Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 08. febrúar 2000, kl. 15:18:09 (4111)

2000-02-08 15:18:09# 125. lþ. 58.8 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, TIO
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það hefur komið fram í máli allmargra þingmanna að þeir vilja blanda þessu máli saman við gagnagrunnsmálið svokallaða. Það er þá gert í skjóli þess að þar sé um að ræða persónuupplýsingar, þ.e. í gagnagrunnsmálinu. Ég sé að þeir þingmenn voru ganga í salinn og það er ánægjulegt að þeir gera það (Gripið fram í.) vegna þess að hér er um að ræða mikilsvert skilgreiningaratriði. Í þessu mikilvæga máli, gagnagrunnsmálinu, svo og í þessu máli sem einnig er mjög víðfemt og mikilvægt mál, er brýnt að við þingmenn reynum að leita leiða til þess að vera sammála um skilning á þeim gögnum sem liggja fyrir. Þá er ég að tala um alþjóðlega samninga og hins vegar gögn sem eru líka gild gögn, en það eru reglur alþjóðalæknasamtakanna, Helsinki-samþykktirnar svokölluðu, um vinnureglur lækna. Þó þær hafi ekki lagagildi og þó þær viðurkenni að vinnureglur lækna víki fyrir lögum þá hafa þær engu að síður mjög mikið gildi í þessu samhengi.

Til að byrja með langar mig samt til þess að koma inn á það að verði menn sammála um það sem mér heyrist að menn séu nú ekki, þ.e. að þetta frv. hér snerti ekki gagnagrunnsfrv. --- ég tel augljóst mál að það geri það ekki --- þá stendur eftir sem áður að þetta frv., ef af lögum verður, mun snerta starfsemi ýmiss konar grunna sem nú eru við lýði á Íslandi og eru upplýsingagrunnar og notaðir af þriðja aðila. Þetta á alveg sérstaklega við um svo ég taki sem dæmi krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins sem er grunnur sem er undir persónuupplýsingum. Og þetta á líka við um gagnabanka erfðafræðinefndar Háskóla Íslands, en í þeim gagnabanka eru upplýsingar um á fimmta hundrað þúsund Íslendinga og þær eru unnar upp úr þjóðskrá með milligöngu Hagstofu Íslands, fæðingar- og dánarskýrslum og ýmsum öðrum gögnum.

Það er ljóst að koma þarf í veg fyrir að þetta frv., ef að lögum verður, hindri starfsemi Krabbameinsfélagsins eða setji það með einhverjum hætti í uppnám. Þess vegna þarf að líta alveg sérstaklega til þeirra greina þessa frv. sem gætu þar haft áhrif á starfsemi af þessu tagi. Ég benti á það við umræðu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og benti ráðherrunum sérstaklega á að ósamræmi væri milli orðalags 8. gr. og athugasemda um 8. gr. Í athugasemdum um 8. segir í 1. mgr.:

,,Af ákvæðinu leiðir að vinnsla er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert þeirra sjö skilyrða sem þar eru talin upp.``

Samkvæmt þeim venjum sem ég hef kynnst í t.d. alþjóðlegum sáttmálum um þessi mál þá er 8. gr. þannig orðuð að það þarf að uppfylla öll skilyrðin til þess að hægt sé að vinna persónuupplýsingar. Ég get nefnt sérstaklega dæmi til samanburðar að þessu leyti og nefni þá 30. gr. Ef menn sjá hvaða lagatæknilegum aðferðum er beitt þar þá kemur orðið ,,eða`` á eftir hverjum einstökum tölululið í 30. gr. Það þýðir að verið er að setja sem skilyrði einn af þessum sex töluliðum.

Sama er að segja um 8. gr. og hugsanlega 9. gr. einnig, að nauðsynlegt er að setja þetta orð þar inn til þess að samræmi sé á milli 8. gr. og athugasemda um 8. gr. Hér er um afar mikilvægt atriði að ræða vegna þess að ef þetta væri samþykkt í þessu formi, þá væri í raun og verið að setja upp hindranir fyrir því til dæmis að Krabbameinsfélagið gæti haldið áfram starfsemi sinni sem hefur lagt grundvöll að mjög athyglisverðum rannsóknum á sviði krabbameins og læknisfræði sem tengist krabbameini og hefur staðið lengi og hefur verið sátt um.

En ljóst er af þessu frv. og af tilskipun Evrópusambandsins að þessi notkun hefur ekki verið fyllilega í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins og heldur raunar ekki fyllilega í sambandi við samþykktir Evrópuráðsins. En Evrópuráðið er þannig skipað að öll meðlimaríki Evrópusambandsins eru í því. Ísland er í Evrópuráðinu. Það eru 44 ríki í Evrópuráðinu og þau hafa komið sér saman um reglur um þessi mál sem eru raunar nýrri en tilskipunin og síðustu reglurnar sem hafa verið samþykktar á þeim vettvangi um þessi mál eru frá 1997. Þess vegna er afar mikilsvert að þetta verði skoðað rækilega í nefndinni.

Að því er varðar almennar upplýsingar um það hvernig megi fara með upplýsingar og hvað teljist persónugreinanlegar upplýsingar, hvað teljist persónuupplýsingar og hvað teljist ópersónugreinanlegar upplýsingar annars vegar og svo hins vegar hvaða grundvallarreglur eigi að taka mið af þegar verið er að setja ákveðnar kröfur um meðferð upplýsinga, þá er afar mikilvægt að menn komist að einhverju samkomulagi um hvað sé að ræða. Mikilsverðast er þó að menn geri sér grein fyrir því hvað teljast vera rannsóknir á mönnum og hvað teljist vera nýting upplýsinga sem er ekki aflað í rannsóknarskyni heldur aflað eingöngu í því skyni að lækna fólk. Það er ekki bara að alþjóðlegir samningar geri mjög mikinn greinarmun á þessu. Samkvæmt þeim greinarmun fjallar t.d. gagnagrunnurinn ekki um rannsóknir á fólki heldur nýtingu upplýsinga sem er safnað í öðrum tilgangi en vísindatilgangi. Þetta er ekki einungis skoðun sem kemur í ljós í alþjóðlegum sáttmálum um þessi mál heldur kemur þetta líka fram af hálfu alþjóðasamtaka lækna. Í Helsinki-yfirlýsingu alþjóðafélags lækna segir einmitt, og þar er skilgreining á þessu mjög mikilvæg:

,,Í læknisfræðilegum vísindarannsóknum verður að gera glöggan greinarmun á þeim rannsóknum sem í eðli sínu miða að greiningu á kvilla hins sjúka og lækningu hans og hins vegar á læknisfræðislegum rannsóknum sem gerðar eru í vísindaskyni eingöngu og hafa ekki beint gildi fyrir sjúkdómsgreiningu sjúklingsins eða meðferð þess sem undir rannsóknina gengst.``

Hér er um grundvallarmismun að ræða sem er afar mikilvægt að við komumst að samkomulagi um. Þegar einstaklingur gengst undir það að taka þátt í vísindarannsóknum gilda almennt þær reglur að hann þarf að gefa upplýst samþykki. Það þarf að gera honum grein fyrir því hvert sé upphaf rannsóknarinnar, hver tilgangur hennar er og hann á á öllum stigum málsins að geta gengið út úr þessu enda er ekki tilangur slíkrar vísindarannsóknar að bæta heilsu hans á nokkurn hátt, heldur er tilgangurinn vísindalegs eðlis. Hér á landi eins og annars staðar í heiminum gilda reglur sem hafa verið settar um þessi mál og koma raunar fram í samþykktum Evrópuráðsins, um að í öllum tilfellum er krafist þess sem heitir upplýst samþykki. Hér á Íslandi eru slíkir vísindagrunnar til og í öllum tilfellum hefur verið farið fram á upplýst samþykki þess sem gengst undir rannsóknina. Þegar hins vegar er verið að nýta upplýsingar sem eru skráðar í þeim tilgangi að hjálpa sjúklingnum, bæta stöðu hans, finna lækningu á sjúkdómi hans, verður til heilmikill gagnabanki sem er eingöngu komið upp til þess að lækna sjúklinginn eða veita honum úrræði á heilsugæslustöð eða heilbrigðisstofnun.

Þessar upplýsingar hlaðast upp og eru mjög mikils virði fyrir læknavísindin. Í þeim tilfellum að þessar upplýsingar eru notaðar í vísindaskyni, þá eru ákvæði sem heimila það. Þetta viðgengst t.d. í öllum skandinavísku löndunum. Þetta hefur viðgengist í 50 ár í Danmörku og skal ég koma hér á eftir ef ég hef tíma til frekar inn á þann upplýsingagrunn sem er gífurlega stór og miklu viðameiri en íslenski gagnagrunnurinn. Í þessum tilfellum er ekki beðið um upplýst samþykki. Það er ekki beðið um upplýst samþykki vegna þess að í raun hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki framkvæmanlegt. Danski gagnagrunnurinn er t.d. þannig að þar er ekki beðið um upplýst samþykki. Hann er notaður með mjög viðamiklum hætti í vísindarannsóknum. Það er heldur ekki svo með gagnagrunnana sem verða til á þennan hátt úr sjúkraskrám á Norðurlöndunum að beðið sé um upplýst samþykki vegna þess að það er ekki hægt að nota prinsippið um upplýst samþykki í slíkum tilfellum. Íslenski gagnagrunnurinn er grunnur sem nýtir upplýsingar úr sjúkraskrám sem verða til vegna sjúklinganna sjálfra og er þar af leiðandi sambærilegur við aðra slíka grunna sem eru ekki skráðir í vísindatilgangi heldur í þeim tilgangi að veita læknisfræðileg úrræði.

Það er afar mikilvægt að menn komist að samkomulagi um þetta vegna þess að það þýðir ekki fyrir menn að halda fram hér á Íslandi þetta sé einhvern veginn öðruvísi og sleppa því að taka tillit til alþjóðlegra samþykkta um þessi mál og sleppa því að taka tillit til Helsinki-yfirlýsingar alþjóðafélags lækna. Það nær engri átt.

Þær upplýsingar sem þannig verða til í slíkum gagnagrunnum ná yfir margar kynslóðir. Hluti af þeim sem upplýsingarnar eru um eru látnir og ég hef bent á það hér áður að það er gjörsamlega tilgangslaust að ætlast til þess að ég, ef t.d. einhverjar upplýsingar liggja fyrir um þann sem hér stendur sem tengjast t.d. krabbameini, geti gefið heimild til þess í dag að slíkar upplýsingar verði notaðar eftir fimmtíu ár, þar sem ómögulegt er að vita hvers slags spurninga verði spurt þá. Það er ekki hægt að krefjast upplýsts samþykkis í slíkum tilfellum. Hins vegar legg ég mikla áherslu á að þessir upplýsingagrunnar sem eru að sjálfsögðu viðkvæmir --- það er hárrétt hjá þeim þingmönnum sem hafa lagt áherslu á að það beri að fara mjög varlega með þá --- eru gífurlega verðmætir fyrir vísindin. Það eru ekki allar þjóðir sem nýta slíka grunna. En þá er yfirleitt ástæðan sú að grunnarnir eru lélegir, ófullkomnir. Skandinavísku þjóðirnar eru hins vegar mjög agaðar þjóðir og hafa komið sér upp mjög fullkomnum grunnum að þessu leyti og nýta þessa grunna í vísindarannsóknir. Ég skal með ánægju, annað hvort í seinni ræðu minni eða hér á eftir, ef ég hef tíma til, fara yfir notkun danska gagnagrunnsins, Landspatientregisteret, með þingmönnum þannig að þeir átti sig á því hvernig slíkur gagnagrunnur er notaður. Það vill nefnilega svo til að búið er að upplýsa menn hér á Íslandi allvel um þennan grunn. Það var haldið erindi um hann í Odda í tengslum við gagnagrunnsmálið.

[15:30]

Að því er varðar fullyrðingar sem hér hafa komið fram um að íslenski gagnagrunnurinn sé með persónugreinanlegum upplýsingum þá langar mig til að benda á samþykktir um þetta. Ég er með samþykkt frá Evrópuráðinu frá 1997 sem fjallar um vernd heilsufarsupplýsinga. Þar er einmitt talað um hvað séu persónugreinanlegar upplýsingar og hvað ekki. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að þýða þetta úr ensku:

,,Hugtakið persónulegar upplýsingar nær til allra upplýsinga sem snerta einstakling sem er persónugreindur eða persónugreinanlegur. Einstaklingur verður ekki skoðaður sem persónugreinanlegur ef það að greina persónu hans krefst óeðlilega mikils tíma eða mannafla til að vinna verkið. Í þeim tilfellum að einstaklingur er ekki persónugreinanlegur er vitnað í upplýsingar um hann sem ónafngreindar upplýsingar.`` Á ensku er notað orðið anonymous.

Í Evrópusambandinu hefur verið settur á fót sérstakur sérfræðingahópur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Við erum að tala um lagasetningu sem byggist á tilskipun Evrópusambandsins. Hann heitir á ensku, með leyfi forseta, The European Group on Ethics in Science and new Technologies. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að skráning upplýsinga í hinum íslenska, miðlæga gagnagrunni teljist ópersónugreinanlegur, anonymized personal health data, eins og segir í þeirra álitsgerð.

Ástæðan fyrir því er sú að mjög alvarleg tilraun er gerð til að dulkóða upplýsingarnar og ýmsar varúðarráðstafanir aðrar eru gerðar til að koma í veg fyrir að persónuupplýsingarnar séu persónugreinanlegar. Því er alveg ljóst að í tengslum við alþjóðasamninga þá stenst gagnagrunnurinn, eftir því sem mér sýnist, fullkomlega þær skilgreiningar um ópersónugreinanleg gögn sem fyrir hendi eru. Hins vegar ber að geta þess að auðvitað þurfum við að þróa hugmyndir okkar um þetta. Þetta er lifandi umræða sem verður að halda áfram. Mig langar til að geta þess að alþjóðasamtök lækna hafa sem slík ekki tekið afstöðu til gagnagrunnsins. Þau ætla hins vegar að tjá sig nú áður en langt um líður um gagnagrunna, ekki íslenska gagnagrunninn heldur gagnagrunna almennt. Það er að sjálfsögðu rétt afstaða að taka afstöðu til gagnagrunna almennt, sem eru þá notaðir á svipuðum grundvelli. Þau ætla sér að móta stefnu um slíka gagnagrunna og ég vænti þess að það verði mjög gagnlegt plagg sem þar birtist.

Varðandi sambærilega gagnagrunna ber að geta þess að mjög erfitt er fyrir mig og aðra að halda því fram að tveir gagnagrunnar séu fyllilega sambærilegir. Ég get t.d. ekki sagt það að danski gagnagrunnurinn Landspatientregistret sé fyllilega sambærilegur við íslenska gagnagrunninn. Notkunin á honum er heldur ekki fyllilega sambærileg við þá notkun á upplýsingum úr sjúkraskýrslum á Íslandi sem er mjög viðamikil. Ég ætla aðeins að geta þess í lokin hvers konar grunnur þarna er á ferðinni.

Landspatientregistret er langsamlega stærsti grunnurinn sem til er í Danmörku með heilsufarsupplýsingum. Tilgangur grunnsins er að afla heilbrigðisyfirvöldum efnis til tölfræðilegra rannsókna og byggja upp grundvöll fyrir áætlanir í heilsugæslumálum og rannsóknir í læknavísindum. Í grunninum eru hvorki meira né minna en upplýsingar um alla sjúklinga sem útskrifaðir hafa verið frá dönskum sjúkrastofnunum eða fengið úrræði á dagdeildum eða slysamóttökum. Á þessum grundvelli er skráin talin nálgast 100% tilfella. Á ári eru skráðar rúmlega ein milljón útskrifta í þessa skrá og skráin nær yfir persónuupplýsingar --- ég tek það fram --- persónuupplýsingar um 700 þús. einstaklinga í árgangi, þ.e. þá sem hafa verið lagðir inn einu sinni eða oftar. Þessar upplýsingar eru notaðar í rannsóknarskyni með leyfi heilbrigðisyfirvalda eftir ákveðnum reglum og háð eftirliti. Óháð nefnd lækna veitir heilbrigðisyfirvöldum ráðgjöf varðandi meðferð upplýsinganna.

Síðan kemur það sem ég tel að skipti miklu máli í þessu sambandi. Ekki er stuðst við upplýst samþykki fyrir notkun upplýsinganna í rannsóknarskyni. Í 50 ára sögu þessa grunns hefur aldrei komið eitt einasta dæmi um misnotkun á þessum upplýsingum.

Frá árinu 1995 hafa upplýsingar frá geðdeildum og geðlækningastofnunum verið skráðar í þennan grunn. Þær eru sendar þaðan úr grunninum til þess sem heitir á dönsku Det Physiske Centralregister þar sem upplýsingar eru nýttar í rannsóknarskyni, upplýsingar frá geðdeildum og geðlækningastofnunum. Vélrænn flutningur upplýsinganna er með milligöngu þess sem kallað er CPR-registret sem er oft kallað Data-centralen. CPR-registret er rekið af einkafyrirtæki í eigu amerískra hluthafa. Fyrirtækið heitir raunar Data-centralen A/S en ameríska heitið á þessu fyrirtæki er Dan Computer Management. Þessi skrá er keyrð saman við fjölmarga læknisfræðilega grunna í Danmörku sem tengjast Landspatient-registrinu.

Þessi mikli gagnagrunnur Dana er einnig notaður í heild sem hluti af öðrum grunnum og er keyrður saman við aðra grunna, svo sem það sem heitir á dönsku Forbyggelse-registret en tilgangur þess grunns er að skapa grundvöll fyrir tölfræðilega úrvinnslu og rannsóknir á heilbrigðis\-ástandi dönsku þjóðarinnar í heild. Í þennan grunn streyma upplýsingar um greiðslur til sjúklinga úr tryggingakerfinu, ýmsar bótagreiðslur og félagslegar upplýsingar.

Þau dæmi sem ég hef nefnt hér eru tekin til þess að undirstrika að að sjálfsögðu er hver gagnagrunnur með sínu sniði. Í raun er ekki hægt að fullyrða að neinir tveir grunnar séu fyllilega sambærilegir en það er náttúrlega ekki hægt að fallast á að íslenski miðlægi gagnagrunnurinn sé þannig vaxinn að það eigi að gilda sérreglur um hann vegna þess hve umfangsmikill hann sé. Þessi grunnur, þ.e. Landspatientregistret, er að sjálfsögðu miklu umfangsmeiri en gagnagrunnurinn íslenski, hann er umfangsmeiri bæði að því er varðar fjölda einstaklinga og víðfeðmi upplýsinganna.

Í öðru lagi ber að geta þess að óvenjulegt er að byggja kröfu um sérmeðferð á upplýsingum úr sjúkraskrá á magni upplýsinganna. Ég minnist þess þess ekki að hafa séð nokkurs staðar í alþjóðlegum gögnum um sambærileg mál að magn upplýsinga skeri úr um kröfur um meðferðina. Ég hef aldrei heyrt það fyrr. Siðfræði er í raun ekki magnfræði heldur byggist siðfræði á ákveðnum grundvallarreglum sem ber að virða í öllum tilfellum þegar um sambærilega notkun er að ræða.

Ég hygg að ég eigi nú möguleika á að koma hér aftur upp í umræðunni en þetta vildi ég gera að umræðuefni sérstaklega vegna þess að mér finnst að um þennan þátt málsins hafi verið talað án þess að taka tillit til viðeigandi alþjóðlegra samþykkta. Það á jafnt við um alþjóðlegar stofnanir eins og Evrópuráðið en einnig um alþjóðasamtök lækna.