Banka- og póstafgreiðslur

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:03:09 (3893)

2000-02-02 18:03:09# 125. lþ. 55.12 fundur 302. mál: #A banka- og póstafgreiðslur# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:03]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að það skiptir verulegu máli fyrir alla að eiga greiðan aðgang að ýmiss konar þjónustu í nútímasamfélagi. Þar er mikilvæg bankaþjónusta, póstþjónusta, ég ætla ekki að telja upp alla velferðarþjónustuna sem menn telja mikilvæga og er mikilvæg. En það er a.m.k. eitt af því sem við verðum að horfa til að bættar samgöngur hafa breytt dálítið þjónustumynstrinu í landinu. Þegar fækkun íbúa á sér stað gerist það líka, herra forseti, að erfiðara verður að halda uppi þeirri þjónustu sem menn telja sig þó ekki geta verið án.

Þegar Póstur og sími sálugi varð hlutaður sundur í Landssímann og Íslandspóst höfðu menn af því vissar áhyggjur að þjónustan mundi dragast saman hjá Íslandspósti vegna þess að það var almælt að þar væru peningamál og rekstur mun erfiðari en í símageiranum.

En menn hafa fundið leiðir til þess að mæta kröfu um þjónustu. Íslandspóstur hefur farið í samstarf við aðra aðila um afgreiðsluhúsnæði og menn hafa farið út í það að aðrir aðilar hafa tekið yfir þjónustu. Það er t.d. þannig í Grímsey að sá aðili sem er starfsmaður eða sér um þjónustu við flugið sér jafnframt um póstafgreiðslu. Þetta er auðvitað til hagsbóta fyrir alla, það er til hagsbóta fyrir alla ef við getum haldið úti reglulegri póstþjónustu.

Sums staðar hefur það líka gerst að bankar eða sparisjóðir hafa farið í samstarf við póstinn en þar er þá eingöngu um það að ræða að menn eru að samnýta húsnæði. Auðvitað er það af hinu góða en þó ekki nægjanlegt að mati margra. Þegar bankarnir eða sparisjóðirnir eiga í hlut virðast lög standa í vegi fyrir því að aðilar geti valið sér það form samstarfs sem þeir telja að henti best aðstæðum.

Þannig kemur það fram, herra forseti, í frétt um samstarf Landsbankans og Íslandspósts í Sandgerði, sem gengur nú eingöngu út á samnýtingu húsnæðis, að þegar fram líða stundir og lög leyfi þá muni aðilar taka upp það fyrirkomulag sem þeir virðast báðir telja hagkvæmara, sem er að Landsbankinn taki að sér þjónustu Íslandspósts svo það verði ekki einungis um að ræða samnýtingu á húsnæði heldur líka á mannskap. Mér er kunnugt um það, herra forseti, að víðar bíða bankastofnanir eða sparisjóðir eftir að þær aðstæður skapist að samvinna þeirra við póstinn geti orðið með hagkvæmara móti.

Ég hef þess vegna á þskj. 519 lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. viðskrh.:

1. Hvað stendur í vegi fyrir því að bankar eða sparisjóðir taki yfir afgreiðslu Íslandspósts á stöðum þar sem það hentar báðum?

2. Eru fyrirhugaðar breytingar á lögum af hálfu ráðherra til að af slíku samstarfi megi verða?