Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 16:32:56 (3793)

2000-02-01 16:32:56# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[16:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér fagurt frv., velviljað og fullt af fyrirheitum. Þetta eru fögur orð á pappír en því miður, herra forseti, tel ég þetta vera skýjaborgir.

Tölfræðin segir okkur að stöðu kvenna hafi hrakað frekar en hitt síðustu 20 árin og launamunur aukist. Ég sé ekki fleiri konur í leiðandi störfum en verið hefur undanfarið, því miður. Það er von að konum svíði þetta misrétti. Stjórnvöld reyna að bregðast við með krampakenndum aðgerðum eins og oft áður. Þau leggja fram frv. sem laga á stöðuna með því að ganga á rétt einstaklinga og fyrirtækja, auka kostnað en ég tel að það skili engu.

Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum nokkrar greinar. T.d. stendur í 3. gr.:

,,Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum er skylt að veita Skrifstofu jafnréttismála hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar.``

Ég ætla að vona að Skrifstofa jafnréttismála verði ekki allt of dugleg að heimta upplýsingar. Þá endar það með því að atvinnulífið gerir ekki annað og hefur það þó nóg á sinni könnu við að sinna heilbrigðiseftirliti, vinnueftirliti og öllu því eftirliti sem atvinnulífinu er skylt að sinna. Það koðnar niður ef þessar stofnanir sem eiga rétt á að heimta upplýsingar eru of duglegar.

Í 14. gr., herra forseti, kemur að mjög viðkvæmu máli. Það á að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Ég var eitt sinn í þeirri stöðu að ráða fólk, sem forstöðumaður fyrirtækis. Ekkert er erfiðara en þetta. Þegar ég talaði við manneskju sem hafði mikla reynslu þá leit hún að sjálfsögðu þannig á að reynslan væri mjög mikilvæg og verðmæt. Þegar ég talaði við manneskju með menntun þá leit hún þannig á að menntun væri að sjálfsögðu verðmæti sem meta ætti til launa. Þegar ég talaði síðan við manneskjuna sem var óskaplega dugleg og skaffaði tvöfalt á við hina þá taldi hún að sjálfsögðu að meta ætti dugnaðinn til launa. Þegar ég talaði við náungann sem var óskaplega snjall og leysti allt saman snilldarlega, var frekar latur en skilaði góðu starfi með snilld sinni, þá leit hann að sjálfsögðu þannig á að það ætti að meta snilldina sérstaklega. Sumir voru stundvísir og vildu endilega láta meta það enda góður eiginleiki. Aðrir voru mjög góðir í félagsskap annarra, komu á góðu skapi í kringum sig og þeir vildu láta meta það. Það er ekkert erfiðara en að meta þetta. Það er eiginlega ekki hægt þannig að öllum líki.

Í 24. gr. stendur:

,,Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.``

En þeir mega mismuna að öðru leyti, herra forseti. Því til staðfestingar ætla ég að nefna eitt lítið dæmi. Við skulum hugsa okkur að auglýst sé starf hjá stóru fyrirtæki og voldugu. Það á að ráða í starf deildarstjóra. Forstjórinn í þessu fyrirtæki stendur frammi fyrir þremur umsóknum. Þar eru í fyrsta lagi ein stúlka og einn karlmaður, jafngömul. Við skulum segja að þau séu þrítug og afskaplega fær og dugleg, með umsagnir um að þau séu mjög dugleg, samviskusöm og með góða menntun einmitt á því sviði sem fyrirtækið þarf, þ.e. gott starfsfólk. Þriðji umsækjandinn er karlmaður sem hefur enga menntun, er frekar hyskinn og latur en pabbi hans spilar brids við forstjórann vikulega. Af einhverjum ástæðum fær hann starfið. Þá gerist það merkilega, herra forseti. Konan getur kært á grundvelli þessara laga, þessi hæfileikaríka kona getur kært en hæfileikaríki karlmaðurinn getur ekki kært, ekki samkvæmt lögum. Hann hefur enga möguleika á að kæra. Hvar er jafnréttið og jafnræðið samkvæmt þessum lögum? Það má mismuna karlmönnum. Allt í lagi. Það má mismuna konum gagnvart hver annarri. En það má ekki mismuna kynjunum.

Herra forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir --- hún er reyndar fjarverandi núna --- gat um að samkvæmt umferðarlögum væri bannað að ganga yfir eða keyra á rauðu, þótt það sé einstaka sinnum brotið. En hvað mundi hv. þm. segja ef við hefðum í 20 ár brotið umferðalögin nokkuð reglulega? Menn keyrðu bara yfir ýmist á rauðu eða grænu, það skipti ekki máli. Mundu menn ekki hugleiða hvort ráð væri að breyta umferðarlögunum ef menn færu ekkert eftir þeim? Það er nefnilega akkúrat það sem gerist með þessi jafnréttismál. Þar ekkert er farið að lögunum.

Nú vill svo til, herra forseti, að ríkasti Íslendingurinn er kona. Það vill svo til, herra forseti, að tekjuhæsti Íslendingurinn er kona. (Gripið fram í: Hver er þetta?) Björk, væntanlega. (ÖS: Hefur þá ekki eitthvað miðað?) Þá er spurningin: Er sú staðreynd eitthvað betri fyrir konu í láglaunastarfi sem kemst ekki áfram? Nei, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það bjargar ekki þeirri manneskju nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ekki spurningin um það að telja hausa kynjanna eða finna meðaltal. Þetta er spurningin um það að gæta jafnréttis og þess að sá hæfileikaríkasti fái stöðuna.

Ég vona, herra forseti, að þetta frv. nái markmiði sínu, að launamunurinn hverfi og konur fái leiðandi stöður. Það er ekki nóg að launamunurinn hverfi þannig að konur séu allar í láglaunastörfunum og karlmenn allir í hálaunastörfunum. Konur þurfa að eiga möguleika á að komast í hálaunastörfin. Það er ekki síðra verkefni, raunar miklu meira. Launamunurinn sem menn hafa talað um, 10--15%, er miklu meiri. Það er hið langlægsta sem hægt er að komast upp með þegar búið er að þurrka út allt sem mönnum dettur í hug. Launamunurinn er meiri og alveg sérstaklega vegna þess að konurnar komast ekki í leiðandi störf. Við Íslendingar verðum að nýta krafta kvenna í leiðandi stöðum.

Herra forseti. Þó ég sé ekki bjartsýnn á árangurinn af þessu frv. þá er ég bjartsýnn að öðru leyti. Út í þjóðfélaginu er nefnilega dálítið merkilegt að gerast. Þar malar verðbréfamarkaðurinn alla daga, það er talað um gengi og forstjórarnir standa tiplandi á tánum við reyna að auka arðsemi fyrirtækja sinna. Nú hafa þeir vonandi ekki lengur efni á að ráða síður hæfa starfsmenn í staðinn fyrir hæfari, hvort sem er karl eða kona. Þeir verða hægt og bítandi að átta sig á því að þeir þurfa að ráða hæfasta starfsfólkið hvort sem það eru karlar eða konur. Ég tel að þessi krafa um arðsemi muni, miklu frekar en þetta frv., leiða til þess að jafnrétti náist. Þarna er von. Það að Eimskip skuli hafa uppgötvað þetta er ekkert skrýtið. Eimskip er á verðbréfamarkaði og verður að sýna hagnað. Þess vegna ráða þeir hæfasta fólkið hvort sem það er karl eða kona. Það vill nefnilega svo til að það eru yfirleitt konur vegna þess að þær eru vanmetnar annars staðar. Þær fá ekki stöður við hæfi annars staðar.

Herra forseti. Ég hef margoft bent á að við séum að ræða um jafnrétti fólks. Sjúkdómurinn sem við erum að glíma við er að jafnrétti fólks er ekki til staðar. Fjöldinn allur af ungu fólki, vel menntuðu, sem sækir um góðar stöður fær höfnun. Við fyrstu höfnun kemur upp vonleysi. Við aðra höfnun bognar einstaklingurinn og fer að efast um eigið ágæti. Er ég kannski svona hæfileikaríkur? Hef ég kannski ekki þessa menntun? Er ég kannski ekki svona góður eða duglegur? Frumkvæði mannsins er drepið niður þegar hann sækir um stöður en alltaf eru ráðnir einhverjir aðrir síður hæfir. Þetta á við bæði um karla og konur en kannski frekar konur eins og hefur sýnt sig. Áhrifin af þessu misrétti eru mjög hættuleg. Sá beygði er ekki duglegur og sýnir ekki frumkvæði. Öll þjóðin tapar á þannig kerfi. Það er mjög mikilvægt að breyta þessu viðhorfi, að fyrirtæki hætti að ráða síður hæfan karlmann eða óhæfan einstakling. Fyrirtækin þurfa að neyðast, í krafti arðsemiskröfu, til að ráða alltaf hæfasta einstaklinginn. Þá munum við fá jafnrétti sjálfkrafa, sjálfkrafa jafnrétti milli karla og kvenna.

En það eru fleiri atriði sem þarf að laga. Ég hef margoft bent á að laga verði fæðingarorlofið þannig að karlmenn taki þátt í því ekki síður en konur. Það er hið eina sem ég sé kynbundiðí lögum í dag. Þessi kynbundni mismunur, að karlmenn ganga ekki með börn. Það hefur sýnt sig, ég hef alla vega tekið eftir því. Og þar af leiðandi er þar ákveðinn mismunur. (Gripið fram í: Sem verið hefur ákaflega lengi.) Já.

Í allri þessari umræðu hefur enginn svarað spurningunni sem ég varpaði fram til hæstv. félmrh. í upphafi umræðunnar. Hvers vegna í ósköpunum ræður stjórnandi karlmann í staðinn fyrir hæfari konu? Af hverju þarf að setja lög til að refsa fyrir að ráða ekki hæfasta einstaklinginn þó það væri eðlilegast og sjálfsagt? (Gripið fram í: Þú hefur svarað þessari spurningu sjálfur.) Menn segja: Setjum lög, við skulum refsa, heimta upplýsingar og síðan spyrja af hverju menn gera þetta. Við kærum menn o.s.frv. en enginn hefur spurt af hverju í ósköpunum menn gera ekki hið sjálfsagða, að ráða hæfasta einstaklinginn. Hvernig stendur á því? Enginn hefur enn svarað því.

Ég held að þetta sé meinið í öllu málinu. Það er verið að setja flókin lagafrumvörp sem eiga að reyna að laga eitthvað ekki ætti að þurfa að laga. Þar kemur krafan um arðsemi inn í. Í opinberum fyrirtækjum er ekki krafa um arðsemi, þar er öllum sama. Í mörgum fyrirtækjum sem ég kalla fé án hirðis er ekki krafa um arðsemi. Þar er ekki skrýtið að misrétti aukist vegna þess að þar er ekki krafist arðsemi.

Ég tel mjög brýnt fyrir þjóðina að koma á jafnrétti. Við verðum að nýta hvern einasta einstakling og hæfileika hans til hins ýtrasta. Við megum ekki drepa niður dugnað og frumkvæði ungs fólks með því að láta það aftur og aftur upplifa það að síður hæfur umsækjandi fái stöðuna sem það hafði sótt um. Ég tel það mjög brýnt.