Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:10:41 (3807)

2000-02-01 18:10:41# 125. lþ. 53.2 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og það er á þskj. 331. Þetta er tiltölulega mjög einfalt frv. Það er þess efnis að við 14. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga, sem ég vil nú reyndar minna á að þarf að endurskoða áður en langt um líður, bætist ný málsgrein sem hljóði svo:

,,Ráðherra getur sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu skv. 1. mgr.``

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 133 21. des. 1994, um atvinnuréttindi útlendinga, eru útlendingar sem gegna tilteknum störfum undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda starfi þeir ekki hér á landi lengur en í fjórar vikur á hverju tólf mánaða tímabili. Ákvæði þessa efnis var nýmæli í lögunum en það var sett inn til þess að efla menningarlífið og meðal þeirra sem undanþágan gilti um voru listamenn. Starf listamanns er hins vegar ekki skilgreint í lagagreininni en í athugasemdum með frv. að lögunum var gert ráð fyrir að hugtakið yrði túlkað rúmt.

Á þeim tíma sem liðinn er, frá 1994, hafa orðið verulegar breytingar í þjóðfélaginu. Ljóst er að óhjákvæmilegt er að skilgreina hugtakið ,,listamaður`` og að skýra það kannski þrengra en menn gerðu þá. Markmið undanþáguheimildar fyrir listamenn var fyrst og fremst að gefa Íslendingum möguleika á að kynnast mismunandi listformi og fá tækifæri til að sjá listamenn hér á landi í sambandi við einstaka viðburði en ekki að skapa grundvöll fyrir viðvarandi atvinnustarfsemi.

Þetta frv. er flutt til þess að mynda lagastoð til að setja reglugerð þar sem tiltekið er hvaða stéttir það yrðu sem mundu falla undir hugtakið listamaður, þ.e. skáld, rithöfundar, tónskáld, myndlistarmenn, hljóðfæraleikarar, hljómsveitarstjórar, hljóðgervingarmenn, söngvarar, leikmyndahönnuðir, þjóðdansarar, ballettdansarar, leikarar, leikstjórar, svo og þátttakendur og starfsmenn við leiksýningar, kvikmyndir, fjölleikahús og sérstaka list- eða menningarviðburði, svo sem ljósameistarar, förðunar- og búningameistarar, hljóðmeistarar o.s.frv. Gera verður ráð fyrir að hér sé ekki um tæmandi skilgreiningu á hugtakinu listamaður að ræða og að fleiri kunni að falla þar undir innan sama ramma og að framan. Um aðra sem falla ekki undir skilgreiningu sem ákveðin yrði í reglugerð gildir undanþágan ekki.

Þetta frv. er sem sagt þess efnis að sækja verður um atvinnuleyfi fyrir starfsfólk sem menn vilja ráða til sín sem er ekki búsett á Evrópsku efnahagssvæði.

Mikil umræða hefur orðið í þjóðfélaginu um svokallaðar nektardansmeyjar og starfsemi nektardansstaða sem samkvæmt síðustu upplýsingum sem ég hef eru orðnir 12 talsins og ekki einungis hér á höfuðborgarsvæðinu heldur eru þrír á Akureyri og einn í Reykjanesbæ. Starfsemi þessara staða felst í því að gestum er boðið upp á að horfa á nektardans stúlkna í veitingasal en einnig boðið upp á sérstaka einkadansa sem viðskiptavinir þurfa að greiða sérstaklega fyrir. Stúlkur í þessum dansi eru af ýmsu þjóðerni. Sumar eru íslenskar en í stórum dráttum má lýsa því svo að þriðjungur þeirra sé af Evrópsku efnahagssvæði og þessi lagasetning hefur engin áhrif á starfsemi þeirra, þriðjungur er frá austantjaldslöndunum eða löndunum sem voru í Austur-Evrópu og þriðjungur frá Kanada eða Bandaríkjunum. Þessar stúlkur hafa sumar lent í vandræðum, einkanlega þær sem koma frá Austur-Evrópu. Þær eiga við tungumálaerfiðleika að etja, þær eiga við erfiðleika að etja vegna þess að þær eiga ekki aðgengi að sendiráði. Ég man eftir dæmum af ungverskum stúlkum sem hingað komu og lentu í vandræðum og þurftu aðstoð frá sendiráði til að komast til baka og hafði ekki verið komið sómasamlega fram við þær. Þeirra hlutur væri miklu betur tryggður ef þær hefðu atvinnuleyfi.

Þetta er ekki frv. um að banna þessa nektardansstaði enda er það ekki á vegum félmrn. Þetta er ekki frv. sem kemur í veg fyrir það að hingað komi útlendar stúlkur til þess að dansa því að eins og ég sagði áðan geta danskar og enskar stúlkur og stúlkur annars staðar af Evrópsku efnahagssvæði komið hingað alveg átölulaust. Þetta er fyrst og fremst til þess að ef hingað koma stúlkur frá Austur-Evrópu eða Bandaríkjunum þá þurfi þær að hafa atvinnuleyfi og njóta réttinda sem atvinnuleyfið veitir, m.a. með heilbrigðisskoðun og til launakjara o.s.frv.

Ég veit að hæstv. samgrh. er að hugleiða breytingar á lögunum um veitinga- og gististaði sem mundu taka á nektardansstöðunum með öðrum hætti. Félmrn. hefur ekkert yfir þeim að segja að öðru leyti en því að hægt er að krefjast atvinnuleyfis af ákveðnum hluta þessara stúlkna og auka með því starfsöryggi þeirra og forða þeim hugsanlega frá vanda og hremmingum sem hefur sannarlega komið fyrir að þær hafa lent í hér.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til hv. félmn. til athugunar.