Þjónusta við geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:20:34 (3852)

2000-02-02 14:20:34# 125. lþ. 55.3 fundur 215. mál: #A þjónusta við geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Með auknu fjármagni og fjölgun starfsfólks höfum við sem betur fer getað bætt þjónustuna við þessi börn. Við viljum gera enn betur í því. Ég lýsti í fyrri ræðu minni hversu miklu meira fjármagni er varið til þessa málaflokks en áður hefur verið og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði að meiri samvinnu þyrfti milli þeirra aðila sem vinna með þessi börn. Og þess vegna höfum við komið á samvinnu með Barnaverndarstofu, SÁÁ og barna- og unglingageðdeild, einmitt til að tengja þetta saman.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spyr um 12 millj. kr. upphæð sem veitt var fyrir nokkrum árum til barna- og unglingageðdeildar og átti að verja sérstaklega vegna vímuefnavandans. Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Við opnuðum t.d. um síðustu áramót unglingadeild á Vogi fyrir börn í vímuefnavanda. Það er ýmislegt að gerast í þessum geira og sérstaklega mikilvægt að allir þessir þræðir séu samanfléttaðir þannig að við nýtum þá alla sem best. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um að þetta er trúlega sá allra stærsti vandinn sem fólk með börn með geðræn vandamál og slíkar fatlanir stendur frammi fyrir.