Gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 09. febrúar 2000, kl. 14:56:57 (4150)

2000-02-09 14:56:57# 125. lþ. 60.5 fundur 309. mál: #A gagna- og fjarvinnsla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 125. lþ.

[14:56]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Sniglar og skjaldbökur eru hreinustu spretthlauparar í samanburði við það sem gerist þegar verið er að tala um að færa verkefni frá hinu opinbera á höfuðborgarsvæðinu út á land. Við skulum tala tæpitungulaust um þetta. Þannig er það. Það blasir við að þrátt fyrir að við höfum margoft í þessum þingsal ályktað um að stefna eigi að því að færa verkefni frá hinu opinbera af höfuðborgarsvæðinu út á land og nota til þess nútímatækni á sviði fjarskiptamála gerist óskaplega fátt. Það er bara einfaldlega þannig. Núna eru að verða fimm mánuðir eða svo síðan skýrsla kom sem kvað á um að það væru til 211 verkefni sem hægt væri að flytja strax út á land og við sjáum að því miður er afraksturinn ákaflega lítill. Ég met hins vegar mikils það frumkvæði sem hæstv. iðnrh. er núna að sýna en ég held hins vegar að tíminn sé að hlaupa frá okkur. Fólk á landsbyggðinni er því miður að missa trúna á að eitthvað gerist í þessum efnum og þess vegna hvet ég hæstv. iðnrh. til að taka málið mjög föstum tökum og herða þau þar sem hægt er og gera yfirmönnum stofnana og ráðuneyta ljóst að það er fullkomin alvara á bak við það að flytja þessi verkefni út á land.