Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:35:14 (3801)

2000-02-01 17:35:14# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka það frv. sem lagt er fram og tel það að mörgu leyti til bóta og einnig hafa umræður í dag leitt það í ljós. Það eru hins vegar hagir einnar stéttar sem mig langaði að vekja athygli á við umræðuna þannig að það sjónarmið komi þá a.m.k. fram og menn ræði það kannski við umfjöllun málsins í nefnd. Það eru hagsmunir sjómanna í þessum málum.

Nú er það einfaldlega svo að starf sjómanna, sem er sennilega eitt helsta karlastarfið sem þekkist í þjóðfélaginu, er þannig að þeir eiga ákaflega litla samleið í því að njóta þeirra réttinda sem verið er að mæla fyrir í þessu lagafrv. Í 1. gr., í a-lið, segir að það skuli gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins og síðan í c-lið að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þarna komum við einmitt að þessari miklu sérstöðu sjómannastéttarinnar.

Það hefur verið þannig á undanförnum árum að sjómannasamtökin í landinu hafa verið með það í kjarakröfum sínum að semja um rétt sjómanna, t.d. til að taka tímabundið veikindaorlof út á það ákvæði, sem má finna í kjarasamningum sumra stétta í landinu nú þegar, að foreldri megi vera heima hjá veikum börnum sínum. Sjómenn hafa og m.a. meðan ég var þar í forustu verið með þessar kröfur í tví- eða þrígang inni í kjarakröfum og ábendingum okkar hefur ævinlega verið hafnað af hálfu útgerðarmanna sem óréttmætum og órökstuddum.

Auðvitað verðum við að viðurkenna að sérstaða sjómanna í þessu máli er talsverð. Hins vegar ber að líta til þess að ef maki sjómanns er útivinnandi kann starf makans að vera með þeim hætti að hann eigi alveg jafnerfitt með að taka sér frí og sjómaðurinn og jafnvel frekar. Við í sjómannasamtökunum töldum því að það væri réttlætismál að koma slíku ákvæði inn í kjarasamninga. Það tókst ekki og það er náttúrlega dálítið athyglisvert að þurfa að segja það í þessum ræðustól í hv. Alþingi að það er m.a. Alþingi sjálft sem hefur séð til þess því að í tví- eða þrígang hafa verið sett lög á hv. Alþingi um að stöðva kjaradeilu sjómanna án þess að nokkurn tíma hafi verið tekið tillit til þessarar kjarakröfu okkar, að það væri yfirleitt til umræðu að sjómenn ættu einhvern rétt að þessu leyti. Hér hafa verið sett lög á kjaradeilur sjómanna þar sem m.a. krafan um það að feður gætu fengið að vera hjá börnum sínum og haft til þess laun í einhvern tíma, hefur verið blásin út af borðinu og Alþingi hefur sem sagt sett lög á kjaradeiluna án þess að taka neitt mark á því að sjómenn væru þarna að sækja sambærilegan rétt og aðrir. Sama á við um framkvæmd þess að sjómenn geti tekið fæðingarorlof. Menn hafa rætt það í kjarasamningum við útgerðarmenn án þess að fá neinar undirtektir í því máli og með sama hætti hefur því líka verið sparkað fyrir borð þegar Alþingi hefur sett lög á kjaradeilur sjómanna. Ég vildi því vekja sérstaka athygli á því undir þessari umræðu að Alþingi sjálft hefur tekið að sér að koma í veg fyrir það að ein stétt manna, sem á að vísu mjög undir högg að sækja í þessa veru, næði neinum réttindum. Ég held að það sé rétt að draga það mjög skýrt fram.

Ég vil hins vegar vekja sérstaka athygli á því að í sjómennskustörfunum hefur í gegnum tíðina að því er ég best veit ekki verið neitt launamisrétti í fjölda ára, ef ekki áratugi. Það eru einfaldlega bara kjarasamningar til um störf ákveðins fólks um borð í skipum hvort sem það eru farskip eða fiskiskip, varðskip eða hafrannsóknaskip. Hver sem gegnir þessum störfum fær þau laun og skiptir þá eigi máli hvort það er karl eða kona.

Langmestur hluti starfandi sjómanna er karlmenn en á undanförnum árum hafa sem betur fer nokkrar konur gegnt sjómannsstörfum og m.a. menntað sig til sjómannastarfa, bæði sem vélstjórar og skipstjórnarmenn. Auðvitað hafa konur haft góða þekkingu á matreiðslu svo að eitthvað sé nefnt og oft gegnt þeim störfum með miklum ágætum og a.m.k. þar sem ég þekki til hafa konur ekki brugðist í þeim störfum sem þær hafa verið ráðnar í til sjós. Ég held að í flestum tilfellum hafi þeim í engu verið hlíft og þær hafa reyndar ekki sóst eftir því sjálfar að vera hlíft í neinu vegna þess að það eru nú einu sinni svolítið kjarkaðar konur sem sækjast eftir því að fara til sjós og þar sem ég þekki til hafa þær staðið sig vel.

Ég vildi draga þetta sérstaklega fram vegna þess að þó svo að þetta frv. kveði á um að tryggja þurfi jöfn laun fyrir sömu vinnu, þá á það ákvæði við til sjós, ég fullyrði það. Það á við til sjós að konur hafi sömu laun fyrir sömu störf og karlmenn. Þetta hefur verið lengi í launakerfum til sjós. Að því leyti til þurfum við sjómenn og konur sem starfa til sjós ekki að kvarta. Hins vegar er undan miklu að kvarta í þeim réttindamálum sem ég benti á áðan og ég veit til þess að konur sem hafa starfað til sjós og þurft að fara í barneignarfrí hafa átt í miklum erfiðleikum með að ná einhverjum rétti í þeirri stöðu. Ég held meira að segja að ég geti fullyrt að það hafi ekki tekist hjá þeim að ná þeim rétti, a.m.k. hvað atvinnurekanda varðar.

Á þessu vildi ég vekja sérstaka athygli vegna þess að í allri þeirri umræðu sem hefur farið fram í dag og hefur verið mjög góð og athyglisverð hefur ekki verið vikið með neinum hætti að réttindum sjómanna.

Kannski er rétt að minnast á örfáar greinar í þessu frv. Það er m.a. vikið að skipun Jafnréttisráðs og ég sé að sjómannastéttinni er hvergi ætlaður vettvangur þar til að koma áhrifum sínum eða skoðunum á framfæri. Það kann að vera að menn hafi hugsað fyrir því í 12. gr. þar sem talað er um jafnréttisráðgjafa sem geti tekið við tímabundnum verkefnum og unnið að jafnréttismálum á tilteknu sviði. Það kann að vera að þar hafi menn hugsað einhvern veginn á ská og skakk fyrir þörfum sjómanna og þarna eigi þau sjónarmið sem hafa a.m.k. ekki verið í þessari umræðu og hafa oft og tíðum ekki átt upp á pallborðið og hafa a.m.k. ekki í lagasetningum Alþingis á kjaradeilum sjómanna átt neina samúð svo vægt sé til orða tekið. Það kann að vera að þeim sé komið fyrir í 12. gr. þar sem jafnréttisráðgjafar eiga að vinna tímabundin verkefni. En ég vildi benda á að mér fyndist ekki fara illa á því þó að sú stétt sem á kannski hvað erfiðast með að sækja þennan rétt ætti fulltrúa í Jafnréttisráði.

Ég geri mér grein fyrir því að Alþýðusambandið er þarna tilnefnt og hluti af íslenskum sjómönnum er innan Alþýðusambandsins.

Í 13. gr. frv. er talað um að gera jafnréttisáætlanir og tryggja að störfum verði gegnt jafnt af konum og körlum. Ég hygg að í ljósi reynslunnar sé ákaflega erfitt að koma þessu fyrir við sjómannsstörfin. Það er einfaldlega ekki það mikið sótt af kvenfólki í þau störf að þetta séu raunhæf markmið við störf til sjós.

Í meginatriðum var það ekki fleira sem ég vildi sérstaklega koma á framfæri. Ég held að frv. sé að mörgu leyti gott og beri að fagna því að það verði að lögum vonandi. Ég vonast til þess að þau orð sem ég hef látið falla verði mönnum umhugsunarefni í félmn. sem fær málið væntanlega til umfjöllunar. Það er þó eitt sem ég ætla að vekja athygli á til viðbótar, í 20. gr. er talað um að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefnt jafnt í þessar nefndir. Nú er það stundum svo að sjómannasamtökin eru beðin að tilnefna í nefndir og eiga þá samkvæmt þessu frv. m.a. að tilnefna bæði karl og konu. Það getur verið afar vandfundið hjá samtökum sem hafa svo fáar konur innan vébanda sinna að tilnefna í nefndastörf. Við höfum auðvitað orðið þess varir að sjútvn. hefur skrifað samtökum sjómanna bréf í þessa veru en ég veit til þess að sjómannasamtökin hafa ekki getað orðið við þeirri beiðni og ekki getað bent á konur til að starfa í nefndum eða ráðum. Það er eðlilegt því að það eru ákaflega fáar konur sem gegna sjómannsstörfum. En ég vil bara að endingu leggja áherslu á að ég held að leitun sé að stétt þar sem er eins mikið jafnræði í launum á milli karla og kvenna og í sjómannsstörfum.