Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:58:35 (3889)

2000-02-02 15:58:35# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða er ekki tilefnislaus. Myndin er alltaf að skýrast betur fyrir Íslendingum. Stjórnarliðar hafa sagt að aldrei hafi verið gefnar tryggingar til Norsk Hydro fyrir því að þetta álver verði stækkað upp í 480 þús. tonn. Það berast fréttir af því að þar hafa menn litið öðruvísi á málið.

Þetta mál var dregið inn í Alþingi að tilhlutan Framsfl. vegna þess að hann vildi ekki bera einn ábyrgð á því að framkvæma það eins og til stóð. Þeir sögðu í umræðunni að það ætti bara að byggja hérna lítið, sætt álver og álíka litla og sæta virkjun með því. En nú er komið í ljós að menn þurfa að fá að vita meira. Norsk Hydro vill auðvitað vita meira.

Ættu ekki allir að skilja að stórt fyrirtæki eins og það sem hér er um að ræða vilji vita hvaða framtíð bíður eftir því fyrirtæki sem það ætlar að fara hér af stað með? Auðvitað. Það sem við hljótum að gagnrýna harðlega er að menn horfa ekki yfir málið í heild. Vitanlega á að verða til hér rammaáætlun um virkjanir áður en menn taka afstöðu til málsins. Það á ekki að fela sig með þau mál fyrir samningsaðilum eins og Norsk Hydro.

[16:00]

Þetta á að liggja fyrir. Menn eiga að fara til Norsk Hydro og ræða um málið á þessum grundvelli í heild og semja um það til þeirrar framtíðar sem það á að fara í. Ekki er mögulegt að fara í þann farveg sem ríkisstjórnin hefur stefnt í með þessu máli eins og hún hefur lagt það fyrir. Það er bara ekki hægt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann ekki að beita sér fyrir því að framhaldið verði þannig að farið verði í þessa rammaáætlun um virkjanirnar og að farið verði í umræðu um allt málið í heild þannig að hægt sé að svara Norsk Hydro hreint út um hversu stórt álver er hægt að byggja á Reyðarfirði?