Kortlagning ósnortinna víðerna

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:26:54 (3879)

2000-02-02 15:26:54# 125. lþ. 55.10 fundur 252. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með þetta svar hæstv. umhvrh. og ég vona að það orðalag sem við heyrðum áðan að á næstu vikum verði litið heildstætt yfir verkefnið þýði ekki það sama og það þýddi þegar ég spurði hæstv. ráðherrann hér fyrr í vetur um það hvenær yrði lagt fram frv. um ný lög um mat á umhverfisáhrifum. Það átti líka að gera ,,á næstu vikum``. Ég vona sannarlega að þessi orð ráðherrans fái staðist og að á næsta ári verði gengið frá kortlagningu þeirra ósnortnu víðerna sem við höfum yfir að ráða í landi okkar. Það er vægast sagt mikilvægt að kortlagningunni verði lokið og þá á ég sérstaklega við áður en ráðist er inn á stóran hluta þessara víðerna og þau hreinlega eyðilögð um aldur og ævi.

Mig langar, herra forseti, til að ljúka máli mínu með því að vitna í greinargerð starfshópsins sem skilgreindi hugtakið ,,ósnortið víðerni`` en í niðurstöðu starfshópsins segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið með skilgreiningu og afmörkun ósnortinna víðerna er að varðveita svæði þar sem náttúran ræður ríkjum og maðurinn kemur þangað einungis sem gestur. Í þeim tilgangi er nauðsynlegt að draga úr ummerkjum um mannvist eins og kostur er, takmarka þarf vélknúna umferð og stefna markvisst að fækkun slóða og skála á svæðinu.``

Markmikið með varðveislu ósnortinna víðerna er samkvæmt tillögu starfshópsins, með leyfi forseta, ,,að taka frá samfelld ósnortin svæði fyirr komandi kynslóðir, að tryggja óhefta þróun náttúru samkvæmt eigin lögmálum um ókomin ár, að viðhalda samfelldum og ósnortnum svæðum til útivistar, rannsókna og fræðslu og að lokum að tryggja og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru.``