Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:03:16 (3803)

2000-02-01 18:03:16# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fagna þessu frv. að flestu leyti en þó eru eitt eða tvö atriði sem mig langaði í tilefni af ræðu hæstv. ráðherra að drepa á og spyrja hann út úr. Nú er það svo eins og kunnugt er að þegar horft er á 20. gr. frv. þar sem vísað er til mikilvægis þess að í nefndum, ráðum og stjórnum sé gætt jafnræðis þá hefur samsvarandi lagagrein verið í gildi í núgildandi lögum. En þegar horft er yfir sviðið blasir ýmislegt við og m.a. í hv. félmrn. þar sem Jafnréttisráð er eingöngu skipað konum, þar sem svæðisráð vinnumiðlana er yfirleitt að langmestu leyti skipað körlum, þar sem í stjórn Vinnueftirlits ríkisins eru sitjandi átta karlar og ein kona, þar sem í kærunefnd húsaleigumála eru þrír karlar, þar sem í Félagsdómi eru fjórir karlar og ein kona og þannig gæti ég haldið áfram.

Ég átta mig fyllilega á því að til að mynda í mörgum þessara tilvika háttar þannig til að hæstv. ráðherra kallar eftir tilnefningum frá fjölmörgum aðilum og lætur vafalaust fylgja áminningu þess efnis að gætt skuli að jafnræði. En gangurinn er yfirleitt sá að tilnefningaraðilar hugsa með sjálfum sér að það séu einhverjir aðrir en þeir sem ætli að sjá um að gæta að þessu jafnræði. Síðan fær hæstv. ráðherra allar tilnefningarnar í hendur og þær eru einlitar á annan hvorn veginn og getur ekkert gert. Hvernig vill hæstv. ráðherra bregðast við vanda af þessum toga?