Rekstur Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:01:57 (3870)

2000-02-02 15:01:57# 125. lþ. 55.13 fundur 234. mál: #A rekstur Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hefur borið fram fsp. í þremur liðum og vil ég leitast við að svara þeim. Fyrst er spurt: Hvað líður fyrirhuguðu útboði á rekstri og starfsemi Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum?

Svar mitt er svohljóðandi: Með bréfi, dagsettu 11. ágúst sl., fól samgrn. Vegagerðinni að gera drög að útboðsskilmálum vegna þjónustusamninga um ferjuleiðir. Um er að ræða leiðirnar Þorlákshöfn/Vestmannaeyjar, þ.e. Herjólfsleiðina, Stykkishólmur/Flatey/Brjánslækur, sem Breiðafjarðarferjan Baldur siglir um, og síðan Ísafjörður/Vigur/Æðey þar sem Fagranesið hefur verið nýtt til siglinga og Árskógssandur/Hrísey þar sem Sævar hefur siglt. Rekstur ferjuleiðarinnar Dalvík/Grímsey, þar sem Sæfari hefur siglt, var fyrst boðinn út árið 1993 og síðan aftur 1996. Hefur sú tilhögun gefið góða raun og ekki um annað kunnugt en að almenn ánægja sé meðal heimamanna með þá þjónustu sem núverandi rekstraraðili veitir.

Gert er ráð fyrir að fyrstu drög að útboðsskilmálum liggi fyrir í febrúarmánuði nk. og verða kynnt fyrir viðkomandi aðilum í mars og apríl á næsta ári þar sem heimamönnum mun gefast kostur á að koma að athugasemdum sínum við útboðsgögn. Lokahönd verður væntanlega lögð á útboðsgögnin í maí og fer úboð fram í framhaldi af því. Bjóða verður út á Evrópska efnahagssvæðinu og er útboðsferlið því nokkuð langt en gera má ráð fyrir að samningar á grundvelli útboða verði gerðir á haustdögum árið 2000 með upphafi gildistíma 1. jan. 2001. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að núverandi rekstraraðilar ferja, þar með talinn Herjólfur hf., geti og muni bjóða í þennan rekstur.

Þann 7. des. sl. var undirritaður skammtímasamningur við Herjólf hf. þar sem núgildandi þjónustusamningur var framlengdur til eins árs til samræmis við framangreint, þ.e. til 1. jan. 2001. Samsvarandi skammtímasamningar munu verða gerðir við aðra rekstraraðila þjónustuleiða.

Annar liður fyrirspurnar hv. þm. er: Hvað sparast ef rekstur Herjólfs hf. verður boðinn út?

Tilgangurinn með útboðum er fyrst og fremst sá að leitast við að ná fram lægra verði í innkaupum á vöru og þjónustu og skapa markaðslegan jafnræðisgrundvöll undir rekstur og þjónustu en það er ekki gerlegt til lengdar með samningum án útboðs. Að sjálfsögðu er ekki hægt að segja til um fyrir fram í hverju einstöku tilviki hvort eða hversu mikið sparast hverju sinni en almennt séð er reynslan sú að með útboðum má lágmarka kostnað og auka hagkvæmni í rekstri. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að beita útboðum til að ná framangreindum markmiðum. Til þess að styrkja þessa viðleitni hefur henni verið markaður lagarammi með lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, sbr. lög nr. 55/1993 og lög nr. 85/1998 og reglugerð um innkaup ríkisins nr. 302/1996. Auk þess hefur Ísland með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbundið sig til að bjóða út innkaup og verkframkvæmdir, samanber t.d. tilskipun Evrópubandalagsins nr. 92/50/EB frá 18. júní 1992, um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu.

Í þriðja lagi er spurt: Hvernig sér ráðherra fyrir sér rekstur og starfsemi Herjólfs hf. í framtíðinni?

Því er til að svara að góðar samgöngur eru grundvöllur að traustu efnahagslífi og góðu mannlífi. Siglingar Herjólfs milli lands og Eyja er sú vegtenging sem Vestmannaeyjar hafa. Í þeim útboðsgögnum sem er nú verið að vinna, og það vil ég undirstrika, er megináhersla lögð á að þjónusta Herjólfs verði ekki minni en nú er og leitast verður við að setja inn í samningsgögnin hvata til þess að þjónustan verði enn bætt. Er því vonast til að í framtíðinni megi Vestmannaeyingar búa við bættar samgöngur svo sem aðrir landsmenn.