Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:49:24 (3838)

2000-02-02 13:49:24# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 206 hef ég beint fjórum fyrirspurnum til hæstv. heilbr.- og trmrh. sem varða tannréttingar barna og unglinga og opinberan stuðning við þær.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hvernig er háttað opinberum stuðningi við börn og unglinga vegna nauðsynlegra tannréttinga og um hve háar fjárhæðir er að ræða? Einnig óska ég eftir því að hæstv. ráðherra sundurliði þær upphæðir síðustu tíu ár.

Tilefni þessarar spurningar er að það hefur verið breytingum undirorpið hvernig hið opinbera hefur komið að stuðningi við tannréttingar og ýmsar breytingar þar átt sér stað, síðast undir stjórn núv. hæstv. heilbrrh. þar sem ákveðin upphæð til handa hverju barni og hverjum unglingi var tilgreind og var tilraun til þess að draga úr umfangi og kostnaði hins opinbera af þessari þjónustu. Nú ætla ég ekki að kveða upp stóra dóma um það atriði en það vekur hins vegar upp aðrar spurningar, m.a. þá sem ég get hér um og er númer tvö:

Hver er þessi opinberi stuðningur hlutfallslega miðað við áætluð heildarútgjöld í tannréttingum? Þá er ég að leita eftir því hvort þessi nýskipan mála hafi gert það að verkum að heildarkostnaður hafi að einhverju leyti breyst og hvort hið opinbera hafi með þessu ráðslagi sínu dregið úr hlutfallslegum stuðningi sínum vegna tannréttinga til barna og unglinga.

Í þriðja lagi er spurt: Er haft eftirlit með því að aðstandendur leiti lækningar fyrir börn sín þegar þörf krefur og ef svo er hvernig er því háttað? Þessi spurning byggir einnig á fyrri tveimur spurningunum, þ.e. hvort þessi nýskipan mála hafi gert það að verkum að dregið hafi úr því að fólk, foreldrar leiti með börn sín til lækninga vegna þessara kvilla. Spurningin er hvort og hvernig hið opinbera hefur eftirlit í þessum efnum. Hafa tilraunir hins opinbera til að hafa með því eftirlit minnkað með þessari nýskipan mála þegar ákveðinn hundraðshluti er ekki lengur greiddur eins og áður var?

Í fjórða og síðasta lagi: Er vitað hvort og þá í hversu miklum mæli fólk sækir ekki þessa læknisþjónustu fyrir börn sín vegna mikils útlagðs kostnaðar umfram opinberan stuðning? Nú eru tannréttingar með ýmsu móti. Sumir halda því fram að í of ríkum mæli sé um fegrunaraðgerðir að ræða en því er hins vegar ekki á móti mælt að í fjölmörgum tilvikum og langflestum er um að ræða alvarlegt heilbrigðisvandamál og vandamál sem oft og tíðum kemur ekki fram með fullum þunga fyrr en síðar á ævinni. Þess vegna eru þessar spurningar lagðar fram.