Áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðið

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:12:11 (4133)

2000-02-09 14:12:11# 125. lþ. 60.1 fundur 307. mál: #A áhrif stækkunar Evrópusambandsins á Evrópska efnahagssvæðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir það hversu fljótt hann bregst við þessari fsp. Ég lagði hana fram fyrir örfáum dögum og hæstv. ráðherra svarar henni núna einum þremur dögum eftir að hún kom fram.

Ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir svör sem voru næsta skýr þrátt fyrir að málið sé ákaflega flókið og viðamikið. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að þróunin sem er fyrirsjáanleg innan Evrópusambandsins muni að öllum líkindum veikja stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu og muni draga úr vægi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Eins og ég skynja þróun Evrópusambandsins finnst mér sem það gæti ákveðinnar stöðnunar í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og að hann nái ekki að fylgja eftir þróun Evrópusambandsins. Þess vegna segi ég það að ég hlakka til þess að hæstv. ráðherra leggi fram þá skýrslu sem er nú verið að vinna að í ráðuneyti hans. Ég heyri það á máli hæstv. ráðherra að þar er um að ræða viðamikið efni en ákaflega forvitnilegt. Þar er m.a. verið að velta upp þeim kostum sem eru í stöðunni fyrir Ísland andspænis þeirri þróun sem hæstv. ráðherra dró þannig upp að útlínur þeirrar þróunar virtust ákaflega skýrar.

Ég held þess vegna, herra forseti, að eins og staðan er í dag í þessum málum muni þetta óhjákvæmilega verða á dagskrá íslenskra stjórnmála á næstu árum.