Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 13:56:32 (3767)

2000-02-01 13:56:32# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fullyrti að þeim dæmum færi fækkandi þar sem ráðinn er óhæfari karlamaður en hæfari kona. Þá vil ég útvíkka spurninguna: Hversu oft kemur það fyrir að ráðinn er óhæfari karlmaður en hæfari karlmaður? Er þetta ekki spurningin um jafnrétti fólks sem birtist í því að jafnrétti kynjanna er eins og það er? Getur ekki verið að við séum að glíma við rangan sjúkdóm? Erum við ekki að framkvæma hjartauppskurð á nýrnasjúklingi? Að við séum í rauninni að ræða um jafnrétti fólks en ekki um jafnrétti kynjanna?

Það er svo sem ágætt að við fáum góða einkunn. Ég er mjög ánægður með að við séum betur sett en í Kína eða öðrum löndum en það er ekki þar með sagt að við séum ánægð. Ég held nefnilega að þetta sé spurning um jafnrétti fólks og það kosti þjóðfélagið mjög mikið að nýta ekki hæfustu einstaklinga til bestu starfanna og það gerist ef við ráðum óhæfari karlmann í staðinn fyrir hæfari karlmann í stjórnunarstöðu. (Gripið fram í: Nefndu dæmi.)