Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:12:40 (3799)

2000-02-01 17:12:40# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frv. um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Það er afskaplega mikilvægt að gera sér grein fyrir því að jafnrétti skuli ná til beggja kynja því að jafnrétti karla er að mínu mati mikilvægt fyrir jafnrétti kvenna og öfugt.

Ég vil taka undir marga mikilvæga þætti og röksemdir sem komu fram í máli hv. þm. Ástu Möller áðan en ég vil þó staldra við fáein atriði og þá fyrst við 2. og 3. gr. Það er að mínu mati mikilvægt að til sé stjórnsýslustofnun, eins og Skrifstofa jafnréttismála, sem sjái um þennan mikilvæga málaflokk eins og 3. gr. kemur inn á, þ.e. hlutverk hennar og þau eru mörg mikilvæg að mínu mati. Ég vil m.a. koma inn á það hvort eitt af hlutverkum hennar verði ekki að framfylgja könnunum. Nú er búið að gera margar og merkar kannanir á jafnréttismálum og vil ég m.a. minnast á þær kannanir sem birtar voru um daginn um stöðu kvenna í fjölmiðlum eða réttara sagt um rýran hlut kvenna eins og kannanirnar bentu til, þ.e. að um rýran hlut kvenna væri að ræða í fjölmiðlum. Hann var afskaplega rýr, að einungis væru um 15% viðmælenda í dagblöðum konur og varðandi hið talaða mál var hlutfallið svipað í sjónvarpi. Staðan þar er því rýr. Ástæðurnar eru margar. Þjóðfélagsmyndin sem blasir við okkur er sú að hlutverk kvenna sé rýrt á mörgum sviðum þjóðfélagsins, en þó ekki svona. Það eru fleiri konur sem eru t.d. í pólitík og það er ánægjulegt að konur hafa aukið hlut sinn á hinu háa Alþingi. Starfsviðhorf fjölmiðla koma þarna inn í líka og síðan tregða kvenna til að tjá sig. Það er afskaplega mikilvægt að t.d. Skrifstofa jafnréttismála komi þar inn í og reyni að hvetja konur hvort sem þær eru í stjórnmálum eða atvinnulífi til að tjá sig við fjölmiðla og stíga það erfiða skref sem það oft er að ræða við fjölmiðla.

[17:15]

Ég vil koma aðeins inn á hlutverk Jafnréttisráðs. Mér finnst svona við fyrstu sýn --- annað verður þá bara að koma fram við síðari meðferð málsins --- að hlutverk Jafnréttisráðs sé frekar rýrt samkvæmt 8. gr. Það virðist í raun aðeins verða hugmyndavettvangur fyrir jafnréttismál, ekki mikið meira. Mig langar að ítreka þær fyrirspurnir sem hafa komið fram fyrr í dag: Hvað varð um jafnréttisþingið sem getið var um í fyrri frumvarpsdrögum?

Í III. kafla frv. um réttindi og skyldur er fjallað um mörg mikilvæg og merkileg atriði. Ljóst er að kynbundinn launamunur er enn mjög mikill og margar kannanir hafa sýnt fram á þann mikla launamun sem er á milli kynjanna. Þetta launamisrétti virðist birtast á öllum sviðum þjóðlífsins og í atvinnulífinu. Ástæður þess kunna að vera margvíslegar og bent hefur verið á að viðhorfsbreytingar sé þörf hjá stjórnendum fyrirtækja og hugsanlega þurfi að bæta lagaumhverfið. Ég held að þetta frv. sé skref í þá átt að styrkja enn frekar stöðu kvenna í baráttunni fyrir að jafna launamuninn.

Eins og ég gat um skiptir viðhorfsbreyting mjög miklu máli meðal forráðamanna, stjórnenda fyrirtækja og stofnana. Ég verð að taka undir það hve ánægjulegt er að fylgjast með fyrirtækjum á hinum almenna vinnumarkaði. Hér í ræðustóli hefur verið minnst á Eimskip og geta mætti um fleiri fyrirtæki, t.d. Tal, sem gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt er að vinna að jafnréttismálum og nýta mannauð allra starfsmanna fyrirtækjanna.

Ég held líka að um leið hafi þessi fyrirtæki gert sér grein fyrir því hve ríkur þáttur þetta er til að efla samkeppnisstöðu þeirra á markaðnum og um leið arðsemiskröfu fyrirtækjanna. Hinn frjálsi markaður er þarna ótvírætt kominn til liðs við jafnréttisbaráttuna og það er gríðarlega mikilvægur þáttur.

Í III. kaflanum er einnig mjög mikilvægt ákvæði sem er 16. gr. Ég held að sú grein komi ekki einungis til með að ýta enn frekar undir þá viðhorfsbreytingu sem við þegar höfum orðið vör við. Vonandi mun það einnig ýta undir samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Ég vil taka undir orð hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að það er eðlilegt fyrir hið háa Alþingi að huga að breyttum starfsaðferðum með tilliti til ungra foreldra á meðal þingmanna og starfsmanna þingsins. Ég tel að um leið mundi Alþingi sýna gott fordæmi í þessum málum.

Ég vil einnig nefna nokkur lykilorð varðandi samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Það hefur verið talað um fæðingarorlofið og ég tek eindregið undir það. Ég held að það sé lykilatriði í að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Fæðingarorlofið, lenging þess og jöfnun orlofsréttarins á milli kynjanna er mikilvægur þáttur í að jafna réttinn á milli kynjanna og auka sveigjanleikann í fæðingarorlofinu. Sveigjanleikinn til þess að taka fæðingarorlof er enginn í dag, akkúrat enginn. Það skiptir miklu máli í jafnréttisumræðunni að jafna réttinn á milli kynjanna þannig að sveigjanleiki sé til staðar. Ég tel að nútímatækni bjóði upp á að sveigjanleikinn nýtist ekki bara þeim sem taka fæðingarorlof heldur og fyrirtækjum og stofnunum.

Ég tel að þessi atriði varðandi jöfnun réttarins til að taka fæðingarorlof á milli kynjanna auk sveigjanleikans geti haft mikil áhrif á að minnka og hugsanlega útrýma kynbundnum launamun þar sem misréttið er einna mest. Við verðum að átta okkur á því að þegar atvinnurekandi stendur frammi fyrir því að ráða karl eða konu þá er afskaplega mikilvægt að þau standi jafnfætis gagnvart atvinnurekandanum. Atvinnurekandinn þarf þannig að gera sér grein fyrir því að bæði taki fæðingarorlof. Það er gríðarlega mikilvægur punktur í jafnréttisbaráttunni.

Þessi umræða um fæðingarorlofið og kannanir á því hvernig þar eigi að standa að málum eru til gaumgæfilegrar skoðunar hjá fjmrn. og ég er handviss um að það muni leiða til farsællar lausnar.

Í lokin vil ég varðandi fjölskyldulífið, af því að það er til umræðu í 16. gr., velta því fyrir mér hvort við eigum einungis að eyrnamerkja þessa grein ungum fjölskyldum. Ættum við ekki að taka þarna inn í líka hugsunina um eldri borgara? Þá er ég aðallega með það í huga að það skiptir miklu máli fyrir eldri borgara að eiga kost á sveigjanlegum starfslokum. Þar er enn einn þáttur í að gera atvinnulífið og fjölskyldulífið samræmanlegt.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan er þetta frv. mjög mikil framför fyrir jafnréttismálin og fjölskyldur í landinu. Ég vona hins vegar að félmn. taki þau atriði sem verið hafa til umfjöllunar í ræðum hv. þm. til ítarlegrar skoðunar.