Lífskjarakönnun eftir landshlutum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:42:05 (3823)

2000-02-01 19:42:05# 125. lþ. 53.4 fundur 264. mál: #A lífskjarakönnun eftir landshlutum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:42]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytjum hér till. til þál. um lífskjarakönnun eftir landshlutum. Eins og hv. frsm. Þuríður Backman kom inn á erum við að sækja okkur aukin rök til að berjast áfram í byggðamálunum. Við erum að sækja aukin rök til að styðja þá málefnalegu baráttu sem við heyjum fyrir enn sterkari aðgerðir í byggðamálum.

Það verður að segjast, herra forseti, að það var á vissan hátt dapurlegt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól skyldi ekki takast að samþykkja tillögur sem miðuðu að stærri átökum og stærri áföngum í aðgerðum í byggðamálum en raun ber vitni og það hörmum við.

Ég vil, herra forseti, gera að umtalsefni bara einn ákveðinn þátt sem við þurfum að draga enn skýrar fram hvað varðar lífskjör fólks og jöfnun þeirra út um allt land. Ég vil draga menntamálin sérstaklega fram. Eitt af grunnatriðum um mat á lífskjörum er að eiga aðgang að góðri og fjölbreyttri menntun fyrir ungt fólk. Við höfum hækkað sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár en, herra forseti, víðast hvar og mjög víða um land er ekki aðgengi að menntun fyrir ungt fólk lengur en að 16 ára aldri. Og eitt af því sem við leggjum til grundvallar varðandi lífskjör er m.a. hvað við eigum gott aðgengi að menntun. Ég tel, herra forseti, að afla þurfi svolítið sterkari gagna til þess að sækja þar fram og fara fram á breytingar á menntakerfi landsins sem taki mið af íbúum alls landsins, og taki líka mið af þeirri breyttu stöðu að foreldrar og fjölskyldurnar bera nú ábyrgð á sínu unga fólki til 18 ára aldurs og því eðlilegt að því fylgi líka ábyrgð á menntun þannig að ekki þurfi að senda þau að heiman nema í sem allra fæstum tilfellum til þess að sækja hana.

Ég bendi á heilu byggðarlögin þar sem ekki er völ á menntun fyrir fólk á aldrinum 16--20 ára. Ég bendi á t.d. Stykkishólm með 113 unglinga á aldrinum 16--20 ára og Grundarfjörð með 72, Ólafsvík með 113 íbúa á aldrinum 16--20 ára. Á þessu svæði er ekki völ á menntun heima fyrir fyrir þetta fólk. Það væri þess vegna verulegur ávinningur ef hægt væri að breyta menntakerfinu þannig að samfelld menntun í heimabyggð til 18 ára aldurs yrði sett sem markmið. Við höfum upplifað það mörg okkar að menntun stöðvaðist við 12 ára aldur, síðan við 14 ára aldur, nú 16 ára aldur, og aðgengi að menntun er einmitt eitt af því sem við leggjum afar mikið upp úr þegar við erum að meta góð lífskjör.

[19:45]

Þetta er eitt af því sem könnunin mundi m.a. laða fram, laða fram fleiri ástæður, fleiri rök, fleiri þætti sem ber að vinna að jöfnuði á á milli allra landsmanna. Könnunin mundi líka geta laðað fram á margan hátt góða kosti og það góða sem við finnum í því að búa úti á landi, sem er þá líka hluti af lífskjörunum.

Herra forseti. Það er virkilega ástæða til þess að sækja sér aukin vopn í baráttunni fyrir jöfnun aðstöðu fólks hvar sem það býr. Tilgangur þessarar þáltill. er að sækja sér aukin vopn til að berjast áfram fyrir jöfnun lífskjara í landinu öllu.