Neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:22:30 (3853)

2000-02-02 14:22:30# 125. lþ. 55.4 fundur 216. mál: #A neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég held áfram að spyrjast fyrir um málefni geðsjúkra barna. Hér er til umræðu neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn. Því miður er engin neyðarmóttaka til staðar fyrir geðsjúk börn. Eins og fram kom í fyrirspurninni hér á undan er barna- og unglingageðdeildin, barnadeildin, lokuð um helgar. Það kom fram hjá foreldrum þessara barna sem við ræddum við að börnin hafa verið tekin inn á neyðarmóttöku geðdeildarinnar á Landspítalanum og jafnvel verið vistuð með fullorðnum geðsjúklingum sem er náttúrlega afleitt. Ef lítil börn eiga við geðræna sjúkdóma að stríða og þurfa aðstoð í neyðartilvikum þá er náttúrlega eitthvað mjög alvarlegt á seyði. Þegar börn koma inn í neyðarmóttöku er ástand þeirra mjög alvarlegt og þá er ekki boðlegt, eins og hefur því miður komið fyrir, að börnin séu vistuð með fullorðnum inni á geðdeild.

Reyndar var í sumar til umræðu að koma á neyðarmóttöku fyrir geðsjúk börn og jafnvel fíkniefnaneytendur á sama stað sem menn voru nú kannski ekki alveg sammála um hvort ættu samleið. Vissulega þurfa báðir þessir hópar einhverja leið til að fá þjónustu. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað líður áformum sem uppi hafa verið um að koma á fót neyðarmóttöku fyrir geðsjúk börn?