á árunum þar á eftir, á árunum 1996--98, má segja að góðærið hafi verið sambland af þessu að viðbættum fjárfestingum sem komu inn í landið og ýttu undir hagvöxtinn.

En nú á síðari hluta þessa hagvaxtarskeiðs eða góðærisskeiðs, sem margir óttast því miður að sé komið, er þetta því miður að mestu leyti að verða eyðslugóðæri. Það hefur dregið úr fjárfestingum og sú framleiðsluaukning sem kom þessu af stað er ekki að sama skapi og áður. Fyrst og fremst er það mikil eyðsla í þjóðfélaginu sem skilar t.d. ríkissjóði núna þessum tekjuauka, eyðsla sem því miður er að hluta umfram efni. Menn ættu að horfast í augu við þær aðstæður af alvöru.

Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ástæða sé til að ætla að ríkisstjórnin hafi með góðæristali sínu kynt undir væntingum, t.d. um launahækkanir, sem eigi eftir að koma henni í koll. Ég tel fullkomið tilefni til að hafa áhyggjur af því hvernig til muni takast á næstu mánuðum, bæði við að halda jafnvægi í efnahagsmálum og hvað varðar væntanlega kjarasamninga.

Mér finnst, herra forseti, ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir afar kærulaus í þessum efnum. Að mínu mati er t.d. mikið kæruleysi að ýta öllu frá sér nú á fyrri hluta ársins og vísa því aftur til haustmánaða. Það er ætlunin. Á þessu vorþingi er ríkisstjórnin ekki, eins og hún hefði getað gert, að taka í gegn fjáraukalögin. Hún er ekki að nota það tækifæri sem hún hefur með Alþingi starfandi til að taka á fyrirsjáanlegum vandamálum sem menn einfaldlega ýta á undan sér, t.d. rekstrarvanda heilbrigðisstofnana. Þessu er öllu saman ýtt á undan og vísað inn að hausti. Mér finnst það mikið umhugsunarefni t.d. að ríkisstjórnin skuli ekki við þessar aðstæður framlengja störf þingsins, afgreiða fjáraukalög og reyna að taka á þeim þáttum sem þar væri t.d. hægt að gera og ná betri tökum og meira jafnvægi í þessum efnum.

[13:00]

Það er líka rétt sem fram kom að við höfum búið að ýmsu leyti undanfarin tvö til þrjú missiri við afbrigðilegar aðstæður. Við höfum flutt inn verðlækkanir. Við höfum verið svo heppin, skulum við segja, að áhrif erlendis frá, t.d. lækkandi olíuverð, t.d. lækkandi verð á innflutningi frá Asíulöndum vegna efnahagsástandsins þar, hagstæð gengisþróun og að mörgu leyti hagstæð þróun á afurðaverði hjá okkur, hefur allt í raun og veru hjálpað til að vega upp á móti talsverðri verðþenslu innan lands. Það liggur alveg fyrir að ef ekki hefðu komið til olíuverðslækkanirnar og fleiri þættir, þá hefði verðbólgan verið einhverjum prósentustigum hærri undanfarin missiri en hún ella var. Þess vegna er fullkomin ástæða til að hafa áhyggjur af því ef bjargræðið að utan snýst nú við sem við höfum enga tryggingu fyrir að það ekki geri. Þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að hér geti orðið meiri verðþensla en við höfum séð og mælst hefur að undanförnu.

Herra forseti. Ég vildi nota tækifærið úr því að nokkrar umræður höfðu hafist um ástand efnahagsmála almennt til að koma þar inn á örfá atriði og skal ekki lengja umræðuna af minni hálfu meira enda óvíst að húsið standi miklu lengur miðað við hvernig það nötrar og munu stórvirkar vinnuvélar valda en ekki jarðhræringar og best að fara að forða sér úr pontunni.

Að allra síðustu þetta, herra forseti, sem ég vil endurtaka, mér finnst hæstv. ríkisstjórn vera kærulaus. Sá grunur læðist eiginlega að mér að hæstv. ráðherrar nenni þessu ekki, þeir hafi svo gaman af því að vera orðnir ráðherrar aftur í nýrri ríkisstjórn að þeir slái þessu upp í kæruleysi og vísi þessu öllu til haustsins --- den tid, den sorg --- heitir það á dönsku og það finnst mér ekki mikil ábyrgð. Maður hefði vænst einhvers annars af nýrri ríkisstjórn, að hún reyndi að grípa strax til skynsamlegra ráðstafana gagnvart þeim áhyggjuefnum sem þarna eru uppi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef afar takmarkaða trú á því ef menn ætla að beita því eina tæki að Seðlabankinn hækki vexti, það geri mikið, það hreyfi miklu. Við höfum keyrt á vöxtum sem eru mörgum prósentustigum fyrir ofan nágrannalöndin, missirum saman og það virðist ekki hafa skipt miklu máli. Ég hef því ekki mikla trú á því að einhver vaxtabreyting upp á hálft prósentustig hafi þarna mikil áhrif, mér liggur við að segja því miður. Ég held að fleira þurfi að koma til og mér finnst kæruleysislegt af hæstv. ríkisstjórn að skilja svona við hlutina.