Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:02:54 (3817)

2000-02-01 19:02:54# 125. lþ. 53.3 fundur 190. mál: #A nýbúamiðstöð á Vestfjörðum# þál. 19/125, GAK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna góðum undirtektum félmrh. við þetta mál. Ég held að þingmenn Vestfjarða séu hér að hreyfa hinu þarfasta máli. Vestfirðir eru sá landshluti þar sem sennilega hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar starfa. Vegna fjölskylduhaga minna þekki ég ákaflega vel til að þess leyti. Ég þekki mjög marga útlendinga sem starfa á Vestfjörðum og hafa starfað þar í mörg ár. Sumir þeirra hafa nú þegar sótt um íslenskan ríkisborgararétt eða eru að huga að slíku og um það er ekkert nema gott að segja.

Maður hefur hins vegar greinilega orðið var við að fólkið veit lítið um rétt sinn, allt of lítið. Það er mjög lengi að átta sig á félagslegu réttindum sínum. Það býr hér kannski í nokkur ár áður en það fær höndlað sjálfsagða hluti t.d. eins og að fylgjast með fjölmiðlum og fréttum. Það veit ekki hvað er að gerast. Það nær ekki að kynna sér nægilega vel það sem um er að vera og lifir jafnvel í hópi án þess að íslenskur veruleiki sé þeim alveg ljós. Ég held að það væri afar þarft að koma á fót nýbúamiðstöð þar sem fólkinu stæði til boða ýmis þekking um réttindi og skyldur þess í íslensku samfélagi. Einkum er mikilvægt að huga að málakunnáttu fólksins, að hjálpa því að öðlast nokkurt vald á íslensku máli.

Það er ákaflega fróðlegt að sjá þegar sumt erlent fólk hefur verið hér í 2--3 ár. Þá koma stundum börn þessa fólks til dvalar hér á landi. Ég hef tekið eftir því að börnin fara eðlilega í skóla og umgangast jafnaldra sína. Börn eru ákaflega fljót að læra tungumál og það er mjög athyglisvert að kannski 10--12 ára barn er orðið altalandi á íslenskt mál, á sína félaga og fellur mjög vel að íslensku samfélagi, en er síðan að túlka fyrir foreldra sína vegna þess að þeir hafa ekki fengið þá þjálfun sem barnið hefur fengið. Ég held að við gætum gert þjóðinni mikið gagn og þessu fólki með því að gefa því kost á stuttum og hnitmiðuðum námskeiðum í íslensku. Þar mætti ekki fara í of mikið í einu. Þetta fólk er náttúrlega allt í fullri vinnu en þetta þyrfti að vera mjög skipulagt og þannig að fólk gæti tekið hvern áfangann á fætur öðrum. Auðvitað hefur svolítið verið gert af þessu og stéttarfélög á Vestfjörðum hafa látið þýða kjarasamninga sína á pólsku svo dæmi sé tekið. Ég er á því að við Íslendingar mundum mjög fljótlega njóta góðs af því í meira mæli ef þessu fólki væri fyrr gert kleift að skilja tungumál okkar, öðlast skilning á venjum okkar og framkomu. Þannig mundum við í raun öðlast meira af því sem þetta erlenda fólk getur fært okkur ekkert síður en við getum fært því meira.