Starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 16:13:09 (3784)

2000-02-01 16:13:09# 125. lþ. 53.95 fundur 264#B starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það vekur mikla athygli að nú er mjög mikið talað um að rekstur heilbrigðisgrunna í vísindaskyni stangist á við siðferði heilbrigðisstétta. Slíkur rekstur hefur gengið í nágrannalöndum okkar í yfir hálfa öld. Í yfir hálfa öld hafa verið notaðir miklu viðameiri gagnagrunnar en hér er um að ræða með miklu viðkvæmari upplýsingum og nefni ég þar alveg sérstaklega danska gagnagrunninn. Upplýsingar í danska grunninum og öðrum skandinavískum grunnum eru ekki dulkóðaðar. Það er því ljóst að Íslendingar eru hér og nú að ryðja braut að því er varðar örugga varðveislu og hátæknilega nýtingu heilsufarsupplýsinga í þágu læknavísinda og heilbrigðiseftirlits. Verið er að þróa hér nýjar aðferðir, við erum að ganga lengra og höfum komist lengra í þessum efnum en aðrar þjóðir hafa gert og það er litið til okkar sem þeirrar þjóðar sem er að ryðja brautina.

Ég vil gjarnan biðja hv. málshefjanda að nefna mér eitt dæmi, eitt einasta dæmi um ríki þar sem eins vel er staðið að varðveislu og öryggi heilsufarsupplýsinga sem notaðar eru í vísindaskyni og hér er gert. Ég veit að hann getur ekki gert það vegna þess að þessar heilsufarsupplýsingar eru hvergi dulkóðaðar með þeim hætti sem hér er verið að gera. Ég vil einnig geta þess af því það hefur verið vitnað hér mjög mikið í alþjóðasamtök lækna að þá er einmitt þessi grundvallarmisskilningur sem er hér víða í gangi, að hægt sé að tala um að þetta séu vísindarannsóknir á fólki sem hér er verið að ræða, en svo er ekki. Svo er ekki. Alþjóðasamtök lækna gera greinarmun á þessu og hægt er að vitna í þau gögn. (Gripið fram í.) Ég get afhent það þeim þingmönnum sem vilja skoða það í hreinskilni og einlægni. Ég get afhent þeim þessi gögn og ég hef birt um þetta greinar í blöðum þar sem er vitnað í þessi gögn af fullkomnum heiðarleika og allir þeir þingmenn sem hér eru inni geta kynnt sér þau.