Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:43:00 (3812)

2000-02-01 18:43:00# 125. lþ. 53.2 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú held ég að hæstv. félmrh. hafi orðið hált á svellinu. Hann ruglar saman óskyldum hlutum. Við gerðum réttast í því ef við færum og skoðuðum þessa sýningu og dæmdum þannig fremur en að fjalla um hana óséða eins og mér virðist hér vera gert. Auk þess geri ég afar mikinn greinarmun á listsköpun sem getur farið inn á þessi svið og kallast erótísk list af einhverju tagi eða sýningar. Myndlist og annað í þeim dúr er vel þekkt grein innan listarinnar en á alls ekki nokkurn skapaðan hlut skylt við þá ógeðfelldu starfsemi sem hefur nektina að féþúfu eins og gert er á þessum búllum og allt sem þessari starfsemi tengist.

Ég tek fram að þau dæmi sem ég nefndi eru fyrst og fremst niðurstaða reynslu manna af sambúð við þessa hluti erlendis. Ég fullyrði ekkert um á hvaða stigi þessi mál eru nákvæmlega hér. Ég þekki ekkert til þess og sjálfsagt er ekki fullreynt enn þá hvernig þróunin verður hér. Það sem ég er að vara við er hættan á því að þróunin verði sambærileg hér og orðið hefur í nálægum löndum. Þar tengjast þessari starfsemi mjög óæskilegir hlutir sem ég held að við gætum örugglega öll orðið sammála um að við vildum helst vera laus við hér á Íslandi og auðvitað alls staðar.

Ég er ekki viss um að dæmi sem hæstv. ráðherra tók af tiltekinni sýningu norður í landi eigi nokkurt sérstakt erindi inn í þessa umræðu, né heldur nafngreining á þeim ágæta höfuðstað Norðurlands, Akureyri, sérstaklega. Þar er að vísu er eitthvað um þessa starfsemi en hún hefur fest rætur í mörgum fleiri sveitarfélögum og er væntanlega mun umfangsmeiri hér í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir svo sem ekki máli hvar þetta er staðsett heldur hvað þarna er á ferðinni.