Áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðið

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:05:45 (4131)

2000-02-09 14:05:45# 125. lþ. 60.1 fundur 307. mál: #A áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Nú stendur fyrir dyrum umfangsmikil stækkun Evrópusambandsins en sambandið hefur samþykkt að eiga viðræður við ein tólf ríki um aðild. Sú breyting hefur auðvitað áhrif á stöðu og vægi samnings okkar um Evrópska efnahagssvæðið sem kunna að draga dilk á eftir sér inn í framtíðina.

Okkur sem fyrir hönd Alþingis eigum í samstarfi við þing annarra þjóða, ekki síst þeirra sem eru innan ESB, dylst ekki að Evrópska efnahagssvæðið er ekki mjög ofarlega í hugum evrópskra þingmanna. Oft og tíðum vita þeir harla lítið um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þeir hafa lítinn áhuga á því og yfirleitt gera þeir sér ákaflega litla grein fyrir því um hvað það snýst. Það er ákveðin hætta, herra forseti, að þessi stækkun ESB kunni að draga enn úr vægi samningsins. Ég tel enn fremur að á síðustu árum hafi formlegt vægi EES í Evrópusamstarfinu minnkað og samhliða hafi dregið úr möguleikum landa eins og Íslands til að hafa áhrif á þær ákvarðanir ESB sem varða beinlínis hag landa eins og okkar.

Ég minni t.d. á breytingarnar sem voru gerðar á Maastricht-sáttmálanum á fundinum í Amsterdam fyrir nokkrum árum þar sem komið var upp sérstöku samráðsferli milli ráðherraráðsins og Evrópuþingsins til þess að draga úr ágreiningi á milli þessara tveggja stofnana. En eins og það ferli er sett upp tel ég að dregið sé verulega úr möguleikum EFTA-landanna til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða beinlínis hag okkar og sem lenda í þessu samráðsferli. Samhliða dvínandi möguleikum okkar til þess að hafa áhrif innan ESB er ljóst að viðræðurnar vegna stækkunar ESB, sem kunna að standa yfir við allt að tólf ríki í einu, munu taka mikinn tíma og mikið atgervi frá embættismönnum og stjórnmálamönnum Evrópusambandsins. Ég óttast að þetta langvinna stækkunarferli kunni í sjálfu sér að hafa áhrif og leiða til enn minni áhrifa okkar innan Evrópska svæðisins og sömuleiðis getu ESB til þess að sinna þróun og framkvæmd EES-samningsins. Ég óttast með öðrum orðum, herra forseti, að ESB sé í rauninni að þróast frá Evrópska efnahagssvæðinu og geti haft óheillavænlegar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga. Þetta eru þess vegna mál sem hljóta að verða á dagskrá og eru ákaflega mikilvæg fyrir okkur og mikilvægt er að við bregðumst rétt við þessari þróun.

Ég hef þess vegna spurt hæstv. utanrrh. hvaða áhrif hann telji að fyrirhuguð stækkun Evrópusambandsins hafi á stöðu, framkvæmd og þróun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég spyr hann sérstaklega eftir því hvort hann telji að möguleikar okkar til að hafa áhrif á ákvarðanir sambandsins sem varða beinlínis hag okkar kunni að minnka við þessa stækkun.