Þjónusta við geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:16:54 (3850)

2000-02-02 14:16:54# 125. lþ. 55.3 fundur 215. mál: #A þjónusta við geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir þingmenn á undan mér að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir þessar fyrirspurnir. Mér finnst það skólabókardæmi um aðstæður barna með geðræn vandamál hvernig þessir málaflokkar skarast. Geðræn vandamál eru ákveðin fötlun og þessi hópur á auðvitað að fylgja þeim hópi. Það sem gerist þarna er hins vegar að annar hópurinn er á vegum heilbrigðisgeirans meðan hinn er á vegum félagsþjónustunnar. Ég held að það væri mjög verðugt verkefni að skoða hvernig leiðrétta megi þetta þannig að börn með þessa fötlun sitji við sama borð og börn með annars konar fatlanir.

Vitað er að það vantar sérhæfða skammtímavist. Hún gæti þá nýst þessum börnum ásamt öðrum fötluðum sem jafnvel þjást líka af þessari fötlun. Þetta er spurning um að drifið verði í því að samræma þetta og samhæfa börnunum til hagsbóta.