Gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:53:05 (4149)

2000-02-09 14:53:05# 125. lþ. 60.5 fundur 309. mál: #A gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Skýrslan sem fyrirspyrjandi vitnar til heitir Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni og var hún unnin af Iðntæknistofnun samkvæmt beiðni forsrn. og Byggðastofnunar.

Í skýrslunni voru settar fram hugmyndir um verkefni sem eru á forræði ríkisins og gætu hugsanlega hentað til fjarvinnslu úti á landi. Sumar verkefnahugmyndir, sem eru settar fram, snerta verksvið fleiri en eins ráðuneytis og því er mikilvægt að viðhafa samræmd og fagleg vinnubrögð. Ég hef því tekið málið upp í ríkisstjórn og samþykkti ríkisstjórnin að eiga samstarf um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni með notkun upplýsingatækninnar. Það verður gert með því að ráðuneytið skoðar sameiginlega hvaða verkefni henti best til vistunar á landsbyggðinni, hvaða skilyrðum slík vistun þurfi að vera háð og hvernig að flutningi þeirra skuli staðið. Þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt ráðuneytisstjórum allra ráðuneytanna.

Í framhaldi af þessu vænti ég þess að þessi mál verði tekin til umræðu í hverju ráðuneyti fyrir sig.

Hvað varðar iðn.- og viðskrn. hef ég boðað alla forstöðumenn stofnana sem starfa á verksviði þeirra ráðuneyta á minn fund til að ræða sérstaklega þau atriði sem koma fram í 6. tölul. þál. um stefnumótandi byggðaáætlun 1999--2001. Iðnrn. hefur í samvinnu við Byggðastofnun og Iðntæknistofnun ákveðið að vinna að útfærslu a.m.k. 10 verkefna sem henta til fjarvinnslu. Við val á verkefnum verður leitað álits frá mismunandi aðilum til frekari skoðunar. Þegar verkefnin hafa verið valin verða gerðar viðskiptaáætlanir fyrir þau sem munu þjóna tvíþættu hlutverki:

Í fyrsta lagi munu þessi verkefni og þær viðskiptaáætlanir sem þeim fylgja nýtast sveitarfélögum og/eða fyrirtækjum til uppbyggingar gagna- og fjarvinnslu á viðkomandi svæði.

Í öðru lagi tel ég að þær viðskiptaáætlanir sem verða unnar geti orðið fyrirmynd að því hvernig hægt er að móta viðskiptaáætlanir á þessu sviði. Ég tel afar brýnt að allt þetta mál verði unnið eins faglega og framast er kostur. Því miður höfum við dæmi um að ráðist hafi verið í fjárfestingar á þessu sviði án þess að rekstrargrundvöllur hafi verið tryggður.

Á vegum Byggðastofnunar er unnið að nokkrum verkefnum er tengjast fjarvinnslu. Stofnunin er nú að vinna að því að setja upp upplýsingavef um verkefni og þjónustu á sviði fjarvinnslu. Á þennan vef munu einstaklingar og fyrirtæki geta skráð grunnupplýsingar um þá þjónustu sem þau geta boðið. Ríkisstofnanir og aðrir sem vilja láta vinna fyrir sig verkefni geta á sama hátt skráð þau í þennan upplýsingavef. Þessi vefur yrði því eins konar markaðstorg hvað varðar framboð og eftirspurn eftir þjónustu á þessu sviði.

Þá er Byggðastofnun að vinna að sérstakri athugun á hindrunum og tækifærum í uppbyggingu fjarvinnslu og gagnavinnslu á landsbyggðinni. Í þessari athugun verður m.a. skoðuð reynsla nágrannaþjóða og sérstaklega kannað hvaða áhrif þessi nýja atvinnustarfsemi hefur haft á þróun byggðar.

Svar við síðari spurningunni er á þessa leið: Frá því að ég tók við starfi iðn.- og viðskrh. um síðustu áramót hef ég ekki látið gera sérstaka athugun á því að hvaða marki ráðuneyti og stofnanir í eigu ríkisins hafa nýtt sér þjónustu þeirra aðila sem bjóða upp á gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni. Ég veit þó af því að Þjóðminjasafnið hefur verið að vinna að samningi á þessu sviði við aðila á Húsavík um skráningu muna í gagnagrunn. Á næstu vikum og mánuðum vænti ég þess að ýmislegt muni gerast í þessum málum og sérstaklega bind ég miklar vonir við skráningu heilbrigðisgagna sem er gríðarlega viðfangsmikið verkefni sem þarf að ráðast í á næstunni.